Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 15:20:39 (73)

1998-10-05 15:20:39# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[15:20]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Fjárlög á hverjum tíma sýna stefnu ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðherra og hvaða forgang ríkisstjórnin og einstakir fagráðherrar vilja hafa í sínum málaflokkum. Þess vegna verður að segja, herra forseti, að það er mjög slæmt að við séum að ræða hér fjárlagafrv. við 1. umr. og ráðherrabekkirnir tómir. Það er ekki einn einasti ráðherra hér í salnum. Ég skil fjarveru hæstv. fjmrh. en það er mjög nauðsynlegt að hafa fagráðherrana hér til staðar, vegna þess að fjárlögin í ýmsum málaflokkum, ekki síst að því er varðar heilbrrn., eru mjög óljós. Ýmislegt sem þar er sett fram hefði þurft að fá skýringu á núna við 1. umr. fjárlaga.

Hæstv. fjmrh. hrósar sér einkum af því sem fram kemur í þessu frv. og snýr að tekjuafgangi, að skuldir ríkissjóðs séu greiddar niður. Því ber vissulega að fagna og við hljótum að reyna að styðja fjmrh. í því verki. En sporin hræða, herra forseti, vegna þess að við síðustu fjárlagagerð var einnig boðað að ríkissjóður mundi skila tekjuafgangi. Mig minnir að það hafi verið upp á tæpa 2 milljarða. Nú er aftur rætt um tekjuafgang, en við stöndum frammi fyrir því að það stefnir í 3 milljarða halla á þessu ári. Hann er því alls ekki í hendi, sá tekjuafgangur sem hér er boðaður í fjárlagafrv. Síðan hefur verið sýnt fram á það, sem hlýtur að vera nokkurt umhugsunarefni, að fjárlögin hafa ekki staðist að því er varðar tekjurnar. Tekjur umfram fjárlög þessa árs eru um 9 milljarðar kr. Það er umhugsunarefni, herra forseti, að svo mikil skekkja skuli vera í tekjuáætlun sem kemur hingað til þingsins. Þegar upp er staðið þá stefnir í 9 milljarða meira í tekjur. Á næsta ári er tekjuuaukinn 15 milljarðar kr.

Nú getur maður spurt: Er það svo mikil snilld eða kraftaverk, eins og mér finnst stundum liggja í orðum forsrh. og fjmrh., að stjórna við þessar aðstæður með jafnmiklar tekjur og hér um ræðir? Ég get nefnt það, herra forseti, að ef við berum saman síðustu ríkisstjórn og þessa, þ.e. hvað þessi ríkisstjórn hefur haft miklu meiri tekjum úr að spila en síðasta ríkisstjórn, þá koma háar tölur í ljós.

Ef við tökum ríki og sveitarfélög, eða fjármál hins opinbera sem ég er hér með fyrir framan mig, þá hafa ríki og sveitarfélög á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar haft úr 130 milljörðum meira að spila á fjórum árum en síðasta ríkisstjórn. Ef við tökum það sem sveitarfélögin hafa fengið í sinn hlut, sem er sennilega um 25% af þessu, þá eru það nálægt 100 milljörðum sem þessi ríkisstjórn hefur haft meira úr að spila en síðasta ríkisstjórn. Það má gera ýmislegt fyrir 100 milljarða kr.

En það er alveg ljóst, herra forseti, eins og við vorum vitni að hér við þingsetninguna, að það eru stórir hópar í þjóðfélaginu sem ekki hafa fengið sinn skerf af þeim miklu tekjum sem ríkisstjórnin hefur haft úr að spila umfram síðustu ríkisstjórn. Það eru öryrkjar. Og það var alvarlegt en eftirminnilegt að sjá hvernig þeir töldu sig knúna til að vekja athygli á stöðu sinni í þjóðfélaginu hér við þingsetningu og hvernig þessi ríkisstjórn gleymir því aftur og aftur að til séu öryrkjar í landinu. Mig minnir að við þingsetninguna fyrir rúmu ári síðan hafi aldraðir staðið hér fyrir framan þinghúsið og mótmælt sínum kjörum. Það hefur auðvitað oft verið bent á það í þessum ræðustól að ríkisstjórnin hugsar fyrst og fremst um hagsmuni þeirra betur settu og hagsmuni fjármagnseigenda en ekki þá sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu. Einmitt þetta sjáum við í þessum fjárlögum og heyrðum af ræðum hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. við þingsetningu. Þeir muna greinilega ekki eftir því að sá stóri hópur sem öryrkjar fylla lifir við kröpp kjör að stórum hluta.

