Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 13:47:52 (50)

1998-10-05 13:47:52# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[13:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. svarar þessu mjög vel og klókindalega og bendir á Þjóðhagsstofnun. Ég verð víst að játa mig sigraðan í því að ég get ekki gagnrýnt fjmrh. fyrir að styðjast við gögn í þjóðhagsspá frá þjóðhagsáætlun í sínu máli og tek undir með honum að rétt er að hafa þó fyrirvara á öllu, enda var ég fyrst og fremst að gera athugasemd og fyrirvara af minni hálfu við þessa þjóðhagsspá, eða horfur fyrir árið 1999 og sérstaklega á sviði sjávarútvegsins. Ég hef af því þó nokkrar áhyggjur að ekki séu að öllu leyti trúverðugar innstæður fyrir þeirri spá. Mér finnst hún bjartsýnisleg. Það verður að segjast eins og er að það væri með ólíkindum ef þetta afbrigðilega góðæri sem við höfum búið við héldist að öllu leyti, einnig út næsta ár, vegna þess líka að það eru ákveðnar vísbendingar uppi um að úr þessu geti farið að draga. Það verður náttúrlega að segjast eins og er að allt þetta umhverfi hefur verið með ólíkindum hagstætt ef við lítum á mikil aflabrögð, hátt verð, eitt lægsta olíuverð sem við höfum búið við á síðari áratugum allt frá því að fyrstu olíuverðshækkanirnar riðu yfir o.s.frv., svo maður ekki minnist nú á ástand heimsmála og það að allt heila móverkið, herra forseti, er að ofhitna um þessar mundir og lata fjármagnið í heiminum að taka til fótanna. Það eru því áhyggjuefni víða sem er ástæða til að hafa í huga.