Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 16:49:53 (78)

1998-10-05 16:49:53# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[16:49]

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Það má á einfaldan hátt skilgreina hvernig hús á að vera, að það eigi að vera bjart, hlýtt og rúmgott. Á sama hátt má segja um það fjárlagafrv. sem hér er til umræðu og vélað er um, að það sé skynsamlegt, traust og framsækið. Á þessu stigi málsins er kannski ekki ástæða til að hafa mörg fleiri orð um frv. í heild sinni. Það fer nú til umræðu og vinnslu, fullvinnslu í fjárln. og kemur síðan aftur til þingsins. En það er augljóst mál að mínu mati að frv. er bitastætt og stendur vel.

Það sem mig langar hins vegar að vekja aðeins máls á er atriði sem hefur komið fram í umræðunni hjá hv. þm. Gísla Einarssyni og Árna Mathiesen og er bréf borgarstjórans í Reykjavík til fjárln. fyrr á þessu hausti. Bréf sem var, vægt til orða tekið dónalegt og ósanngjarnt og ber vott um vinnubrögð sem hafa ekki verið tíðkuð við stjórn Reykjavíkurborgar um langt árabil, a.m.k. ekki áður en Reykjavíkurlistinn komst til valda. Í bréfi borgarstjórans í Reykjavík var það einfaldlega sagt að það skipti engu máli að tala við fjárln., það hefði ekkert upp á sig og skilaði engu og væri út úr kortinu.

Skoðum aðeins vettvanginn sem fjárln. þarf að fjalla um, um 4.000 mál á hverju hausti sem spanna alla þætti þjóðfélagsins, stóra og smáa, hjá litlum sveitarfélögum og stórum, stofnunum og í mörgu er varðar einstaklingana. Það er auðvitað meginreglan við afgreiðslu fjárlaga að menn sitji við sama borð. Engu að síður er löng reynsla af því að þau sveitarfélög sem betur standa fjárhagslega en önnur gera og hafa gert aðrar kröfur en þau sem frekar bjátar á hjá, og á þetta við um marga þætti fjármálasviðsins.

Þegar Reykjavíkurlistinn komst til valda í Reykjavík var breytt um stefnu gagnvart ríkisvaldinu og kom það fram í fyrsta skipti, a.m.k. um áratuga skeið, að Reykjavíkurborg vildi fara að gera út á ríkisvaldið. Það má nefna dæmi þar að lútandi sem ég ætla að koma að aðeins síðar. Styrkur Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar landsins er gífurlegur á vettvangi fjármála landsins. Reykjavíkurborg hefur auðvitað forskot umfram öll önnur byggðarlög landsins og það er eðlilegt í höfuðborg landsins eins og hún hefur vaxið og þróast með markvissri og öruggri stjórn um áratuga skeið þar sem hryggurinn skiptir miklu máli og hugsað var til framtíðar á framsækinn hátt.

Auðvitað skiptir það máli að við erum að tala um gífurlegar skatttekjur. Skatttekjur Reykjavíkurborgar eru u.þ.b. 16 milljarðar kr., aðrar tekjur liðlega 5 milljarðar. Stórar stofnanir eins og Ríkisspítalar taka til sín 8,5 milljarða af fjárlögum og veita 3.100 manns atvinnu með 2.500 stöðugildum. Sjúkrahús Reykjavíkur tekur til sín um 5 milljarða af fjárlögum og veitir um 1.800 manns atvinnu og er með 1.300--1.400 stöðugildi. Háskóli Íslands tekur til sín um 3 milljarða af fjárlögum og veitir atvinnu nær 1.000 manns. Þetta eru auðvitað stofnanir sem þjóna alhliða öllu landinu en eru engu að síður styrkur höfuðborgarinnar og gott dæmi um trausta áskrift höfuðborgarinnar að góðum skatttekjum.

Þetta er nefnt hér vegna þess að í svo mörgum tilvikum eru sveitarfélögin úti á landsbyggðinni að berjast í bökkum fyrir lífi sínu og stöðu þar sem fólk er bundið átthögum sínum með fasteignum sem eru misverðmætar og í öllum tilvikum verðminni en samsvarandi fasteignir á Reykjavíkursvæðinu þótt gæðin séu þau sömu. Það er því mikið áhyggjuefni þegar borgarstjórinn í Reykjavík sýnir slíkan yfirgang gagnvart öðrum byggðarlögum landsins að hunsa nánast fyrir fram alla vinnu fjárln., sem byggist á því að sýna svo mikla sanngirni sem frekast er kostur og jafnræði meðal þegna landsins. Auk þess er Reykjavíkurborg sjálf auðvitað stærsti atvinnurekandinn í Reykjavík með um 7.500 starfsmenn. Það er auðvelt að nefna öflug, skapandi atvinnutækifæri svo sem þau sem liggja í staðsetningu Reykjavíkurflugvallar í Reykjavík, sem er lykill landsbyggðar að höfuðborg og auðvitað um leið lykill höfuðborgar að landsbyggð þar sem um 400 þús. farþegar fara um á ári. En þó vegur miklu meira aðgengi landsbyggðarinnar að höfuðborginni en aðgengi höfuðborgarinnar að landsbyggðinni, því í svo ríkum mæli þurfa landsbyggðarmenn að sækja til höfuðborgarinnar þjónustu, til að mynda til þeirra stofnana sem ég hef nefnt hér.

