Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 17:47:06 (89)

1998-10-05 17:47:06# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[17:47]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Til mín hefur verið beint nokkrum spurningum sem ég mun svara hér og mun byrja á því sem hv. síðasti ræðumaður talaði um og sagði að ríkisstjórnin væri að slá sér upp á 130 hjúkrunarrúmum. (RG: Það hafa margir þingmenn nefnt það sem stóra málið í fjárlögunum.) Ég tel, hv. þm., að þetta sé eitt af stóru málunum í fjárlögum og skipti geysilega miklu máli. Það eru mjög margir aldraðir Reykvíkingar sem bíða eftir hjúkrunarrými og með þessu erum við að stytta biðlistann verulega og það verður ekki nema 90 daga bið eftir hjúkrunarrými þegar búið er að fullnægja þessari þörf. (Gripið fram í.)

Þá vil ég segja hv. þm. nákvæmlega frá því hvað þetta muni kosta því að hv. þm. taldi að þetta mundi kosta 100 millj. Þetta kostar nákvæmlega 322 millj. kr. Það var kallað fram í áðan og spurt hvar þessi rými muni verða. Verið er að tala um 60 rúma hjúkrunarheimili í Reykjavík, 26 rúm í Ási í Hveragerði, 25 rúm í Garðabæ, vistheimili í Víðinesi fjölgar rúmum um 19 og það verður opnað núna fyrst í desember eins og í Hveragerði. Dvalarrými verður breytt í hjúkrunarrými og heimahjúkrun verður aukin í Reykjavík. Hér er því verið að bæta úr mjög brýnni þörf og ég er satt að segja mjög undrandi á því hve lítið er gert úr þessu í umræðunni. Ég hélt að hv. þm. væru sammála því að þetta væri forgangsverkefni.

Mig langar að nefna það, fyrst ég er byrjuð að ræða um það sem ekki hefur verið rætt við þessa umræðu, að verið er að bæta við verulegu fjármagni í heilsugæsluna, ekki bara á Reykjavíkursvæðinu heldur líka á landsbyggðinni og það væri hægt að telja upp mörg atriði þar að lútandi sem gerbreytir svigrúmi heilsugæslunnar. Hér er boðað að verið er að sameina stjórnir og gera allar stjórnir miklu skilvirkari en áður hefur verið. Ég tek sem dæmi, vegna þess að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sagði áðan að það væri mikil fjárvöntun varðandi sjúkrahúsin og fleiri hafa rætt um það hér, að verið er að bæta við geysilegu fjármagni einmitt til sjúkrahúsanna í þessum fjárlögum. Ég held að það hljóti allir að sjá sem lesa frv. Við erum að tala um hálfan milljarð á Reykjavíkursvæðinu. En af því að ýmsir hafa gert fremur lítið úr og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir kom inn á það að fagnefndir sem hafa verið að vinna fyrir heilbrrn. hafi að mér skildist ekki miklu skilað, þá sést ef við lítum á sjúkrahúsin hér á landi að 11 af 17 eru innan fjárhagsramma í dag. Það er því gerbylting varðandi rekstrarumhverfi sjúkrahúsanna.

Og til að ljúka umræðunni um sjúkrahúsin, þá var spurt að því áðan hvar í fjárlögunum stækkunin væri á gjörgæslugeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Á fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir milli 100 og 200 millj. til þess að bæta aðstöðuna á Sjúkrahúsi Reykjavíkur en ég er ekki með það hér á takteinum hve mikið er búið að nýta af því fjármagni. Þetta vildi ég að kæmi fram.

Varðandi spurningu hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur um hvað ekki náðist af samningi sem gerður var við Reykjavíkurborg, fjmrn. og heilbrrn. varðandi hagræðingu á sjúkrahúsum, þá er það nákvæmlega það að Vífilsstaðaspítali átti að breytast í hjúkrunarsjúkrahús. Það hefur ekki gerst en mun gerast um leið og barnaspítalinn verður opnaður. Og eins varðandi bæklunarskurðlækningar sem átti að sameina, þá hefur ekki náðst samkomulag um það milli Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítala að auka samhæfinguna milli þessara deilda.

