Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 19:08:56 (117)

1998-10-05 19:08:56# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[19:08]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson kom víða við og ég ætla að svara honum í stuttu máli. Hann gerði aðallega athugasemdir við þá tvo fagráðherra sem setið hafa hér í allan dag. Hann er eins og prestarnir sem skamma þær fáu hræður sem mæta til messu, en nóg um það.

Hv. þm. talaði um það að ég hefði haft allt á hornum mér þegar lyfjalögum var breytt. Það er alveg rétt, ég hafði allt á hornum mér og kom ýmsu góðu til leiðar með því. Við höfum getað lækkað lyfjaverð vegna þriggja aðalatriða. Gengismálin hafa verið okkur mjög hagstæð. Við höfum beitt samhliðainnflutningi og við höfum lækkað hámarksverð. Auðvitað höfum við líka notið samkeppninnar. Það hefur komið á daginn, alveg eins og ég sagði í umræðunni fyrir fjórum árum síðan að lyfjaverð er ekki jafnt milli Reykjavíkursvæðisins og landsbyggðarinnar. Það er mismunandi.

Varðandi Barnaspítala Hringsins þá hefur það dregist allt of lengi að hefja framkvæmdir. Við vorum tilbúin með teikningar í byrjun maí og vildum fara af stað en við höfum verið í samningaviðræðum við Reykjavíkurborg varðandi flutning á Hringbrautinni og nú er það loksins komið í höfn. Við getum því hafist handa.

Nú, hamingjan er í Hanstholm í Danmörku. Ég ætla að segja hv. þm. stutta sögu. Ég var í Danmörku núna síðast í ágúst hjá gamalli vinkonu minni sem er um áttrætt. Hún er með krabbamein. Hún sagði við mig: Mikið var ég heppin að ég skyldi fá krabbamein áður en ég varð sjötug. Ef ég hefði verið orðin sjötug þegar ég fékk þetta mein þá hefði ég enga meðferð fengið. Maðurinn hennar dó fyrir tveimur árum síðan, 78 ára gamall. Hann fékk lungnakrabbamein. Hann fékk enga meðferð af því hann var of fullorðinn. Þannig er nú þetta hamingjuríki Danmörk. Við höfum ekki sömu forgangsröðun og ég tel það vera gott.