Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 10:02:24 (38)

1998-10-05 10:02:24# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[10:02]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég hef mál mitt á því að óska hæstv. fjmrh. alls hins besta í vandasömu starfi og ég tel ekki veita af. Það er kannski ástæða til að geta um ákveðin atriði í ræðu hæstv. fjmrh. sem var dreift. Reyndar vantaði þrjár síður í þegar henni var dreift til þingsins en það breytir ekki því að það eru ákveðin atriði sem ástæða er til að inna eftir strax, t.d. þau atriði sem ég hef merkt hér við, þ.e. ,,umfangsmikil sala eigna er fyrirhuguð``. Þar er gert ráð fyrir sölu á Sementverksmiðju ríkisins, 25% hlut, og það er rétt að spyrja: Hversu mikla fjárhæð væntir ríkissjóður að fá út úr þeirri sölu? Það er eðlilegt að velta því fyrir sér þegar áform hafa verið um það þrjú sl. ár að selja hlut í Sementverksmiðjunni að þá hljóti að liggja fyrir hvaða fjárhæð er um að ræða og ég spyr um það í fyrsta lagi. Síðan er ástæða til að koma að bls. 9 í ræðu hæstv. fjmrh. --- reyndar vantar bls. 8, 7 og 6 í ræðuna --- en þar er sagt: ,,Sveitarfélög leggi sitt af mörkum.`` Hvernig eiga sveitarfélög, þau sem eru í jaðarbyggðum kjördæmanna þar sem tekjur eru allt að 30% fyrir neðan meðaltal, þar sem fækkun hefur orðið, þar sem vantar lækna, þar sem vantar félagslega þjónustu, að mæta þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra? ,,Sveitarfélög leggi sitt af mörkum``, stendur hér. Menn skulu velta því fyrir sér að eftir tæplega átta ára forustu hæstv. forsrh. eru þessar jaðarbyggðir í rúst og það mun koma í ljós á næstu mánuðum þegar menn fara að skoða þau mál nákvæmlega.

Ég mun, herra forseti, í minni ræðu einmitt ræða um þessi atriði, útkomu á landsbyggðinni í kjölfar nærri átta ára forustu hæstv. forsrh. í byggðamálum og ég ítreka að það mun koma í ljós í úttektum sem er verið að gera að ástandið er ekki bara alvarlegt, það er sums staðar skelfilegt. Ég mun gera stöðuna í heilbrigðismálum að umræðuefni og ég mun fara yfir nokkrar umsagnir sveitarfélaga um þá stöðu sem sanna mál minni hluta fjárln. undanfarin ár þar sem sýnt hefur verið fram á að gífurlega fjármuni hefur vantað í heilbrigðiskerfið. Ég mun gera að umræðuefni hina hliðina á fjárlögunum, sólskinsfjárlögunum eins og sumir vilja kalla þau. Það er ástæða til að ræða um einstök atriði, t.d. eins og að í þessum fjálögum er gert ráð fyrir 120 leiguíbúðum. En hafa menn gert sér grein fyrir því hvað biðlistinn er langur? Biðlistinn eftir leiguíbúðum er bara í Reykjavík 600--700 manns, fyrir utan landsbyggðina og það sem ríkisstjórnin ætlar að gera í sólskinsfjárlögum sínum er að koma með 120 íbúðir upp í þörfina. Það er ástæða til að ræða þessi mál.

