Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 18:34:01 (111)

1998-10-05 18:34:01# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[18:34]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikil reisn í þessum orðaskiptum, en hér hefur fallið tilsvar dagsins.

Ríkisstjórnin hefur ekki efni á því að vera með þau úrræði sem þarf vegna hækkunar sjálfræðisaldursins. Þarna birtast okkur sólskinsfjárlögin, barnaverndarsjónarmiðin og umhyggjan fyrir æskunni. Þarna liggur það klárt og kvitt. Það er hægt að skýra þessi fjárlög með einni setningu í stíl við þá sem hér féll: Ríkisstjórnin hefur ekki efni á félagslegum úrræðum. Þetta eru sjónarmið þessarar ríkisstjórnar.

Virðulegi forseti. Ráðherrann svaraði mér mjög takmarkað um Íbúðalánasjóð. Ég ætla að endurtaka spurningarnar:

Félagslega húsnæðiskerfið hefur verið aflagt. Húsbréfin eru á leið í bankana geri ég ráð fyrir og óska eftir að fá það staðfest. Ég spyr hvort ráðgjafarstöð Húsnæðisstofnunar verði aflögð og hvað það þýði að margir fari á biðlaun og hvað það kostar. Hæstv. ráðherra talaði um hve margir yrðu endurráðnir. Hve margir fara á biðlaun og hvað kostar það?

Að lokum, herra forseti. Ég spurði um starfsmenntasjóðinn og stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er staðfest í svari ráðherrans. Það er engin stefna, engin framtíðarsýn.