Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Fimmtudaginn 01. október 1998, kl. 21:22:03 (21)

1998-10-01 21:22:03# 123. lþ. 2.1 fundur 10#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 123. lþ.

[21:22]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Í fréttum sjónvarpsstöðvanna í gærkvöldi voru sýndar myndir frá Kosovo af líkum karla, kvenna og barna sem höfðu verið myrt á grimmilegan hátt. Þetta fólk hafði það eitt til saka unnið að vera af albönskum uppruna og búa á landsvæði sem Serbar hafa stjórnað af hörku um árabil.

Fyrr í vikunni var hér á ferð framkvæmdastjóri alþjóðlegra stuðningssamtaka við íbúa Austur-Tímor. Hann sýndi okkur myndir af fórnarlömbum indónesískra stjórnvalda sem hafa verið pyntuð á hrottafenginn hátt vegna þess eins að þau sætta sig ekki við stjórn Indónesa sem réðust inn í Austur-Tímor fyrir 23 árum. Þessi tvö dæmi frá ólíkum heimshlutum minna okkur enn og aftur á hvílíkt forréttindafólk við erum á Íslandi. Við búum við frið og öryggi. Auk þess er allt í sómanum að meðaltali og við getum borið okkur saman við nánast hvaða þjóð sem er og verið stolt af. En meðaltölin blekkja. Hér eins og í Evrópu ættum við að beina sjónum að fjölgun aldraðra, gerbreyttum fjölskylduháttum og hópum fólks sem lifir á jaðri samfélagsins nánast utan við lög og rétt.

Íslendingar eru ung þjóð en á næstu áratugum mun gömlu fólki fjölga ört. Við erum að byggja upp stórmerkilegt lífeyriskerfi sem væntanlega mun auðvelda okkur að tryggja öldruðum og fötluðum bærileg kjör í framtíðinni. Það firrir okkur þó hvorki ábyrgð gagnvart þeim hópi aldraðra sem býr við afar kröpp kjör né þeim sem minna nú á sig hér utan dyra.

Samsetning fjölskyldna er að breytast hér á landi sem annars staðar. Á tæplega fjórðungi heimila býr aðeins einn fullorðinn. Á öðrum fjórðungi heimila búa tveir fullorðnir með börn undir 16 ára aldri. Á tæplega 38% heimila búa fleiri en tveir fullorðnir og engin börn og heimili einstæðra foreldra eru 5,4%. Tölur á borð við þessar hafa vakið margar spurningar meðal þeirra sem spá í framtíðina um þau áhrif sem breyttir fjölskylduhættir eiga eftir að hafa á menningu, félagsþjónustu, atvinnulíf, húsnæðismál o.fl. Mér vitanlega eru ekki til neinar kannanir hér á landi á samsetningu þess hóps eða fjölda þeirra sem eru á jaðri samfélagsins, þeirra sem eru óvirkir og utan við allt, þeirra sem ekki njóta góðærisins margumrædda. Í þeim hópi eru t.d. þeir sem lifa undir fátæktarmörkum, hluti fatlaðra og aldraðra, sjúklingar, unglingar, afbrotamenn, eiturlyfjaneytendur og heimilislausir. Í könnun Tryggingastofnunar á högum fatlaðra hér á landi, sem kynnt var á aðalfundi sl. föstudag, kom fram að í hópi fatlaðra er að finna fólk sem hvergi er skráð, fólk sem hvergi á heima. Það væri fróðlegt að fá að vita hversu margir eru heimilislausir hér á landi en það er einmitt hópur sem sjónir hafa beinst að í öðrum löndum vegna þess að hann fer stækkandi.

Hæstv. forseti. Ég fæ ekki séð að pólitísk umræða hér á landi taki nægjanlegt mið af þeim þjóðfélagsbreytingum sem hér hafa orðið og eru fram undan, allra síst að þeir sem lifa á jaðrinum fái þá athygli og aðstoð sem þeim ber. Það kann að reynast okkur hættulegt í framtíðinni. Þess má minnast hér að enska kirkjan sá ástæðu til að skamma stjórnmálaflokkana í Bretlandi, jafnt Verkamannaflokkinn sem Íhaldsflokkinn fyrir að gleyma hinum fátæku í kosningabaráttunni 1997. Þar eins og hér beindist athyglin einkum að hinni breiðu miðju þjóðfélagsins, vinnandi fólki, bæði körlum og konum.