Fjárlagafrv. sjálft ber ýmis merki þess að annað ástand er í íslensku efnahagslífi en verið hefur í langan tíma enda aðstæður þær bestu sem verið hafa á Íslandi sennilega frá upphafi vega. En það er ekki allt gull sem glóir. Þó að ýmis fyrirheit felist í frv. eru á því alvarlegir gallar, gallar sem ég var núna rétt að nefna. Og það eru fleiri gallar. Það hefur nefnilega gleymst að gefa 15--20 þús. manns færi á að njóta þessa góðæris sem svo mjög er fjallað um af hálfu stjórnarforustumannanna. Hvaða fólk er þetta? Hverjar eru þessar 15--20 þús. manna? Það er auðvelt að svara því. Það eru öryrkjar. Það eru fatlaðir og stór hluti aldraðra og svo einnig þeir sem hafa lægstu launin. Þetta er fólkið, 15--20 þús. manns, sem hefur ekki séð góðærið. Ég segi að í fjárlagafrv. hefðu átt að vera 2,5 milljarðar beint til þessa fólks og til að útskýra það betur þá er ég ekki að tala um háar upphæðir. Ég er aðeins að tala um 10 þús. kr. á mánuði til þessa fólks, á hvern einstakling. Þeir sem hafa jafnlítið á milli handanna sem fjöldi þessara aðila hefur mundu finna mikið fyrir 10 þús. kr. Þeir yrðu mjög vel varir við 10 þús. kr. uppbót á mánuði. Ég segi bara það að á meðan ástandið hjá þessu fólki er eins og raun ber vitni er vart hægt að ræða um góðæri nema aðeins hjá hluta þjóðarinnar. Þingmönnum berast fjölmörg bréf þar sem einstaklingar í þjóðfélaginu lýsa sínu hörmulega ástandi og þar að auki ranglætinu sem fatlaðir einstaklingar eru beittir. Ég vil, með leyfi forseta, grípa ofan í tvö slík bréf án þess að geta nafna. Þó get ég sagt að þeir einstaklingar sem í hlut eiga eru albúnir að birta nöfn sín vegna þessa. Með leyfi forseta, þá stendur hér:

,,Ég er gift kona sem varð fyrir því árið 1990 að lenda í miklum veikindum og sjúkrahúsvist. Árin 1990 til 1996 var ég mjög veikburða en vann þó sem fulltrúi hjá Pósti og síma. Að sjálfsögðu höfðu veikindin áhrif á vinnustað svo sem í minnkandi frumkvæði og afköstum. 1996 gat ég ekki meir en var lögð á skurðarborðið og vissi fyrst af mér sex vikum seinna og er óvinnufær með öllu í dag.``

Svo kemur ástæðan fyrir bréfinu:

,,Ástæðan fyrir þessu bréfi er sú að mér sárnar mest hve einstaklingurinn er lítils metinn í velferðarríkinu sem Ísland á að vera. Þar á ég við að ég sem einstaklingur er algjörlega háð eiginmanni mínum um framfærslu, hef ekkert sem ég get kallað mitt eigið og einnig þau ólög sem ríkja um það að tekjutengja bætur sem ég hef rétt á að fá vegna þess að ég sem einstaklingur hef lagt mitt af mörkum í þjóðarbúskapinn án nokkurrar aðstoðar frá eiginmanninum eða öðrum. Sú tilhugsun er óbærileg að þurfa að grípa til þess örþrifaráðs`` --- og ég legg til að fólk hlusti vel eftir þessu --- ,,að skilja við hann til þess að öðlast sjálfstæði, þ.e. að verða einstaklingur aftur, vegna þess að við höfum það ekki af án míns framlags í sameiginlegan rekstur heimilisins. Í mínu tilfelli höfum við verið saman í 37 ár, eigum fjórar yndislegar dætur, sameiginlegt fallegt heimili sem þarfnast þess að við leggjum bæði okkar af mörkum.``

Herra forseti. Ég hef nú gripið niður í eitt bréf. Ég talaði um að líta í tvö bréf. Ég vil geta þess að ég og fjölmargir, sennilega flestir þingmenn, höfum fengið bréf eins og hér um ræðir og það er ástæða til að fjalla um þessi mál í sólskinsfjárlögunum þar sem góðærið á að vera til staðar.

