Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 18:02:41 (94)

1998-10-05 18:02:41# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[18:02]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra gagnrýndi að hér hefði verið talað um að sjúkrahúsin hefðu verið rekin í fjársvelti. Það hefur verið aukin fjárveiting til sjúkrahúsanna. Í ræðu minni fagnaði ég því að það kæmu viðbótarfjárveitingar. Engu að síður vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það er rangt sem ég hélt fram að hallinn á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, sem flyst yfir á næsta ár, sé 600 millj. kr. eins og ég sagði í ræðu minni. Ef svo er þá er auðvitað enn verið að þrengja að sjúkrahúsunum því að þau dragnast með halla frá undanförnum árum.

Hæstv. ráðherra talar um að fyrsta skrefið í að minnka tekjutengingu við tekjur maka eigi að stíga á þessu ári. Hversu háa upphæð ætlar hæstv. ráðherra að setja í þetta? Er ekki réttlætismál að bætur hvers lífeyrisþega séu miðaðar við hans eigin tekjur en ekki við einhverja aðra þannig að framfærslunni sé ekki komið yfir á maka einstaklingsins? Það er réttlætismál og það er það sem stangast á við stjórnarskrána. Við tókum þessa mannréttindakafla bæði úr mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu inn í stjórnarskrána 1995, inn í stjórnsýslulögin 1993 og þess vegna er brýnt að ráðherra leiðrétti þetta og kannski vegna þess að aðrir hafa ekki gert það.