Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 15:03:53 (72)

1998-10-05 15:03:53# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[15:03]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns óska hæstv. fjmrh. til hamingju með fyrstu fjárlög hans. Sólskinsfjárlög hafa þau verið kölluð og ég held að óhætt sé að segja að yfir fáum ef nokkrum fjárlögum, sem lögð hafa verið fram á hv. Alþingi, er eins bjart og þessum. Það er ljóst að hagur ríkissjóðs hefur batnað verulega á undanförnum árum og ég held það sé við hæfi að þakka fráfarandi fjmrh. vel unnin störf á þessu sviði því staðreyndin er sú að verið er að leggja fram fjárlög á rekstrargrunni með afgangi og á tveimur árum verða greiddar niður skuldir upp á 30 milljarða. Ég held að óhætt sé að segja að aldrei hafi verið betri tök á ríkisfjármálunum en einmitt nú.

Hins vegar verður að hafa í huga að samanburðarfræðin svokallaða er ekkert sérstaklega hagstæð í þessu tilliti. Það er vegna þess að gerðar hafa verið breytingar á uppgjöri ríkisfjármálanna, fjárlögin eru ekki lengur gerð upp á greiðslugrunni heldur á rekstrargrunni sem að sönnu gefur betri mynd af stöðu ríkissjóðs en greiðslugrunnurinn gerði áður. En það er rétt að geta þess að seinasta fjárlagaárið sem gert var upp á greiðslugrunni hefði komið miklu betur út í samanburðarfræðinni hefði það verið gert upp á rekstrargrunni vegna þess að á því ári voru greiddar upp miklar, óhagstæðar skuldir ríkissjóðs og hefði verið betra fyrir samanburðarfræðina ef það ár hefði verið gert upp á rekstrargrunni.

Hið gagnstæða er hins vegar uppi á teningnum varðandi árið 1998 og hugsanlega árið 1999. Í samanburðarfræðinni hefði árið 1998 og hugsanlega 1999 komið betur út hefðu þau verið gerð upp á greiðslugrunni vegna þess sem komið hefur í ljós að er að gerast með lífeyrisskuldbindingar ríkisins vegna hinna svokölluðu aðlögunarsamninga sem gerðir hafa verið við ríkisstarfsmenn. Það er ljóst af þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að við höfum gert miklar breytingar á lífeyriskerfi landsmanna, bæði almenna kerfinu og kerfinu hjá opinberum starfsmönnum, þá höfum við ekki náð nægjanlega góðum árangri. Það er enn um það að ræða að skuldbindingar verði til og byggist upp langt fram í tímann og að ekki sé tekið nægjanlega mikið tillit til þeirra í því uppgjöri sem lagt er til grundvallar í uppgjöri ríkissjóða, bæði hér á landi og erlendis. Með öðrum orðum, grundvallaratriðin í gamla kerfinu koma fram í því hvernig lífeyrisskuldbindingarnar verða til varðandi aðlögunarsamningana og því segi ég að við höfum ekki náð nægjanlega góðum árangri. Við höfum heldur ekki náð nægjanlega góðum árangri í almenna kerfinu. Þar er enn ekki um nægjanlegt frjálsræði að ræða þótt það hafi svo sannarlega batnað og vonandi að lífeyrissjóðirnir nýti þá möguleika sem í þeim lögum eru til að veita aðilum lífeyrissjóðanna meira frelsi en verið hefur fram til þessa.

Ég held að grundvöllurinn fyrir því að okkur takist að breyta hinu opinbera lífeyriskerfi sé sá að okkur takist að gera almenna kerfið betra og meira aðlaðandi fyrir opinbera starfsmenn en það virðist vera í dag. Þegar ég tala um lífeyriskerfin og lífeyrismálin þá er ég ekki að tala um að taka neitt af neinum, ég er að tala um að gera breytingar sem munu hjálpa okkur að ávaxta fjármuni okkar betur í framtíðinni. Þetta verður auðvitað ekki gert nema í góðri sátt við þá sem hagsmuni eiga en það er okkar sem sitjum á hinu háa Alþingi að hafa frumkvæði í þessum málum, hefja umræðuna, halda umræðunni vakandi, minna á þau vandamál sem við eigum við að glíma og hafa forustu um að lausn náist í góðri sátt við þá sem hagsmuna eiga að gæta. Í þessari umræðu hefur ekki borið mikið á því að stjórnarandstaðan hafi gagnrýnt grundvöll fjárlagafrv.