Bent hefur verið á ýmsa svarta bletti í þessum fjárlögum. Svo ég nefni þrennt, þá er það viðskiptahallinn, skuldir heimilanna og misskipting tekna, eins og ég hef hér farið inn á. Það er með ólíkindum að viðskiptahallinn á árinu 1997, 1998 og 1999 skuli vera 74 milljarðar kr. Árið 1995, þegar þessi ríkisstjórn tók við, var afgangur af viðskiptum við útlönd upp á 4 milljarða kr. en nú sjáum við hér halla upp á 74 milljarða á þremur árum. Það er auðvitað skýringin líka á þeim tekjuauka sem ríkissjóður hefur haft á þessu ári og því næsta.

Þegar rætt er um að mikil útgjaldaaukning sé nú til \mbox{félags-,} heilbrigðis- og menntamála þá finnst mér það mikið til vera sýndarmennska. Þetta eru mikið til launa- og verðlagsbreytingar og ætla ég að sýna fram á það hér í stuttu máli á eftir.

Ég minnist þess að í síðustu ríkisstjórn talaði Framsfl. mikið um skuldir heimilanna, bað aftur og aftur um umræður utan dagskrár um verulega skuldaaukningu heimilanna. En í þessu góðæri hafa skuldir heimilanna aukist verulega, eins og hér hefur verið sýnt fram á. Við erum að tala um að á 24 mánuðum, á tveimur árum, hafi skuldir heimilanna aukist um 73 milljarða kr. Þær hafa aldrei verið meiri en nú, um 406 milljarðar kr. Skyldi, herra forseti, ástæðan fyrir þessari skuldaaukningu að einhverju leyti líka vera lág laun hjá fjölda fólks í landinu? Getur fólkið ekki framfleytt sér af þeim tekjum sem því er boðið upp á? Þarf það kannski að taka lán fyrir framfærslunni? Þar á meðal öryrkjarnir sem stóðu hér fyrir framan þinghúsið þegar þingið var sett.

Mig langar, herra forseti, af því að tíminn er takmarkaður og af því að ég sé að hæstv. heilbrrh. er mætt hér í þingsalinn og ég vil þakka fyrir það, að leggja fyrir hana örfáar spurningar. Í fyrsta lagi hefur hæstv. heilbrrh. boðað að hún muni flytja inn í þingið frv. sem á að tryggja að dregið verði úr þeirri tekjutengingu sem öryrkjar búa við. Ég get ekki séð það í fjárlögunum að gert sé ráð fyrir fjármagni til þess að mæta afnámi tekjutengingar eða að úr henni sé dregið. Ég vil spyrja hæstv. heilbrrh.: Hvað er gert ráð fyrir að þetta kosti mikið og hvaða hugmyndir eru á borði ráðherrans um afnám tekjutengingarinnar, sem allir viðurkenna að er mjög óréttlát? Ráðherra hefur réttilega bent á að þetta er ekki eitthvað sem hún kom á í sinni ráðherratíð, það skal vel viðurkennt. Ráðherrann hefur nefnt að hún vilji fara í þessar breytingar. Ég fagna því en við verðum þá líka að sjá þess stað í fjárlögum að gert sé ráð fyrir þessu.

[15:30]

Ég vil líka spyrja ráðherrann um það sem nefnt er í fjárlögum undir kaflanum Heilbrigðismál þegar talað er um 320 millj. kr. sparnað í lyfjum, m.a. með breytingum á reglum um greiðslur almannatrygginga fyrir lyf. Er verið að hækka hlut sjúklinga í lyfjakostnaði? Eða hvað þýðir þetta? Það er alveg óþolandi að búa við það þegar framsetning fjárlagafrv. er með þeim hætti að illmögulegt er að lesa úr því sem þar er skrifað. Það er vísvitandi verið að reyna að fela það sem þarna er á bak við. Og ég vil spyrja, því ráðherrann hlýtur að vita hvað er á bak við þessar 320 milljónir: Hverju megum við eiga von á, er verið að hækka hlut sjúklinga í lyfjakostnaði?

