Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 14:39:14 (69)

1998-10-05 14:39:14# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[14:39]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þetta andsvar en bendi á að verulegur hluti af tekjubata ríkissjóðs stafar því að það var viðskiptahalli. Staðreyndirnar eru þær að á þessu ári er talað um að viðskiptahalli sé upp á 40 milljarða kr. og að ríkissjóður sé þess vegna að taka inn 16 milljarða út á viðskiptahallann. Rætt er um að viðskiptahallinn á næsta ári verði í kringum 25 milljarðar kr. og ríkissjóður muni á næsta ári taka inn þess vegna um 10 milljarða kr. aukalega. Þegar menn hæla sér af þessu eiga þeir að segja hlutina nákvæmlega eins og þeir eru. Vafalaust gera stjórnarliðar margt gott, bæði í fjárln. og í hæstv. ríkisstjórn en það er útilokað fyrir þá að setja hlutina upp eins og þeir séu samsafn kraftaverkamanna eingöngu þrátt fyrir góða viðleitni á ýmsum sviðum af þeirra hálfu.

Hitt atriðið í sambandi við byggðamálin. Ég segi alveg eins og er, herra forseti, mér finnst það eiginlega fyrir neðan virðingu hv. þm. að setja hlutina upp eins og hann gerir. Staðreyndin er sú að meiri hlutinn á Alþingi ræður í þessari stofnun. Hann ræður því hversu langan tíma hlutirnir taka, m.a. umræða um byggðamál, m.a. það hvenær þinginu lýkur o.s.frv. Það gengur ekki að kenna stjórnarandstöðunni um sem er með 23 þingmenn af 63 í þessari stofnun, herra forseti. Veruleikinn er sá að ríkisstjórnin gerði þetta mál ekki að forgangsmáli í vor. Það er kjarni málsins.