Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 14:19:57 (136)

1998-10-06 14:19:57# 123. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[14:19]

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að þakka þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram. Átta þingmenn hafa kvatt sér hljóðs og þar með hefur þingheimur staðfest að allir hafa áhuga á málinu og vilja að því verði sinnt af alvöru. Ég tel að mjög margt mikilvægt hafi komið fram í máli þeirra sem hér hafa kvatt sér hljóðs. Fjölmargar gagnlegar ábendingar.

Ég tel það skipta miklu máli að þingnefndin setji sig inn í allar aðstæður málsins eins og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir nefndi. Mikilvægt er að menn velti því fyrir sér hvar best sé að vinna þetta mál eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi. Ég stakk upp á menntmn. vegna þess að samskiptamiðstöðin er þar, í menntmrn. Það var ekki alveg rakið að hún ætti að vera þar á sínum tíma. Það kom til tals að hún yrði í félmrn. en niðurstaðan varð síðan sú að hún var í menntmrn., sérstaklega vegna rannsóknar- og kennsluþáttar málsins. Ég tel að það hafi verið góð ákvörðun á sínum tíma og þess vegna er ég nokkuð íhaldssamur eða tregur til að fallast á að þetta mál fari annað en til menntmn. Ég er þó alveg tilbúinn til að skoða hvað sem er í þeim efnum ef samstaða myndast um annað.

Auðvitað mætti hugsa sér að forsrn. fjalli um málið með hliðsjón af starfsemi þeirrar nefndar sem hér hefur nokkuð borið á góma. Ég verð þó að segja að ég tel að hún sé að fjalla um allt annað mál og ég vil helst ekki tala um þetta í sömu andránni. Mér fyndist betra ef við gætum skilið þarna á milli. Þess vegna finnst mér það ágæt hugmynd sem fram kom hjá ágætum formanni menntmn., sem jafnframt leiðir nefnd þá er fjallar um flutning verkefna milli ráðuneyta, að málið verði í raun og veru afgreitt, mér liggur við að segja, út af borði þeirrar nefndar sem hún stýrir, annaðhvort fullbúið eða í annan vinnufarveg. Það má hugsa sér að setja það þá inn í annan vinnufarveg hvort sem það yrði hjá forsrn. eða menntmrn.

Ég vil hins vegar láta það koma fram að ég tel enga ástæðu til að bíða mjög lengi eftir að klára þetta mál að því er þessa stofnun varðar. Þetta er nú einu sinni löggjafinn sem hér situr. Hann er ekki í Stjórnarráðinu. Auðvitað er það alveg augljóst að ef það dregst mjög lengi fram eftir vetri að fá botn í þetta mál, hvort sem það er á vegum hinnar sérstöku nefndar í forsrn. eða í menntmn., þá er mjög einföld leið til fyrir Alþingi til að taka af skarið. Hún er sú að hér á Alþingi verði samþykkt lög um það að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra, lög sem verða undirbúin í þessari stofnun, flutt af þingmönnum, m.a. öllum þeim ágætu þingmönnum sem hér hafa kvatt sér hljóðs og bersýnilega hafa áhuga á því að leiða málið til lykta. Ég gef mér það að auk þeirra séu hér í salnum mjög margir sem styðji það mál sem hér er verið að tala um þó að þeir hafi ekki kvatt sér hljóðs.

Ég vil láta það koma hér fram, herra forseti, að ég er albúinn til þess að berja saman á tölvuna hjá mér sem er ágætis tæki, frv. til laga um að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra. Ég hef satt að segja velt talsvert fyrir mér formi þess texta og tel að það sé ekki mikið verk í sjálfu sér. Að lokum vil ég taka fram að ég mun láta verða af því ef ekkert gerist í málinu hér á næstu vikum og mánuðum.

Í framhaldi af þessu held ég mig við það í bili, nema mjög hávær mótmæli verði við því, að málinu verði vísað til menntmn. Lengi má manninn reyna og lengi má menntmn. reyna. Það vill svo til að menntmn. var í morgun svo vinsamleg að samþykkja sérstaklega áheyrnaraðild mína að þessari nefnd. Það hefur kannski verið gert í tilefni dagsins og málsins. Ég mun láta reyna á það hvort ég get nuddað eitthvað í málinu í nefndinni ef þingið fellst á að hún fái að reyna við málið einu sinni enn. En það eru örugglega alveg síðustu forvöð. Það er rétt að menn treysti menntmn. fyrir þessu máli, það liggur í hlutarins eðli eftir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég þakka að öðru leyti fyrir umræðuna, herra forseti. Ég held að hún hafi verið gagnleg.