Ég er hér með annað bréf sem ég vil vitna til, með leyfi forseta, og það er svona:

,,Ég undirrituð er 75--100% öryrki og er gift manni sem hefur góð laun. Örorkubætur mínar eru 15.123 kr. á mánuði og rúmar 4 þús. kr. í bensínstyrk.

Það er ótrúlegt að þetta skuli vera til en er því miður satt. Ef ég væri heilbrigð væri ég vinnandi utan heimilisins eins og ég var þegar ég lenti í bílslysi sem varð til þess að ég varð öryrki. Þá hefði ég kaup eins og aðrir en mér væri ekki greitt eftir tekjum maka. Það er verið að sekta okkur öryrkja fyrir að gifta okkur þar sem tekjutrygging til öryrkja byrjar að skerðast strax þegar laun maka fara yfir 40 þús. kr. á mánuði. Slík laun eru varla til þar sem að atvinnuleysisbætur eru 60 þús. kr. á mánuði. Þar er ekki spurt hvort maður sé giftur né hver laun makans eru.``

Herra forseti. Mér þótti ástæða til að vitna örlítið bara í þessi tvö bréf sem ég veit að öllum þingmönnum voru send. Ég get rakið efni bréfa sem eru miklu hörmulegri og vitna til miklu hörmulegra ástands á heimilunum á Íslandi þar sem hluti af þessum 20 þús. manneskjum sem ég nefndi í ræðu minni og sem ekki hafa séð góðærið, búa við. Þetta fólk sem ég ræði um þarf að lifa lífinu án þess að geta veitt sér það að kaupa blöð, án þess að geta veitt sér það að hafa síma, án þess að geta veitt sér það að hafa bifreið eða flest það sem aðrir telja sjálfsagða hluti. Ég hef því miður, herra forseti, heyrt einn þingmann segja hér að hann gæti komist af með slíkar bætur. Ég hef skömm á slíku tali og ég tel það til skammar fyrir viðkomandi þingmann að láta þau orð sér um munn fara að hægt sé að komast af með 37 þús. kr. á mánuði. Ég hef skömm á slíku tali.

[10:15]

Við getum rætt um hvernig við Íslendingar förum með fjármuni okkar, hvernig fjárfest er í góðærinu. Fjöldi heimila hefur aukið skuldir og fjárfest mikið. Ætli það sé ekki óhætt að reikna með því að u.þ.b. 10 milljarðar af tekjum ríkisins verði til vegna aukinnar neyslu, tækja- og bifreiðakaupa sem er 22% meira, t.d. bifeiðakaupin, en gert var ráð fyrir í frv. 1998. Það er kannski rétt að geta þess að í fjárlagafrv. er núna gert ráð fyrir 18% meiri bifreiðainnflutningi en gert var ráð fyrir í frv. 1998. Hvað þýðir það? Hvað þýðir þetta?

Þetta merkir að menn telja að toppnum sé ekki náð enn þá. Það er gert ráð fyrir miklum tekjum af slíkum innflutningi og slíkri fjárfestingu sem hefur að sjálfsögðu í för með sér aukna skuldsetningu heimilanna.

Hækkun tekna ríkisins á milli fjárlaga, frá 1998 til 1999, er 15 milljarðar. Gert er ráð fyrir 15 milljarða aukningu. Gert er ráð fyrir 6 milljarða aukningu frá áætlaðri niðurstöðutölu. Það er 6 milljarða aukning frá því sem er áætluð niðurstöðutala fyrir 1998. Það er hart að svo stór hluti sem ég gat um áðan skuli vera meginhluti tekjuaukningar ríkisins, þ.e. skuldsetning heimilanna, vegna aukinnar fjárfestingar og einkaneyslu. Síðan er afleiðingin sú að allir horfa á viðskiptahallann sem er gífurlegur og það ætti í rauninni að vera kviknað á öllum viðvörunarljósum vegna þess.