Hv. þm. spurði einnig um hvað það hafi kostað að ná ekki þeirri samræmingu. Það er eitthvað á milli 90 og 100 millj.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði mig þriggja spurninga. Hún spurði hvernig ætti að ná fram sparnaði í lyfjum en ég vil þá minna á að gert er ráð fyrir aukningu lyfjakostnaðar. Ríkið gerir ráð fyrir því að aukningin sé um 200 millj. kr. en fyrst og fremst verður áfram losað um samkeppnishömlur, t.d. með því að stuðla að samhliðainnflutningi og beinum innflutningi lyfja.

Í öðru lagi eru möguleikar á samstarfi við innlenda lyfjaframleiðendur um lækkun lyfjakostnaðar og í þriðja lagi er Tryggingastofnun ríkisins áfram falið að auka kröfur til lyfjaverðlagsnefndar um lækkun á verði þeirra lyfja en við höfum náð verulegum árangri þar. Hámarksverð hefur lækkað og það verður gripið til ýmissa annarra aðgerða til að halda lyfjaútgjöldum innan fjárlaga eins og við höfum gert á þessu ári með kostnaðarstýringu lyfjaávísana. Það er alveg ljóst að sjúklingar borga minna fyrir lyf í dag en þeir hafa gert á undanförnum árum og það er ýmislegt sem gerir það að verkum að svo er.

Hv. þm. hafa einnig komið inn á það í þessum umræðum varðandi tekjutengingu bóta og spyrja: Hvar stendur það í fjárlögunum hvað þetta muni kosta? Svarið við því er það að ekki eru nákvæmar útfærslur á því hvað þetta muni kosta. Það er alveg ljóst að þetta kostar verulega fjármuni. Það er ekki einfalt að útfæra þessa breytingu en samkomulag er um að fyrsta skrefið verði tekið á þessu þingi. En það sem er flókið við þessa útfærslu er fyrst og fremst það að þeir einstaklingar sem hafa getað nýtt sér svokallað frítekjumark frá sínum maka detti ekki út. Það er fyrst og fremst það sem er flókið við þessa útfærslu. Það er að einhverjir missi ekki spón úr aski sínum.

Ég á von á því að innan fárra vikna liggi fyrir þingmönnum hvernig þessi útfærsla verður. Þetta kostar verulegt fjármagn og ég vona að stjórnarandstæðingar muni standa með stjórninni í að breyta þessu sem er mikið sanngirnismál. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu hefur enginn ráðherra til þessa reynt að breyta þessum tekjutengingum allt frá því að þær voru settar árið 1936 og mér finnst það einkennilegt ef hv. þm. ætla að gera það tortryggilegt. Ég tel þetta vera mikið sanngirnismál.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði einnig um 60 millj. kr. sem áætlaðar eru til sparnaðar varðandi Tryggingastofnun. Það er fyrst og fremst með auknu eftirliti á ávísanir, bæði á röntgenrannsóknir, lyf og rannsóknir því það er ljóst að miklar tvítekningar eru í kerfinu. Okkur hefur verið bent á það af sérfræðingum að aukið eftirlit þurfi með því og með nýjum samningum við þá sérfræðinga sem vinna hjá Tryggingastofnun, sem nú helga sig alfarið störfum hjá Tryggingastofnun eykst svigrúmið að fylgjast með þessu. En ef menn skoða fjárlagafrv. og einmitt þann kafla sem snýr að heilbr.- og trmrn., þá sjá menn að mikil aukning er til heilbrigðis- og tryggingamála. Ef ég tel upp nokkur dæmi hljóta menn að sjá að mikil breyting verður þar á. Menn sjá t.d. að við erum að opna líknardeild, barna- og unglingageðdeildin er að fá aukið fjármagn, vökudeild nýbura er að fá aukið fjármagn. Við erum að fjölga ljósmæðrum á kvennadeild, við erum að auka áfallahjálp svo að eitthvað sé nefnt. Við erum að auka verulega fjármagn til endurhæfingar. Við erum að tala um 24 millj. bara á Reykjavíkursvæðinu.

Ég nefndi áðan verulega aukið fjármagn til sjúkrahúsanna á Reykjavíkursvæðinu. Við erum að gera þjónustusamninga við einstaka stofnanir úti á landi sem fylgir aukið fjármagn. Þetta gerir það að verkum að við getum stytt biðlista og umhverfið verður allt annað. Mér finnst því rétt að benda á það um leið og ég svara þeim fyrirspurnum sem fyrir mig hafa verið lagðar.