Ég vil einnig spyrja hæstv. heilbrrh.: Það kemur fram að samningur við sérfræðilækna valdi 330 millj. kr. hækkun. Og það virðist eiga að fá með sparnaði eða a.m.k að hluta til vegna þess að fram kemur að á móti á að koma 100 millj. kr. sparnaður m.a. ,,með bættu eftirliti með greiðslu bóta og greiðsluþátttöku sjúkratrygginga, sem eiga að skila 60 millj. kr.`` Hvað er þarna á ferðinni að því er varðar sjúkratryggingar sem á að skila sér upp á 60 millj. kr.?

Ég vil aðeins víkja að þeim kafla sem snýr að félmrn. Ég hygg, herra forseti, að við höfum náð nokkru fram þegar við þurftum að ræða töluvert um húsnæðismál á síðasta þingi og bentum á að einungis væri gert ráð fyrir 50 leiguíbúðum á fjárlagaárinu 1999 og sýndum fram á það með rökstuðningi að í það stefndi að 600 fjölskyldur, sem hefðu fengið fyrirgreiðslu í félagslega íbúðakerfinu, yrðu á götunni ef leiguíbúðum yrði ekki fjölgað. Sem betur fer, og því ber að fagna, verða leiguíbúðirnar, sem voru boðaðar 50, ekki 50 heldur 120 á næsta ári. En herra forseti, þetta nægir engan veginn vegna þess að aðeins í Reykjavík er biðlistinn um 400 manns, aðallega einstæðir foreldrar sem eru að bíða eftir leiguíbúðum og síðan 200 aldraðir eða um 600 manns. Og þrjú sveitarfélög, ég nefni Reykjavík, Akureyri og Kópavog, sýndu fram á það í umsögnum sínum um frv. félmrh. á síðasta þingi að þau þyrftu á næsta ári 300 leiguíbúðir, bara þessi þrjú sveitarfélög, til að koma til móts við þá sem ekki mundu fá inni í nýju kerfi. Ef við tökum saman biðlistana og þá sem ekki fá inni í nýju kerfi gætum við verið að tala um 1.000--1.200 manns á næsta ári sem eiga að komast inn í 120 leiguíbúðir. Það er auðvitað nauðsynlegt að vekja athygli á þessu vegna þess að í óefni stefnir hvað þessi mál varðar. Ég hef heyrt, herra forseti, að strax í sumar hafi mikil vandræði sýnt sig að því er varðar leiguíbúðir og við munum örugglega sjá þau aukast eftir því sem líður á veturinn. Og þessu á einungis að mæta með 120 leiguíbúðum.

Ég vil líka nefna málefni barna. Í frv. kemur fram að þar sé hækkun upp á 24 millj. og verið er að tala um ný meðferðarúrræði út af hækkun á sjálfræðisaldrinum. Ég minnist þess að hæstv. félmrh. sagði það í útvarpi fyrir skömmu að 90 millj. þyrftu í rekstur fyrir utan stofnkostnað til að koma til móts við það að verið væri að hækka sjálfræðisaldur úr 16 í 18 ár, 90 millj. Enda er það svo að biðlistinn lengist verulega. Það voru áður sennilega 15 börn sem biðu eftir meðferðarúrræðum en fjölgar í 30 með þessum breytingum. Það eru 24 millj. í aukningu en ekki vegna þessara nýju meðferðarúrræða. 9 millj. eru bara laun og verðlagsbreytingar, 15 millj. vegna meðferðarúrræða vegna hækkunar á sjálfræðisaldrinum, en það er vegna heimilis í Borgarfirði sem tók til starfa á þessu ári og heimilis í Skagafirði sem ég hef heyrt hæstv. ráðherra nefna, en þar var bara tilflutningur úr einu heimili í annað, heimili sem var áður rekið í tíu mánuði en verður rekið í tólf mánuði. Þannig að við erum ekki að sjá nein ný úrræði á næsta ári, herra forseti.

Ég vil einnig nefna það, herra forseti, af því hæstv. félmrh. er hérna, að mikið var um það talað að Húsnæðisstofnun væri svo dýr. Þess vegna væri ástæða til þess að leggja hana niður. En hvað sjáum við á fjárlögunum? Þessi svokallaði Íbúðalánasjóður á að kosta 30 millj. kr. meira í rekstur á næsta ári heldur en Húsnæðisstofnun kostaði.

