Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Fimmtudaginn 01. október 1998, kl. 22:00:40 (26)

1998-10-01 22:00:40# 123. lþ. 2.1 fundur 10#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 123. lþ.

[22:00]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Heilbrigðismál hafa á þessu kjörtímabili verið í brennidepli eins og á því síðasta og þegar ég segist fagna því þá er það vegna þess að þetta er einn mikilvægasti málaflokkurinn sem ríkisvaldið hefur með höndum. Þetta er viðkvæmasti málaflokkurinn og einmitt hér skiptir gríðarlega miklu máli að vel sé haldið á spilum. Ég heyrði stjórnmálamann halda því fram í útvarpi að heilbrrh. stæði í stríði við öryrkja vegna tengingar bóta við tekjur maka. Þeir sem þekkja til tryggingamála þekkja söguna. Svona hefur þetta verið í áratugi og sé það óréttlátt nú var það óréttlátt þá. Skoði menn lista yfir frumvörp ríkisstjórnar sjá þeir að heilbrrh. hyggst stíga fyrstu skrefin til að breyta þessu. Annað stórmál á þessu þingi er gagnagrunnsmálið sem svo er nefnt, lagaramminn utan um nýsköpun í íslensku atvinnulífi, skýrar leikreglur fyrir lækna, almenning og síðast en ekki síst sjúklinga, sem tryggja betur en nú er gert meðferð heilsufarsupplýsinga. Tvennt skiptir mestu við afgreiðslu málsins. Í fyrsta lagi að undirbúningur lagafrv. sé eins og hann getur verið bestur. Í öðru lagi að við í heilbrrn. gerum allt til að sem flestir geti tekið virkan þátt í lýðræðislegri umræðu um þetta mikilvæga mál. Hvort tveggja hefur verið gert.

Virðulegi forseti. Það er hægt að meta stöðuna í heilbrigðismálum á margan hátt. Menn geta skoðað langlífi þjóða eða lífslíkur eða þá almennt heilbrigði. Menn geta reynt að meta þjónustuna sem almenningi býðst þegar menn veikjast eða hve mikið þarf að greiða fyrir þessa þjónustu. Umræður um heilbrigðismál á Íslandi hafa snúist um krónur og aura í áratug. Hún hefur með öðrum orðum snúist um bakhliðina. Svo rammt kveður að þessu að menn missa sjónar á meginmálinu sem hlýtur að vera sjúklingurinn og þjónustan sem boðið er upp á í þessu 270 þús. manna samfélagi, þjónustan sem almenningur vill viðhalda og bæta. Ég held því ekki fram að fjölmiðlar beri ábyrgð á neikvæðri umræðu um heilbrigðismál. Ég spyr mig æ oftar þessarar spurningar: Hvernig stendur á því að jafnvel stjórnendur í heilbrigðiskerfinu gera sjálfum sér og sjúklingunum það að gagnrýna þetta kerfi sundur og saman, kerfi sem þeir eiga sjálfir að stjórna? Þetta er áleitin spurning. Það er stundum eins og menn megi ekki sjá hljóðnema án þess að fara að tala um niðurskurð, neyðarástand og þörfina fyrir launahækkanir starfsmanna. Skoðanakönnunin sem Bandalag starfsmanna ríkis og bæja lét gera sýndi m.a. að fólk vill góða heilbrigðisþjónustu en þeim hefur fækkað sem telja að þjónustan sé nægilega góð. Þetta stangast á við niðurstöður úr könnun landlæknis. En hvað um það. Ég tek niðurstöðurnar alvarlega. Sem fagráðherra sætti ég mig ekki við að heilbrigðisþjónustan sem við rekum fái sömu einkunn og skólakerfið. Hvort tveggja er ósanngjarnt.

Virðulegi forseti. Stjórnarandstæðingar berja sér á brjóst og hrópa: ,,Niðurskurður, niðurskurður!`` Og eftir fagmanni er haft í dagblaði: ,,Sjúklingar liggja hér í skúmaskotum.`` Hlustið þið: Í skúmaskotum. Svona tala menn. Það er verið að auka fjármagn til heilbrigðismála. Það er ekki verið að hækka þjónustugjöld. Það er verið að auka þjónustu. Þetta sjá allir sem skoða fjárlagafrv. sem á borðum ykkar liggur.

Virðulegi forseti. Til mín kom maður fyrir fáum dögum og kvartaði sáran undan ástandinu í heilbrigðismálunum sem allt væri í molum eins og hann orðaði það. Hann er áttræður og fyrir tæpum tíu árum gat hann vart hreyft sig. Nú hefur hann fengið nýja mjaðmaliði og hleypur eins og ungur maður og er hress og kátur. Hann hefði vart fengið þessa góðu þjónustu nema vegna þess að hann er Íslendingur. Þegar ég skýrði málið fyrir honum varð hann mjög hugsi og þegar við skildum sagði hann: ,,Þetta var svolítið vanhugsað hjá mér.`` Íslendingar vilja allt sem aðrar þjóðir geta veitt sér og veita sér það. Afstaðan er hluti af því að vera Íslendingur. Það skilur enginn útlendingur að hér skuli smáþjóð veita sér jafnflókna læknisþjónustu og við gerum. Menn dást að því að hér skuli allir eiga jafnan og greiðan aðgang að heilbrigðiskerfinu þegar eitthvað bjátar á. Við erum að tala um heilbrigðiskerfi á heimsvísu og enn erum við að gera betur. Ég hef beitt mér fyrir byltingu í heilsugæslunni í landinu á tveimur árum. Nýr barnaspítali er í sjónmáli. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir fjórum nýjum hjúkrunarheimilum þannig að brýnni þörf er mætt innan tveggja ára. Það er gaman að geta kynnt það á degi aldraðra. Við erum að undirbúa mergskiptaaðgerðir hér á Íslandi. Þetta er aðeins hluti af dæminu. Heildarstefna hefur verið tekin í öllum helstu þáttum heilbrigðiskerfisins.

Virðulegi forseti. Við verðum öll að spyrja okkur eftirfarandi grundvallarspurningar til að geta metið þjónustuna rétt: Hvar vildir þú vera ef þú veiktist? Mitt svar er: Á Íslandi. --- Góðar stundir.