Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 13:52:14 (52)

1998-10-05 13:52:14# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[13:52]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég kýs að fara ekki nánar út í umræður um verðmæti Sementsverksmiðjunnar hér á þessum vettvangi en ég hygg að gott væri að eiga hv. þm. að sem þekkir vel til mála að því er varðar Sementsverksmiðjuna þegar það mál kemst í gang, þegar það verður orðið raunhæft að fara af stað með þá sölu. Ég býst við að hann sé tilbúinn að leggja okkur lið í því máli.

Að því er varðar sveitarfélögin og jaðarbyggðirnar lét ég þess getið --- ég hygg að hv. þm. hafi verið frammi --- að auðvitað er ekki hægt að gera sömu kröfur til allra sveitarfélaga. En ég er að tala um sveitarfélögin sem eina stærð í þessu samhengi og nauðsyn þess að sú stærð reki sjálfa sig með afgangi við núverandi efnahagsaðstæður. Auðvitað geta verið lítil og veikburða sveitarfélög á jaðarbyggð o.s.frv. þar sem kann að horfa öðruvísi við en þá skulum við líka hafa í huga að slíkum sveitarfélögum fer sem betur fer fækkandi vegna þess að sveitarfélögin eru að sameinast og þau eru að efla sig með nánara samstarfi og sameiningu og gera sjálf sig að öflugri og sterkari einingum.

Hvað varðar bréf minni hlutans í fjárln. þá munum við taka það til athugunar ef það berst til ríkisstjórnarinnar og sjálfsagt er að kanna það mál til hlítar. En ég vek athygli á því að 3,65% hækkun bóta um næstu áramót er meiri en hækkun launa opinberra starfsmanna sem almennt er 3,5% og kaupmáttaraukningin á þessum bótum er auðvitað töluverð eins og allir vita. Spáð er 2% verðbólgu á næsta ári en hún er 1,5% í ár þannig að þeir sem þiggja bætur hafa notið góðs af auknum kaupmætti þótt auðvitað megi alltaf gera betur. Og auðvitað þekkjum við öll mörg dæmi þess að fólk er ekki ofsælt af sínum bótum. Það er sjálfsagt að líta á þau mál.