Hve mikill er svo viðskiptahallinn, hæstv. fjmrh.? Hann er 38,5 milljarðar. Viðskiptahallinn er 38,5 milljarðar. Menn depla ekki auga og tala um sólskinsfjárlög þrátt fyrir það.

Ástæða er til að spyrja um hvaða aðgerða verði gripið til að auka sparnað, hvernig á að gera það? Á að gera það þrátt fyrir að afnema eigi skattaívilnanir núna um næstu áramót? Ég tel að ástæða sé til að fá svar við því. Menn hreykja sér yfir góðu frv., áformum um miklar framkvæmdir, en þó er aðeins um það að ræða að markaðir tekjustofnar fari til framkvæmda samkvæmt lögum, aðeins það. Aðeins er talað um að veita markaða tekjustofna til framkvæmda, það er ekkert umfram það.

Menn hljóta að muna að framlög, t.d. til vegamála, voru skert um 1.100 milljónir á þessu ári. Halda menn að það sé gleymt? Halda menn að aðrar skerðingar á mörkuðum tekjustofnum 1998 séu gleymdar? Ég get vel tekið undir það að ef tekst að lækka skuldir ríkissjóðs, þá er vel. Auðvitað verður það að gerast við ríkjandi aðstæður. Ég segi hins vegar að á sama tíma býr fólk við þær aðstæður sem ég lýsti fyrr í ræðu minni. Það á kröfu til samfélagsins og ríkissjóðs upp á a.m.k. 2,5 milljarða. Það ættu þeir að greiða sem eru ríkastir í þjóðfélaginu. Þeir sem ríkastir eru í þjóðfélaginu ættu að greiða til þessa hóps. Hæstv. fjmrh., ég á við þá sem eiga 80% af 1.500 milljarða þjóðareign. Það eru aðeins 15% þjóðarinnar sem eiga 80% af 1.500 milljarða þjóðareign.

Ég á einnig við þá sem samkvæmt upplýsingum Frjálsrar verslunar hafa meira en 600 þús. kr. í tekjur á mánuði og þar með taldir ýmsir embættismenn ríkisins, svo sem sjá má í þeirri upptalningu. Þeir eiga að greiða til samfélagsins, mikið meira en þeir hafa gert. Mér er ljóst að ýmsir stjórnarliðar munu kalla þessa ræðu svartagallsraus, þeir mega hafa þá skoðun fyrir mér. En ég skora á þá að kynna sér aðstæður þess fólks sem lakast er sett og setja sig í spor þeirra. Við getum nefnilega breytt þessu á Alþingi ef vilji er til. Vilji er allt sem þarf í því máli. Í fjárlagafrumvarpinu ætti að sjá þess merki en svo er ekki og þess vegna segi ég að frv. er stórgallað. Það gleymdist nefnilega að bæta kjör hinna lakast settu. Meðan bróðurparturinn af þjóðinni hefur fengið allt að 20% launahækkun í launaskriðinu og gegnum annað þá hafa þeir sem búa við bótakerfið aðeins fengið 10% eða helming þess sem launabætur hafa almennt verið í þjóðfélaginu. Það er dapurt. Þetta er ranglæti sem verður að laga.

Það er ágætt að nota tækifærið sem ég hef núna til að segja að í stefnuskrá sameiginlegs framboðs Alþfl., Alþb. og Kvennalista verða að vera skýr og afdráttarlaus ákvæði varðandi hækkun bóta og hvernig það eigi að framkvæma ef framboðið á að verða trúverðugt.

Herra forseti. Ég á von á því að þegar kemur að kosningum muni það hljóma frá stjórnarflokkunum að þetta allt ætli þeir að laga. Ef þeir gera það ekki við bestu stöðu fjármála ríkisins í langan tíma, má þá ætla að það verði gert þegar byrjar að draga saman, eins og búast má við á næsta ári? Ég skora á forustumenn stjórnarflokkanna að gefa svör við spurningum fólksins sem safnaðist saman á Austurvelli sl. fimmtudagskvöld til að mótmæla þeim kjörum sem því eru búin í góðærinu. Góðærið hefur farið fram hjá því og mörgum öðrum. Það er, eins og ég sagði, ýmislegt alvarlegt sem kemur í ljós við skoðun þessa frv.

