Minning Ólafs Þ. Þórðarsonar

Fimmtudaginn 01. október 1998, kl. 14:13:17 (3)

1998-10-01 14:13:17# 123. lþ. 0.4 fundur 4#B minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Aldursforseti RA
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 123. lþ.

[14:13]

Aldursforseti (Ragnar Arnalds):

Ólafur Þ. Þórðarson, fyrrverandi alþingismaður og skólastjóri, andaðist á heimili sínu í Borgarfirði sunnudaginn 6. september, fimmtíu og sjö ára að aldri.

Ólafur Þ. Þórðarson var fæddur 8. desember 1940 á Stað í Súgandafirði. Foreldrar hans voru hjónin Þórður Ólafsson bóndi þar og Jófríður Pétursdóttir húsmóðir. Hann lauk héraðsskólaprófi á Núpi 1957, búfræðiprófi á Hvanneyri 1960 og kennaraprófi í Reykjavík 1970. Hann var skólastjóri barnaskólans á Suðureyri 1970--1978 og skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti frá 1978. Oddviti Suðureyrarhrepps og jafnframt formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga var hann 1974--1978, var í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands 1981--1993 og í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, síðar Byggðastofnunar 1983--1995. Við alþingiskosningarnar 1971 var hann í fyrsta sinn í kjöri á lista Framsfl. í Vestfjarðakjördæmi og tók sæti varamanns á þingi 1972 og 1975--1978. Árið 1979 var hann kjörinn alþingismaður Vestfirðinga og hélt því sæti til 1995. Eftir það tók hann sæti varamanns á þingi 1996--1998, sat á 24 þingum alls. Hann var 2. varaforseti sameinaðs þings 1983--1987.

Ólafur Þ. Þórðarson átti heimili á æskustöðvum sínum langt fram eftir ævi. En hugur hans hneigðist löngum til landbúnaðar. Um tvítugt lauk hann námi í bændaskóla. Áratug síðar aflaði hann sér kennararéttinda og hafði síðan skólastjórn og kennslu að aðalstarfi, þar til hann hóf störf á Alþingi. Lengst af hafði hann jafnframt jarðnæði til búskapar. Hann átti bú á Vilmundarstöðum í Reykholtsdal, síðan í Efranesi í Stafholtstungum og loks á Eyri í Flókadal. Þar var hann að bústörfum þegar hann féll frá.

Ólafur Þ. Þórðarson var atkvæðamaður þar sem hann kom að málum. Á Alþingi tók hann oft til máls og í ræðum hans leyndi sér ekki að hann var minnugur, víðlesinn og margfróður. Honum var létt um mál og hann var ódeigur í kappræðum, rökfastur og hnyttinn. Hann var staðfastur flokksmaður, ötull baráttumaður fyrir hagsmunum dreifbýlisins og umbótamálum í kjördæmi sínu. Á góðum aldri varð hann að draga sig í hlé og er nú látinn fyrir aldur fram.

Ég vil biðja þingheim að minnast Ólafs Þ. Þórðarsonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]