Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 14:40:51 (70)

1998-10-05 14:40:51# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[14:40]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Þrátt fyrir það að stjórnarflokkarnir hafi haft og hafi stóran meiri hluta á Alþingi var það þannig í vor að við urðum undan að láta vegna þess að hv. þingmenn, margir hverjir, töldu sig þurfa að ræða einstök mál afskaplega rækilega. Það er bara staðreynd máls.

Hvað varðar hina efnahagslegu stöðu er alveg hárrétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að það eru miklar áhyggjur sem við höfum af viðskiptahallanum. En ef við lítum hins vegar á það hvernig hann er til kominn þá er það m.a. vegna þess að verið er að flytja inn til landsins mikið af tólum og tækjum og byggingarefni vegna stóriðjuuppbyggingarinnar og virkjana en auk þess sem landsmenn hafa talið ástæðu til þess að fjárfesta með ýmsum hætti vegna heimila sinna eins og gengur og þetta hefur verið og er grundvöllur að auknum tekjum ríkissjóðs. Þetta er allt saman hárrétt hjá hv. þm. Ég deili áhyggjum mínum með honum hvað þetta varðar. En ekkert bendir til annars þegar við lítum á langtímaspána sem fylgir fjárlagafrv. en að við séum á réttri leið þrátt fyrir þennan viðskiptahalla, þá eigi okkur að takast að halda efnahagslífinu í þeim skorðum sem við þurfum á að halda til þess að geta haldið uppi velferðarkerfinu, haldið uppi atvinnulífinu og styrkt stöðu okkar til lengri tíma. Það er aðalatriði málsins.