Það er ekki mikið gagnrýnt að hér er góðæri í landinu. Menn deila um hverjum góðærið sé að þakka. Eðlilega vill stjórnarandstaðan ekki þakka ríkisstjórninni það og telur að það komi allt að utan. Það er eins og svo oft áður að enginn er spámaður í sínu föðurlandi. Auðvitað eru ytri aðstæður góðar, en menn verða líka að viðurkenna að þær aðgerðir sem gerðar hafa verið hér á landi á undanförnum árum, bæði í tíð núverandi ríkisstjórnar og í tíð síðustu ríkisstjórnar, eru grundvöllurinn fyrir því góða fjárlagafrv. sem við nú horfum upp á. Það sem helst hefur verið gagnrýnt eru einstaka útgjaldaþættir og auðvitað eru þeir alltaf umdeilanlegir.

Sérstaklega hefur verið gagnrýnt að öryrkjar fái ekki nægjanlega mikið í sinn hlut en það er hins vegar staðreynd að hækkun til þeirra er meiri en almenna verðlagshækkunin til launþega og er það í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því 1997. Það er auðvitað alltaf hægt að skoða hlutina betur og sjá hvort ekki megi bæta og eins og fram hefur komið í umræðunni oftar en einu sinni er hér um að ræða frv. sem verður til úrvinnslu í þinginu. Þar verða hlutirnir skoðaðir og gaumgæfðir.

Það hefur líka verið gagnrýnt að ekki séu nægjanlega miklir fjármunir til heilbrigðiskerfisins og vissulega má segja að heilbrigðiskerfið gæti notað alla þá peninga sem til þess væru veittir en það er samt sem áður staðreynd að um 4% aukningu er að ræða til heilbrigðiskerfisins umfram verðlagsbreytingar og í fjáraukalögum sem dreift hefur verið á Alþingi er um 700 millj. kr. viðbótarframlag að ræða til heilbrigðiskerfisins. Það eru því stórar fjárhæðir sem þar er bætt í og vonandi að þær nýtist vel. Það sama er uppi á teningnum í menntmrn. Þar er um að ræða 2% aukningu umfram verðlagsbreytingar og í fjáraukalagafrv. er gert ráð fyrir rúmlega 800 millj. kr. aukaframlagi. Það eru peningar sem munar um.

Málefni fatlaðra hafa einnig verið til umræðu og er það ekkert skrýtið þar sem hugmyndir um yfirfærslu á þeim málaflokki til sveitarfélaga hafa verið ræddar að undanförnu og komið hvað eftir annað upp í viðtölum fjárln. við sveitarstjórnir í september. Það verður því miður að segjast eins og er að þar er verulegur munur á því sem ætti að vera samkvæmt lögunum og því sem er raunverulega gert í dag. Hér er ekki um neinn nýjan vanda að ræða, þannig hefur þetta verið til margra ára og ef eitthvert raunhæft tal á að vera um að færa málaflokkinn yfir til sveitarfélaganna þarf að ganga í þetta mál og gera þar breytingu á.

Ég hef setið í nefnd á vegum félmrh. sem hefur skoðað þessi mál og það er alveg ljóst af störfum þeirrar nefndar að háum upphæðum þarf að bæta í þennan málaflokk. Nefndin hefur ekki enn þá komist að niðurstöðu þannig að ég tel ekki rétt að fara með neinar tölur. Það er hins vegar ljóst að í þessu frv. eru stigin skref í þessa átt en þau skref þurfa að vera fleiri, a.m.k. þarf að liggja fyrir hvenær á að stíga þau og hversu stór þau eigi að vera til að eitthvert vit sé í því fyrir sveitarfélögin að ræða um að taka yfir þennan málaflokk.