Það er alvarlegt hvernig búið er að landsbyggðinni í heilbrigðismálum. Þar er skortur á læknum, skortur á hjúkrunarfólki, skortur á úrræðum fyrir fatlaða. Herra forseti. Þetta er ekki eitthvað sem mér dettur bara í hug. Hér er um að ræða blákaldar staðreyndir, upplýsingar sveitarstjórnarmanna alls staðar að af landinu sem ég vil vitna í, með leyfi forseta. Ég mun ekki nefna nákvæmlega staðina heldur aðeins geta um svæðin þaðan sem þessi erindi eru komin. Þau sýna fram á það sem stjórnarandstaðan hefur haldið fram í umræðum um fjárlög undanfarin 2--3 ár, að fjármuni hefur vantað inn í heilbrigðiskerfið og leitt til þess að ástandið úti á landi er slíkt að það er t.d. einn læknir um þrjár stöður. Þetta er í Norður-Þingeyjarsýslu. Einn læknir um þrjár stöður, svona er ástandið.

Við fjárlaganefndarmenn höfum hlustað á erindi sveitarstjórnarmanna, t.d. af Suðurnesjum. Ég nefni stað á Suðurnesjum þar sem yfir tvö þúsund manns búa, þar sem er stór skipafloti. Þar er ástandið þannig að þar er einn læknir --- þar eru tvær stöður en það er bara einn læknir sem fæst þangað. Hvað er hann að gera? Hann er að flytja í annað bæjarfélag. Sá er að flytja úr þessu samfélagi. Þetta vekur ugg hjá íbúum þessa byggðarlags. Það er óhætt að segja að bæjarstjórnin er undirlögð áhyggjum vegna þess ástands sem þar ríkir.

Í byggðarlagi vestur á fjörðum er uppsafnaður vandi um 18--20 milljónir í einu litlu samfélagi. Meira að segja í sveitarfélögum, í næsta nágrenni við Reykjavík, höfuðborg okkar, er ástandið eins. Þar fæst ekki hjúkrunarfólk, og ekki læknar. Hvers vegna? Það er vegna þess að við höfum búið svo illa að heilsugæslunni og heilbrigðiskerfinu á kjörtímabilinu sem er að líða. Það er ástæðan.

Óhætt er að nefna annan bæ hér í Suðurlandskjördæmi þar sem bæjarstjórnin hefur lýst því hvernig bæta þurfi aðgengi fatlaðra, hvað gera þurfi til þess að það sveitarfélag geti tekið við málefnum fatlaðra. Þar er því einnig lýst að þeir fái ekki lækni í stöðu sem þar er í boði.

Ég get farið á annan stað í Vestfjarðakjördæmi þar sem, þrátt fyrir þær breytingar sem orðið hafa á rekstri og umfangi heilbrigðisstofnunar á þeim stað, engar breytingar hafa orðið fjárveitingum sl. sex ár. Þetta er mjög alvarlegt.

Hægt er að fara á annan stað sem ég nefndi þó rétt áðan. Í Norður-Þingeyjarsýslu er mjög erfitt ástand. Þar er aðeins einn læknir starfandi þar sem eru þrjú stöðugildi og sama má segja um hjúkrunarfræðinga. Það eru 200 km enda á milli í héraðinu og vegakerfið er svo sannarlega ekki upp á það besta. Þar var mokað fjóra daga í viku sl. vetur sem var þó tvöföldun frá síðasta ári. Það er því erfitt ástandið sem þetta fólk horfir upp á. Þess vegna, herra forseti, er fólk að flytja af landsbyggðinni, vegna þess að það gerir kröfu til þess að þessir þjónustuþættir séu í lagi.

