Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 13:41:32 (47)

1998-10-05 13:41:32# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[13:41]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er minni skerðing ráðgerð á framlögum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra á næsta ári en hefur verið í ár. Sú röksemdafærsla um að þeir peningar séu teknir til þess að fjármagna ný hjúkrunarheimili stenst náttúrlega ekki vegna þess að þar er um að ræða nýtt fjármagn. Samtals er því minni skerðing til Framkvæmdasjóðs fatlaðra og peningarnir í hjúkrunarrýmin auðvitað umtalsverð fjárhæð.

Hins vegar kemur það fram, að ég hygg í frv., að kannski er ekki gert ráð fyrir heilsársrekstri á öllum þessum rýmum á næsta ári en við sjáum að þau eru að komast í gagnið á árinu og þar með, eins og ég vona að allir þingmenn fagni, sjáum við loks fram á að brýnustu þörfinni á þessu sviði verði fullnægt innan tveggja ára og það er mjög ánægjulegur áfangi.

En það er hins vegar ekki nýtt að Framkvæmdasjóður fatlaðra sé skertur, það hefur verið gert í mörg ár en hins vegar eins og ég segi minna á næsta ári en á þessu.