Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 13:59:58 (58)

1998-10-05 13:59:58# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[13:59]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir hans svör. Einu fannst mér hann gera of lítið úr, þ.e. vanda sveitarfélaganna. Ég benti á í ræðu minni að hagur þeirra væri allur orðinn erfiðari, hagur ríkissjóðs hefði batnað að hluta til á kostnað sveitarfélaganna og þótt ég geri mér grein fyrir því að allt hafi þetta verið gert samkvæmt samningum við sveitarfélögin, yfirfærsla á verkefnum, t.d. skólamálum, þá hefur þetta reynst sveitarfélögunum erfiðari baggi en menn ætluðu.

Á hæstv. fjmrh. var að skilja að hann væri á milli steins og sleggju. Annars vegar væru sérfræðingar OECD sem fyrirskipuðu niðurskurð og að menn greiddu sínar skuldir en hins vegar væri þjóðin sem vildi sjúkrahús, skóla, vegi og framkvæmdir og hér í þessum sal skipuðu menn sér síðan í aðra hvora sveitina. Ríkisstjórnin reyndi að feta milliveg og hefði tekist bærilega að mati hæstv. fjmrh.

Í rauninni er þetta einföldun á þeirri mynd sem hefur komið fram í umræðunni vegna þess að stjórnarandstæðingar hafa fyrst og fremst gagnrýnt að tekna skuli ekki aflað til nauðsynlegra verkefna. Síðan hafa menn verið að gagnrýna forgangsröðun í fjárlagafrv. Varðandi tekjurnar benti ég t.d. á að tekjuskattur fyrirtækja hefði verið færður niður um 20 prósentustig á fáeinum árum. Ég benti á að á sama tíma og skattur af hagnaði og arðgreiðslum hefði verið lækkaður þá væru hér hópar sem þyrftu að leita til hjálparstofnana um mat. Ég benti á að það væri mismunað í skattkerfinu, skattleysismörk hjá launafólki væru tæpar 60 þús. kr. en hjá þeim sem hefðu fjármagnstekjur væru þau 233.060 kr. Það eru þessir hlutir sem voru hér til umræðu þannig að þetta var einföldun á umræðunni sem hæstv. fjmrh. dró upp í ræðu sinni.