Það er eiginlega ástæða til þess að nefna hér að auki bréf --- og það er best að segja það --- sem er úr Reykjavíkurkjördæmi. Það bréf hafa ekki bara fjárlaganefndarmenn fengið heldur allir þingmenn Reykjavíkur. Ég lít því ekki á það sem trúnaðarmál. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Forsvarsmönnum Reykjavíkurborgar hefur undanfarin ár gefist kostur á að ræða við fjárlaganefnd, og áður fjárveitinganefnd Alþingis, um brýn hagsmunamál borgarinnar og samskipti hennar við ríkið.`` --- Svo kemur að megininnihaldinu: --- ,,Það er skemmst frá því að segja að þar hafa sjónarmið forustumanna borgarinnar mætt takmörkuðum skilningi og viðræðurnar lítinn árangur borið.``

Að lokum segir í bréfinu:

,,Með vísan til fyrri reynslu þykir rátt að láta fjárlaganefnd það eftir að ákveða hvort forsvarsmenn Reykjavíkur skuli koma á fund nefndarinnar til þess að gera frekari grein fyrir málefnum borgarinnar.``

Í stærsta sveitarfélaginu í landinu, höfuðborginni, telja forsvarsmenn ekki ástæðu til að ræða við fjárln. Hvers vegna? Ég sem hér stend, samþykki ekki að hafa ekki reynt að tala fyrir þeim erindum sem borgarstjórn hefur komið með til fjárln. Ég hef gert það og vitna ég m.a. til umræðna um vegakerfi borgarinnar. En það er sama ástandið í Reykjavík og víða annars staðar í heilbrigðismálum, þar vantar lækna. Þar vantar meiri úrbætur í heilsugæslunni.

Herra forseti. Ég nefndi þessi atriði vegna þess að þau liggur á borðum fjölmargra þingmanna og erindin, sérstaklega frá Reykjavíkurborg, eru í höndum flestra þeirra sem á þingi sitja. Ber þetta keim af sólskinsástandi? Ég sé það ekki. Sú staða sem ég hef reynt að lýsa hefur leitt til þess að fólk er óöruggt víða á landinu og afleiðingin er fólksflutningar til þess svæðis sem fólk hefur trú á að það geti búið sér og börnum sínum meira öryggi en í heimabyggð. Eins og ég sagði áður er gildismat fólks að breytast, og það sem ræður búsetu þess er einmitt það sem ég hef hér farið yfir.

[10:30]

Sl. þrjú ár hef ég verið að reyna að berjast fyrir lögbindingu lágmarkslauna hér á Alþingi. Málið hefur ekki hlotið framgang en það hefur fengið góðar undirtektir fjölmargra þingmanna, einkanlega þó í stjórnarandstöðunni. Nánast allar umsagnir félagsmálafulltrúa á landinu eru á sama veg. Félagsmálastjórar og þeirra ráð telja að slík löggjöf verði að koma við ríkjandi aðstæður. Fulltrúar aldraðra, fulltrúar Öryrkjabandalagsins og ýmsir aðilar innan verkalýðshreyfingarinnar hafa hvatt mig til áframhalds. Þetta mál er í sérstakri skoðun samkvæmt samkomulagi sem ég gerði við hæstv. forsrh. Staðreyndum varðandi jákvæð áhrif lögbindingu lágmarkslauna hefur verið hafnað af aðilum vinnumarkaðarins. Ég harma það mjög að þeir skuli að óathuguðu máli bregðast við á þann hátt.

