Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 18:32:21 (109)

1998-10-05 18:32:21# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[18:32]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé full ástæða til þess að hafa nokkrar áhyggjur af þessum málaflokki, þ.e. málefnum fatlaðra og fjármagni í þennan málaflokk. Ég er farin að heyra það og við þingmenn að sveitarstjórnarmenn eru orðnir mjög hugsi yfir því að taka þennan málaflokk til sín af því að ríkisstjórnin er að draga lappirnar í því að setja fjármagn í þennan málaflokk og ætlar sér greinilega að setja þetta allt yfir á sveitarfélögin. Það væri ágætt að formaður fjárln. upplýsti um það hvað er að gerast að því er varðar Reykjavík og Reykjanes þar sem stærstu og lengstu biðlistarnir eru. Mér heyrist að það kosti nú nokkur hundruð milljónir, 500--700 milljónir, að leysa búsetumál fatlaðra í Reykjavík og á Reykjanesi. Það er því mjög nauðsynlegt að fá það skýrt fram.

Varðandi málefni barna þá liggur það fyrir að það á nánast ekkert að gera í sambandi við sjálfræðisaldurinn, það liggur fyrir í fjárlögum og hægt er að lesa sér til um það. Hvað varðar leiguíbúðirnar þá er auðvitað til skammar hvernig að því er staðið. Það er enn verið að minnka framlögin sem voru 275 millj. niður í 180. Það er hrein skömm að því hvernig staðið er að uppbyggingu á leiguíbúðum.