Og þegar við komum að framlögum í leiguíbúðir, þar sem talað er um 120 leiguíbúðir, þá er verið að draga úr ríkisframlögunum. Höfðu þau nú minnkað verulega áður í tíð þessa hæstv. félmrh., voru komin niður í 275 millj. á þessu ári plús 40 millj. sem var greiðsla til Tryggingasjóðs vegna byggingargalla, en nú eiga að koma um 180 millj. Það er því verið að lækka verulega ríkisframlögin. Og það er auðvitað athyglisvert að rekstrarkostnaður Íbúðalánasjóðsins er þarna töluvert hærri.

Ég vil einnig nefna Framkvæmdasjóð fatlaðra. Sjálfsagt fer hæstv. félmrh., ef hann kemur hér í stólinn, að tala um þá 200 millj. kr. hækkun sem kemur fram í fjárlagafrv. en að verulegum hluta er líka um að ræða bara launa- og verðlagsbreytingar. Og það eru ekki mörg ný úrræði sem við sjáum fyrir fatlaða á næsta ári, einfaldlega vegna þess að meira en helmingur, ég held það séu um 250 millj., er tekinn af lögbundnum tekjum erfðafjársjóðs sem eiga að fara til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, og er bara hirtur inn í ríkissjóð, sisona. Það er eftir öðru þegar þessi ríkisstjórn á í hlut og hún lítur til öryrkja. Það er skerðing og aftur skerðing, hvort sem það eru sjóðirnir sem öryrkjar treysta verulega á að því er varðar uppbyggingu þeirra eða lífeyri þeirra og framfærslu. Hæstv. ráðherra verður því að svara fyrir það hvernig þarna á að fara með og finnst mér nú satt að segja mjög rýr þessi svokallaða aukning í félagsmálum sem maður hefur heyrt í fjölmiðlum að eigi sér stað í fjárlögunum. Ekki síst þegar til þess er litið að þessi ríkisstjórn hefur haft 100 milljörðum meira úr að spila en síðasta ríkisstjórn.

Ég vil víkja að skattamálum, herra forseti. Það er auðvitað mjög athyglisvert, eins og hv. þm. Ágúst Einarsson kom inn á í máli sínu, að af 36 milljarða hagnaði fyrirtækja greiða þau aðeins 7 milljarða í skatt, og af 100 milljörðum á þessu kjörtímabili greiða þau 16 milljarða, meðan launafólkið hefur mátt greiða 84 milljarða. Við sjáum í þessu fjárlagafrv. að tekjuskattur einstaklinga er áætlaður hækka um 12% en tekjuskattur fyrirtækja hækkar ekkert og fjármagnstekjuskatturinn á að skila sömu tekjum og hann gerði á þessu ári. En þegar við komum að þeim sem eiga fjármagnið þá er ekkert reynt að fá meiri tekjur þaðan en lendir á þeim sem eru hinir venjulegu launamenn að halda þessu uppi.

Það er líka athyglisvert í þessu frv. að skattrannsóknir sem hafa skilað okkur verulegum fjármunum í ríkissjóð, þar sem tekið hefur verið myndarlega á skattsvikunum, að hækkun á framlögum til skattrannsókna eru 2 millj. milli ára. Það er kannski einn starfsmaður, varla það. Og ég fullyrði það, herra forseti, að hverjar 2 millj. sem settar eru til skattrannsókna skila sér fimmfalt aftur inn í ríkissjóð. Það er þarna sem á að leggja til peninga.

Það vekur líka athygli mína að ekki er ein króna lögð í auknar aðgerðir gegn fíkniefnavandanum. Það eru sömu 55 milljónirnar á næsta ári og voru á þessu ári. Það á að leggja peninga í fíkniefnamálin og til að auka aðgerðir í skattsvikamálum. Og það er líka athyglisvert, og skulu það vera mín lokaorð, að meðan þessi hæstv. félmrh. hefur setið í stóli að þá eru framlög til starfsmennta þau sömu og voru t.d. þegar Rannveig Guðmundsdóttir var félmrh. Þetta sýnir, herra forseti, hvaða hug hæstv. ráðherra ber til ófaglærðs starfsfólks sem sérstaklega á að njóta góðs af þessum peningum.