Ég hef í máli mínu vísað til rannsókna virtra prófessora sem í bókinni Myth and Measurement hafa sýnt fram á með vísindalegum aðferðum að lögbinding lágmarkslauna hefur leitt af sér betri kjör launafólks, bætta afkomu fyrirtækja og minnkað atvinnuleysi þvert ofan í það sem hagfræðingar hafa haldið fram að lítt athuguðu máli. Ég hef einnig vísað til ársskýrslu frá Alþjóðavinnumálastofnuninni fyrir árið 1996 sem styður á sama hátt jákvæð áhrif lögbindingar lágmarkslauna. Þess vegna eru mér óskiljanleg viðbrögð VSÍ og ASÍ við þessu lagafrv., enn fremur að þau skuli þá ekki bregðast þannig við að gera úttekt á stöðu þeirra lægstlaunuðu, stöðu aldraðra, öryrkja og þeirra sem verða að búa við mestu tekjuskerðingarnar.

Það er á engan hátt brugðist við þessu í fjárlagafrv. Því geri ég þá kröfu til fjárln. að sá þáttur sem fjallar um bætur verði sérstaklega yfirfarinn í vinnu nefndarinnar á næstu vikum og að á vegum nefndarinnar verði gerð úttekt á stöðu þess fólks sem fær launabætur, sem við eigum að fjalla um, samkvæmt framlögðu frv. Það er eðlileg krafa og ástæða til að fjárln. sem á að fjalla um 3,6% bætur sem eiga að koma um næstu áramót til bótaþega fjalli sérstaklega um þann þátt. Það er ekki venjulegt en það er ástæða til þess nú.

Ég taldi eðlilegt að fara almennt í þessi atriði sem ég hef verið að nefna, herra forseti. Ég reikna með að fulltrúar í fagnefndunum fari nánar út í einstaka þætti sem snúa að nefndum þeirra. En það er ástæða til þess, herra forseti, að fara fara nokkrum orðum um hina hliðina á sólskinsfjárlögunum. Í fyrsta lagi er það sem ég hef getið um áður, að uppsveiflan er fyrst og fremst til komin vegna aukinnar einkaneyslu sem er fjármögnuð með lánum. Skuldir heimilanna eru yfir 400 milljarðar og hafa aldrei verið meiri. Þetta, hæstv. fjmrh., er alvarlegt mál. Erlendar skuldir landsmanna munu að líkindum hækka um 20 milljarða á næstu árum, um 20 milljarða, og hafa að líkindum aldrei verið meiri. Skuldir hins opinbera í árslok 1997 voru 200 milljarðar. Vita menn að það er Íslandsmet? Það er nú ástæða til að klóra í bakkann þegar ástandið er þannig að menn tala um sérstakt góðæri sem ég hef reyndar tekið undir í ræðu minni.

Fjármagnstekjuskattur skilar sömu tekjum á næsta ári og áætlað er á þessu ári. Hann er um 0,6% af tekjum ríkissjóðs. Ég veit að fjármagnseigendur kvarta ekki undan þessari miklu skattlagningu eða réttara sagt litlu skattlagningu. Meðal útgjalda á næsta ári eru 4 milljarðar í afskriftir á sköttum. Það er eitthvað að. Það er verðugt fyrir nýjan hæstv. fjmrh. að skoða í skúffur ráðuneytisins vegna þessara afskrifta. Eins og ég nefndi áður stefnir viðskiptahallinn í það að vera nærri 40 milljarðar á þessu ári eða 38,5 milljarðar eins og stendur í dag. Það var gert ráð fyrir 19 milljarða halla á fjárlögum. Ég veit að menn sem sitja í fjárln. muna að gert var ráð fyrir 19 milljarða viðskiptahalla. Það er ekki góð staða.

Það er óhætt að minna á að núna er fjárlagafrv. lagt fram með tæplega 2 milljarða afgangi. Þá er líka rétt að minna á að á síðasta ári ver gert ráð fyrir hallalausum fjárlögum. En ætli það stefni ekki í að það verði 3 milljarðar í halla fyrir árið 1998. Þetta er alvarleg staða, herra forseti.

