Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Fimmtudaginn 01. október 1998, kl. 22:55:20 (34)

1998-10-01 22:55:20# 123. lþ. 2.1 fundur 10#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 123. lþ.

[22:55]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Nýlega birti tímaritið The Economist úttekt á því hvernig velferðarkerfi nágrannalandanna hafa brugðist við breyttri stöðu kvenna. Niðurstaðan er að mikið sé óunnið og það hljóti að vera eitt af meginmálum stjórnmálanna á nýrri öld. Konur geri að sjálfsögðu kröfu um að standa jafn vel að vígi í starfslok og karlar, t.d. varðandi lífeyrisgreiðslur sem víða horfi illa vegna lægri launa kvenna. Fæðingartíðni fari hríðlækkandi, hjónaskilnuðum fjölgi og margir kjósi að búa einir eða búi einir með börn sín. Því verði að gera ráð fyrir að konur jafnt sem karlar, öryrkjar jafnt sem aldraðir eða atvinnulausir geti búið einir og haft mannsæmandi laun eða bætur en velferðarkerfið megi ekki refsa fólki fyrir að vera gift og eignast börn.

Hér á landi kvarta öryrkjar réttilega undan því að lenda á framfæri maka sinna við giftingu og konur sem fara í nám á miðjum aldri fá ekki námslán vegna tekna maka. Samkvæmt fjölskyldu- og velferðarstefnu samfylkingar A-flokkanna og Kvennalista er ætlunin að breyta þessu og taka á málum eins og lengingu á fæðingarorlofi fyrir báða foreldra og gera átak í að útrýma launamun kynjanna. Hætta verður að líta á konur sem viðhengi við eiginmenn sína og gera þarf þær kröfur að allir einstaklingar fái viðunandi laun eða bætur. Viðurkenna þarf að konur eru fyrirvinnur jafnt sem karlar. Þetta er ögrandi viðfangsefni fyrir kvenfrelsisafl og mjög brýnt til að koma á jafnvægi milli einkalífs og atvinnulífs. Þessi fjölskyldustefna er ekki síður brýn til að tryggja eðlilega viðkomu og góðar uppeldisaðstæður fyrir börn og unglinga. Framboðshugleiðingar öryrkja og aldraðra eru skiljanlegar í þessu ljósi og skoða þarf sérstaklega hvers vegna mun fleiri konur en karlar eru öryrkjar.

Í málefnaskrá samfylkingarinnar er tekið mjög myndarlega á jafnréttismálum og stórátak er fyrirhugað með auknum fjárframlögum til rannsókna, mennta- og menningarmála til samræmis við það sem best gerist meðal annarra þjóða. Menningarmálin verða að vera í fyrirrúmi því að sterk íslensk menning er líklega öflugasta meðferðarúrræði þjóðarinnar í ólgusjó alþjóðavæðingar og félagslegrar sundrungar.

Herra forseti. Við kvennalistakonur sem höfum tekið þátt í undirbúningi samfylkingarinnar erum almennt ánægðar með þá framtíðarsýn sem þar birtist. Eftir er að forgangsraða og búa til kosningastefnuskrá svo og að semja um aðra þætti samstarfsins. Viðkvæm mál eru óútkljáð og fróðlegt verður að fylgjast með hvort jafnréttisumræða þessara stjórnmálasamtaka er raunhæfari en hún var í fyrirmyndarríki Platóns. Þar er sú róttæka skoðun sett fram að konur og karlar geti farið í öll störf hvort sem sviðið var hermennska, iðnaður eða stjórn ríkisins. En þegar litið er til inngönguskilyrða, t.d. fyrir hermennsku, er ljóst að aldrei var í raun ætlunin að konur kæmust þar að og ef konur urðu stjórnendur urðu þær að afsala sér því að ala upp börn sín. Sumir kalla þetta jafnrétti á forsendum hinna. Sjálf geri ég mér vonir um að hugsjónir okkar um jafnrétti og kvenfrelsi verði að veruleika með öflugu jafnréttissinnuðu stjórnmálaafli og við munum ekki sætta okkur við að þau sjónarmið verði í aftursætinu. Það hefur verið styrkur Kvennalistans alla tíð að komast í hátalarana og við munum að sjálfsögðu ætlast til að kvenfrelsisraddirnar hljómi sterkt ef til samfylkingar kemur. Lokaákvörðun um framboðsmál Kvennalistans verður væntanlega tekin á landsfundi hans í lok þessa mánaðar. Vonandi tekst vel til og samfylkingin verði nýtt og öflugt stjórnmálaafl sem er í takt við nýja tíma, stjórnmálaafl sem virðir einstaklinginn óháð kynferði hans, búsetu eða hjúskaparstöðu, mannhelgi hans og mannréttindi en hafnar einstaklingshyggju ójafnaðar og forréttinda.

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Ég hef lokið máli mínu. --- Góða nótt.