Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 13:49:33 (51)

1998-10-05 13:49:33# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[13:49]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að svara hæstv. fjmrh. því að ekki mun standa á lipurð hjá minni hluta fjárln. um þau málefni sem gagnleg mega teljast fyrir íslenska ríkið og íslenskt samfélag. Ég get ekki að mér gert en að gagnrýna það svar sem kom varðandi þá litlu fyrirspurn sem sneri að 25% sölu hlutar í Sementsverksmiðjunni. Það liggur fyrir mat á því fyrirtæki upp á tæpar 700 millj. Fyrir liggur að fyrirtækið er með skuldbindingar upp á 385 millj. Eftir standa 400 millj. Það þýðir að um er að ræða 100 millj. til ríkissjóðs. Ég verð að upplýsa það hér. Ég tel að endurskoða þurfi þessar hugmyndir alveg sérstaklega og beini því til hæstv. fjmrh.

Í framhaldi af ræðu hæstv. fjmrh. þar sem segir: ,,Sveitarfélög leggi sitt af mörkum``, þá spurði ég: Hvernig eiga sveitarfélögin í jaðarbyggðunum þar sem um er að ræða 30% tekjulækkun, þar sem um er að ræða verulega íbúafækkun, þar sem vantar læknisþjónustu, þar sem lítið hefur verið gert í vegamálum og öðru slíku, að standa undir þeim væntingum sem gert er ráð fyrir hér? Ég spyr um það. Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera í byggðamálunum sem hafa rekið á reiðanum undanfarin ár? Og þá segi ég: Af því engu var svarað í ræðum hér um þau 3,65% sem ég ræddi um varðandi bætur til bótaþega, hefur minni hluti fjárln. ákveðið að senda sérstakt bréf þar sem óskað er eftir að gerð verði grein fyrir stöðu bótaþega í íslensku þjóðfélagi og gerður verði samanburður á hækkun bóta og almennra launahækkana á árunum 1995 til 1998 til að sýna það svart á hvítu að þessi hópur hefur setið eftir, svo sannarlega setið eftir. Ég læt vita að þetta er í farvatninu og að í dag mun verða sent bréf til hv. formanns fjárln. sem lýtur að þessu málum.