Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 14:34:14 (67)

1998-10-05 14:34:14# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[14:34]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sturla Böðvarsson lét þess getið í ræðu sinni að tillaga um byggðaáætlun hefði ekki komist til umræðu vegna þess að stjórnarandstaðan hefði gert það sem hún gat til að stöðva málið, m.a. að tala svo mikið. Ég vísa þessu algerlega á bug. Mér finnst þetta í fyrsta lagi ekki sanngjarn málflutningur vegna þess að hv. þm. veit alveg nákvæmlega hvernig þetta mál þróaðist. Í öðru lagi vil ég upplýsa að það var ákvörðun hæstv. forsrh. að taka málið af dagskrá vegna þess að hann taldi að ekki væri hægt að veita því þann umbúnað á lokadögum þingsins sem hæfir svo mikilvægu máli. Auðvitað er það hann sem fyrsti flutningsmaður málsins sem ræður þessu þannig að það er ekki eðlilegt eða sanngjarnt að setja hlutina þannig upp að stjórnarandstaðan hafi í vor stöðvað það að byggðamálin kæmu til umræðu.

Af þessu tilefni vil ég spyrja hvenær þau koma til umræðu. Hvenær ætlar ríkisstjórnin að koma þessu máli fyrir þannig að hægt verði að taka það til umræðu? Bersýnilegt er að hægt er að koma málum að til umræðu því að t.d. allur dagurinn á morgun fer í þingmál stjórnarandstöðuflokkanna af því að ekkert er komið fram frá ríkisstjórninni annað en það fjárlagafrv. sem er núna til umræðu.

Í öðru lagi, herra forseti, þegar stjórnarflokkarnir og talsmenn þeirra hæla sér af þessu fjárlagafrv. fyrir það að þetta sé allt saman þeim að þakka þá er það fyrir neðan virðingu þeirra. Veruleikinn er sá að fiskverð á erlendum mörkuðum hefur hækkað um 20%. Veruleikinn er sá að olíuverð hefur lækkað svo mikið að það er komið niður fyrir það sem það var 1978. Veruleikinn er sá að ríkisstjórnin er að láta selja eignir ríkissjóðs upp á 7 milljarða í ár og 7 milljarða í fyrra. Veruleikinn er sá að menn eru að breyta færslum á veittum lánum ríkissjóðs verulega þannig að það gefur ríkissjóði 1,8 milljarða frá því sem ella væri í uppsetningu þeirra reikninga sem hv. þm. eru að hæla sér af. Það er því fyrir neðan virðingu þeirra sem reyndra, traustra og vandaðra stjórnmálamanna að hæla sér af því sem þeir hafa engan hlut átt í að koma frá sér eins og hér liggur fyrir núna. Auðvitað er margt vel gert sem þeir gera en að hæla sér af öllu þessu móverki eins og þeir hugsa sér að gera í þessum ræðum er út í hött, herra forseti.