Það veitir auðvitað ekki af að rætt sé um stöðu vinnandi fólks, ekki síst kjör kvenna sem enn standa mun lakar að vígi en karlar hvað varðar völd, áhrif og möguleika til að sjá sér farborða. Það veitir ekkert af umræðu um hvernig megi samræma betur einkalíf og atvinnulíf fólks sem kostar svo marga blóð, svita og tár í erli dagsins vegna skorts á þjónustu og sveigjanleika á vinnumarkaði, að ekki sé minnst á nauðsyn breytinga á hefðbundinni verkaskiptingu kynjanna. Umræðan um þá sem verst standa að vígi má þó ekki gleymast.

Hæstv. forseti. Íslensk stjórnmál einkennast af mikilli upplausn um þessar mundir. Afleiðingar breyttra þjóðfélagshátta, t.d. mikill flutningur fólks frá landsbyggðinni og kvótakerfið er að kalla fram ný framboð meðal fyrrv. stuðningsmanna Sjálfstfl. Mér segir svo hugur um að mörgum framsóknarmanninum svíði stóriðjustefna síns flokks sem virðist reiðubúinn til að sökkva hálfu landinu í þágu stóriðju sem innan nokkurra ára verður svo tæknivædd að þar mun varla nokkur mannshönd koma nærri. Tilraunir svokallaðra jafnaðarmanna til að búa til krataflokkinn mikla, samfylkinguna, hefur leitt til þess að í stað þess að sameina er búið að sundra rétt einu sinni eins og gerðist 1930, 1938, 1956, 1967, 1983 og 1995. Í valnum liggja Kvennalistinn og Alþb. klofin í herðar niður og ómögulegt er að átta sig á hvert stefnir. En til hvers er þetta allt saman? Að hvers konar samfélagi er verið að stefna og í þágu hverra? Þeim spurningum er enn ósvarað.

Stjórnmál framtíðarinnar munu eflaust snúast um hagsmuni og togstreitu milli hópa. Þau munu þó vonandi snúast meira um ákveðnar hugmyndir og lífssýn en um hagsmuni stórra þjóðfélagshópa líkt og einkenndi stjórnmálin á fyrri hluta þessarar aldar. Þau munu m.a. fjalla um þarfir andspænis græðgi eins og presturinn gerði að umræðuefni í frábærri ræðu sinni við setningu þings fyrr í dag. Það verður eflaust tekist á um varðveislu náttúrunnar andspænis nýtingu hennar, um rekstur og umfang velferðarkerfisins, um jafna stöðu karla og kvenna, um lýðræðið og áhrif íbúanna á þróun samfélagsins. Ég vil trúa því að stjórnmál framtíðarinnar muni aftur beina sjónum að grundvallarhugsjónum sem nú skortir svo átakanlega. Ég vona að frelsi, jafnrétti, jöfnuður og ábyrgð á okkar minnstu bræðrum og systrum komist til vegs og virðingar og að Íslendingar beri gæfu til að skapa hér enn betra samfélag jöfnuðar og réttlætis þar sem þeir gleymast ekki sem standa utan dyra. Ég vil sjá umræðu um grundvallarspurningar á þeim átakavetri sem nú fer í hönd.

Á meðan við tökumst á um framtíð stjórnmálanna skulum við ekki gleyma því að fyrir utan bíður heimur sem þarfnast okkar. Við Íslendingar eigum sjálfstæða rödd á vettvangi þjóðanna sem við eigum að nýta, í þágu barnanna í Kosovo, í þágu íbúanna á Austur-Tímor sem berjast fyrir sjálfstæði sínu, í þágu allra þeirra sem þrá að lifa við frið, frelsi og öryggi. Ábyrgð okkar er mikil og við erum aflögufær bæði í orði sem efni. Gleymum því ekki þótt fram undan sé kosningaár. --- Góðar stundir.