Herra forseti. Hv. fjárln. barst á dögunum bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík og lítillega hefur verið minnst á þetta bréf hér í umræðunni. Á sjö ára tímabili í fjárln. hef ég aldrei séð svona bréf áður. Ég vona að þau verði ekki fleiri bréfin sem við fáum sem eru á þennan veg. Mig langar til að lesa nokkra kafla úr bréfinu en það hefst á því að borgarstjórinn í Reykjavík þakkar fjárln. fyrir boð til fundar á tímabilinu 21. til 24. september, en á því tímabili komu sveitarstjórnir víða að af landinu til fundar við nefndina.

[15:15]

Borgarstjórinn heldur síðan áfram og segir örlítið síðar í bréfinu, þar sem hann fjallar um fundi sem borgarstjórinn og embættismenn hans hafa átt við fjárln. og áður fjárveitinga\-nefnd, með leyfi forseta:

,,Það er skemmst frá því að segja að þar hafa sjónarmið forustumanna borgarinnar mætt takmörkuðum skilningi og viðræðurnar lítinn árangur borið.``

Síðar í bréfinu segir, með leyfi forseta:

,,Með vísan til fyrri reynslu þykir rétt að láta fjárln. það eftir að ákveða hvort forsvarsmenn Reykjavíkur skuli koma á fund nefndarinnar til þess að gera frekari grein fyrir málefnum borgarinnar.``

Í lok bréfsins, eftir að hafa farið lauslega yfir þá málaflokka sem borgarstjórinn hefur áhuga á, segir, með leyfi forseta:

,,Umfjöllunin er af augljósum ástæðum takmörkuð en ég tel reynsluna hafa leitt í ljós að eigi hugur að fylgja máli þurfi viðræður forsvarsmanna borgar og fjárveitingavalds að fara fram við upphaf fjárlagagerðar en ekki í lok hennar.``

Herra forseti. Ummælum borgarstjóra, þar sem hann segir að sjónarmið forustumanna borgarinnar mæti takmörkuðum skilningi og viðræður við fjárln. lítinn árangur borið, mótmæli ég sem rakalausum. Í störfum fjárln. þarf að taka tillit til fleiri sveitarfélaga en Reykjavíkur einnar. Þar reyna menn að vega og meta eins og best er hægt þær óskir um fjárveitingar sem farið er fram á og leggja síðan tillögur fyrir Alþingi um hvernig beri að afgreiða.

Það að forsvarsmenn Reykjavíkur láti í hendur nefndarinnar að ákveða hvort þeir komi til fundar við hana um málefni borgarinnar tel ég vera dónaskap. Þetta er svar við boði nefndarinnar og svona svar er reyndar ekki bara dónaskapur heldur er þetta barnalegt og minnir á lítil börn sem láta ganga á eftir sér.

Um ummæli borgarstjórans þar sem hann segir, með leyfi forseta: ,,... en reynsluna tel ég hafa leitt í ljós að eigi hugur að fylgja máli þurfi viðræður forsvarsmanna borgar og fjárveitingavalds að fara fram við upphaf fjárlagagerðar en ekki í lok hennar,`` kalla ég yfirgang og hroka. Brigður eru bornar á að nefndarmenn í hv. fjárln. séu heilir í starfi sínu. Það er verið að gera þeim það upp að þeir séu með sýndarmennsku þegar borgin á í hlut og vegi ekki mál og meti af heilum hug. Bréfið er undirritað af borgarstjóra sem veit það mætavel að fjárlagavinna Alþingis hefst ekki formlega fyrr en fjárlagafrv. hefur verið lagt fram á fyrsta degi þingsins 1. okt. Ef borgarstjórinn vill koma að gerð fjárlaganna eða fjárlagafrv. fyrr, þá þarf að leita annað en til Alþingis.

Ég ætla að vona, herra forseti, að fjárln. berist ekki fleiri svona bréf. Ég er sannfærður um að fjárln. mun ekki láta þetta bréf hafa áhrif á sig á neinn hátt og mun meta óskir Reykjavíkurborgar eins og annarra, efnislegan og af sanngirni og leggja til sanngjarna niðurstöðu við Alþingi.

Ég vil að lokum, herra forseti, óska þess að gott samstarf náist um vinnu í fjárln. um þetta fjárlagafrv. og að fjárln. takist að skila farsælli niðurstöðu til þingsins sem leiði til fjárlaga sem verði landi og þjóð til heilla.