Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 17:13:37 (83)

1998-10-05 17:13:37# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[17:13]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er með ólíkindum að hlusta á fjárlaganefndarmenn Sjálfstfl. koma hver af öðrum og kveinka sér undan bréfi frá borgarstjóranum í Reykjavík. Mér finnst þetta ótrúleg viðkvæmni. Borgarstjórinn í Reykjavík sendir langt og mikið plagg til fjárln. þar sem er greinargerð um það hver erindi hann á við fjárln. og segir síðan í bréfinu:

,,Með vísan til fyrri reynslu þykir rétt að láta fjárlaganefnd það eftir að ákveða hvort forsvarsmenn Reykjavíkur skuli koma á fund nefndarinnar til þess að gera frekari grein fyrir málefnum borgarinnar.``

Það er búið að gera grein fyrir málefninu í ítarlegri greinargerð. Síðan koma þeir hver af öðrum og veitast að borgarstjóranum í Reykjavík sem á ekki sæti á Alþingi til þess einu sinni að skýra mál sitt. Hefði ekki, herra forseti, verið eðlilegra, ef bréfið frá borgarstjóranum fór svona fyrir brjóstið á fjárlaganefndarmönnum, að þeir hefðu þá kallað borgarstjórann í Reykjavík á fund sinn eins og hann býður í bréfinu og fengið skýringar á þessu öllu saman en vera að koma í ræðustól Alþingis þar sem borgarstjórinn er ekki til þess að svara fullyrðingum og ávirðingum nefndarmanna, að leyfa sér að vera með slík vinnubrögð og hafa það sem aðalmálflutning í umræðu um fjárlög ríkisins fyrir næsta ár. Ég get ekki annað en tekið undir það sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson nefndi áðan. Það er náttúrlega fyrir neðan allar hellur að koma dugleysi samgrh. í því að koma á framkvæmdum við Reykjavíkurflugvöll yfir á Reykjavíkurlistann. Það er síðasta sort, herra forseti.