Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 19:25:42 (124)

1998-10-05 19:25:42# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[19:25]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við bætum okkur kannski ekki mikið með þessum almennu vangaveltum. Ég get auðvitað haldið hér ræðu þar sem ég hef aðra kenningu á orsökum þessa. En getum við ekki verið sammála um það, ég og hæstv. ráðherra, að orðið sé brýnt að við fáum af þessu heillegri mynd og rannsökum það ofan í kjölinn? Nú höfum við grófa skiptingu á hvaða lán hér er um að ræða. En ef það er svo að kannski, við skulum segja, þriðjungur, fjórðungur eða fimmtungur af þessu sé vegna þess að menn eru að reka sín heimili á lánum þá er auðvitað eitthvað að í miðju góðærinu. Ég ætla ekkert að halda því fram. En við komumst ekkert áleiðis þegar stjórnarandstaðan segir: ,,Það er augljóst mál að heimilin í landinu eru að safna skuldum af því að þau hafa það svo slakt.`` Ríkisstjórnin segir aftur á móti: ,,Það er augljóst mál að þessi skuldaaukning er vegna þess að fólk kann ekki með peninga að fara í góðærinu.``

Getum við ekki verið sammála um að við þyrftum að nálgast veruleikann einhvern veginn? Ég kann ekki nægilega vel á það hvernig það er hægt. Ýmis ráð eru tæk og ýmsar nefndirnar hafa verið skipaðar, ekki satt?