Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 19:14:00 (120)

1998-10-05 19:14:00# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[19:14]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljóst mál að hæstv. ráðherra ætlar að búa hér til leiðindi. Ég ætla bara að rifja það upp fyrir hæstv. ráðherra, af því að hún veit betur, að vorið 1994 samþykkti þáv. ríkisstjórn að heimila þáv. heilbrrh. að undirrita samning um byggingu nýs barnaspítala. Samkomulag náðist við forsvarsmenn Ríkisspítalanna, sem höfðu yfir sjóði að ráða, við Hringskonur, sem höfðu líka yfir sjóði að ráða og það sem meira var, þáv. borgarstjórann í Reykjavík sem gaf vilyrði um 100 millj. kr. Þá var áætlunin upp á 600 milljónir samtals. Fyrir lá áætlun, samþykkt í ríkisstjórn, til þriggja ára um að ljúka því verki. Því væri lokið í dag. Svo einfalt er það. Svo klárt og einfalt er það. Ég minnist þess, virðulegi forseti, að hæstv. heilbrrh. hafi komið í þennan ræðustól oftar en einu sinni og oftar en tvisvar með nokkra tugi milljóna og sagt að hér væri dregið upp plaggið, hér ætti að hefja byggingu barnaspítala. Þá dugðu til einhverjar tíu eða tuttugu milljónir.

[19:15]

Virðulegi forseti. Af því að menn eru komnir í þetta farið þá vek ég athygli á því að hæstv. ráðherra leggur hér til 120 millj. kr. á næsta ári. Með sama áframhaldi tekur það tíu ár að byggja þennan spítala. (Gripið fram í: Langt fram á næstu öld.) Langt fram á næstu öld. Ég mundi ekki kasta steinum úr glerhúsi í sporum hæstv. ráðherra.

Við skulum hins vegar ekki karpa um þetta á þessum nótum. Við erum bæði áhugamenn um að koma þessum spítala upp og börn í þessu landi eiga allt annað og betra skilið en að við séum í einhverjum leðjuslag um þetta.