Auðvitað skapar Reykjavíkurflugvöllur þúsundir starfa í Reykjavík á mörgum sviðum þjónustu, verslunar, gistingar og ótal þátta sem tengjast þessari miklu umferð sem fer um Reykjavíkurflugvöll. Samt sem áður hefur Reykjavíkurborg undir forustu Reykjavíkurlistans dregið lappirnar í að skipuleggja og staðsetja áform um endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar.

Ef borgarstjórinn í Reykjavík hefur talið það eðlilegt að geta komið til fjárln. og merkt við fjármagn til ákveðinna þátta þá er það mikill misskilningur og í mikilli mótsögn við aðra sveitarstjórnarmenn frá tugum sveitarfélaga á landinu sem koma árlega til fjárln. til þess að bera saman bækur með væntingar, vonir og þrár, með verkefni sem eru brýn og mikilvæg, þó svo að oft taki langan tíma að koma þeim væntingum á legg. Í þau tólf ár sem ég hef setið í fjárln. hef ég aldrei lesið slíkt bréf frá sveitarstjórnarmönnum eins og hv. þm. hafa fjallað hér um frá borgarstjóranum í Reykjavík.

[17:00]

Í sumum tilvikum er Reykjavík utan dyra í veitingu fjármagns, til að mynda er varðar hafnir landsins. Þar fer ekki króna af hafnaáætlun til Reykjavíkurhafnar enda eru þær reglur sem farið er eftir byggðar á tekjustöðu hafna landsins og tekjur Reykjavíkurhafnar eru það miklar að menn telja ekki sanngjarnt, og það hefur ekki verið gagnrýnt af neinum, að Reykjavíkurborg fái hlut úr hafnaáætlun. Tekjur Reykjavíkurhafnar á síðasta ári hafa verið eitthvað á níunda hundrað millj. sem er talsvert hærri upphæð en fer til allra hafna landsins árlega á hafnaáætlun.

Auðvitað er mikill burður í stofnunum eins og Rafmagnsveitu Reykjavíkur með á fimmta milljarð í tekjur árlega, Hitaveitu Reykjavíkur með á fjórða milljarð í tekjur árlega. Þetta undirstrikar aðeins það gífurlega forskot sem Reykjavík hefur í allri fjármálastöðu landsins.

Það vakti athygli fyrir fáum árum þegar núverandi borgarstjóri lagði fram tillögu til fjárln. að sótt var um hálft stöðugildi safnvarðar við Árbæjarsafn. Einn af þeim liðum sem fjárln. fjallar um eru söfn landsins og minjar en samkvæmt almennu reglunni áttu söfn rétt á hálfu stöðugildi. Allir sem fjölluðu um málið vissu auðvitað að þessi grein var komin inn í hinni svokölluðu landsbyggðastyrkingu til þess að hjálpa litlum byggðarlögum, litlum sveitarfélögum, til þess að sýna lit við uppbyggingu safna í viðkomandi héruðum hvort sem það er á Vestfjörðum, Austurlandi eða annars staðar en allt í einu kom stóri bróðir, höfuðborgin sjálf, og heimtaði af þeim hálft stöðugildi í Árbæjarsafn og fékk það. Satt að segja er ekki mikil reisn yfir þessum vinnubrögðum. Það er ekki mikil reisn og það er ekki mikil tillitssemi við þann vilja, að ég hygg flestra þingmanna, að hlutast til um að hjálpa hinni dreifðu byggð til þess að standa í ístaðinu þegar lýtur að uppbyggingu menningar, atvinnu og annarra þátta sem þykja sjálfsagðir í nútímasamfélagi. Þetta ber að hafa í huga þegar fjallað er um hið furðulega bréf borgarstjóra til fjárln. og hv. þm. Gísli S. Einarsson vakti máls á fyrst í dag.

Heimsóknir sveitarstjórnarmanna þar sem fjöldi einstaklinga getur numið hundruðum á hverju ári sem heimsækja fjárln., leggja fyrir mál, kynna og skiptast á skoðunum, eru mjög af hinu góða. Þær kynna oft báðar hliðar málsins. Þær kynna þær óskir, þann vilja og þá stefnu sem sveitarstjórnarmenn landsins og aðrir forustumenn hafa á borði sínu og það skiptir miklu máli. Enda þótt það skili ekki alltaf árangri um leið og stundum ekki, skiptir miklu máli að tala saman og að Alþingi sýni þessum þætti í starfi þingsins virðingu og ræktarsemi. Þess vegna er það miður þegar til fjárln. kemur það bréf sem hér hefur verið rætt um og er í rauninni lítilsvirðing við þessa starfsemi Alþingis.