Það eru að minnsta kosti þrjátíu atriði sem hægt væri að tína upp sem skuggahliðar sólskinsfrv. sem við erum að ræða. Ég veit ekki hvort ég á að vera að tína það sérstaklega til. Ég hef nefnt að það sem mér finnst vera alvarlegast er ástandið á landsbyggðinni. Víða eru tekjur 30% undir meðaltali. Víða er aðgengi fólks að þéttbýliskjörnunum frá þessum stöðum þannig að vegir eru ófærir. Ég þarf ekki að nefna nema bara í Vesturlandskjördæmi möguleika þeirra sem búa í Dalabyggð til að komast yfir Bröttubrekku, þann fjölfarna veg. Þar hefur hafa ekkert breyst. Ekkert hefur breyst í langan tíma. Ég ber minn hluta af ábyrgðinni en fyrst og fremst er ábyrgðin ríkisstjórnarinnar og umbjóðenda hennar í þessu kjördæmi, þ.e. þingmanna hennar.

Staðan í heilbrigðismálum er hörmuleg. Hún er hörmuleg vegna þess að það vantar fólkið í þjónustuna, það vantar læknana, það vantar hjúkrunarfólkið. En hverjar eru svo áherslur hæstv. heilbrrh.? ,,Forgangsröðun í heilbrigðismálum.`` Þar segir, með leyfi forseta:

,,Heilbrigðisþjónustan skal vera réttlát, byggð á samábyrgð þegnanna og að mestu leyti kostuð af almannafé.`` Þetta eru góð fyrirheit, góðar áætlanir.

,,Aðgengi að heilbrigðisþjónustu skal vera auðvelt og sem jafnast.``

,,Þeir einstaklingar sem hafa mesta þörf fyrir heilbrigðisþjónustu skulu ganga fyrir.``

Hvernig er svo málum háttað? Hér hafa komið fyrir mjög alvarleg tilvik þar sem þeir sem á biðlistum hafa verið hafa hlotið þau ömurlegu örlög að missa t.d. útlimi vegna þess að þeir hafa ekki komist í aðgerðir. Svo ég nefni nú bara einhver atriði sem sýna fram á að það vantar mikið á að staðið sé við þau markmið sem menn setja fram.

,,Réttarstaða sjúklings gagnvart heilbrigðisþjónustunni skal vera tryggð.`` Telja menn að það hafi gengið eftir?

,,Virðing skal borin fyrir velferð, einkalífi, mannhelgi og sjálfsákvörðunarrétti sjúklings.`` Telja menn að það hafi gengið eftir?

,,Siðareglur heilbrigðisstétta skulu í heiðri hafðar.`` Ég vona að svo sé.

,,Tryggja ber að heilbrigðisstarfsfólk viðhaldi og endurnýi þekkingu sína.`` Skyldi það hafa gengið eftir þar sem ástandið er þannig að það vantar fjölmarga lækna og hjúkrunarfræðinga um allt land?

Herra forseti. Þetta, með öðru sem ég hef nefnt, bendir til þess að ástandið sé alvarlegt. Það er ýmislegt að í landi okkar þó svo að við búum við þær aðstæður sem menn eru að lýsa, þ.e. að einstaka menn hafa séð góðærið en 20.000 manns á Íslandi vita ekkert um það. Þeir hafa ekki séð það. Þeir vita ekki af því.

Herra forseti. Með þessum orðum læt ég lokið máli mínu og vona að hæstv. fjmrh. hafi náð þeim örfáu atriðum sem ég spurði um í ræðu minni. Þegar frv. kemur til 2. umr. mun þetta liggja ljósar fyrir. Þá verður líka komið í ljós hvort meiri hluti fjárln. fer að því sem ég óskaði eftir, að fjárln. ræði um 3,6% hækkun til bótaþeganna sem þeir eiga að fá um áramót og hvort menn í fjárln. eru tilbúnir til að leggjast á eitt um að bæta þau kjör sem nauðsynlegt er. Það höfum við öll tök á að gera og Alþingi þar með.