Réttur til launa í veikindaforföllum

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 15:19:58 (144)

1998-10-06 15:19:58# 123. lþ. 4.5 fundur 15. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[15:19]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ítrekaðan stuðning hv. þm. við þetta mál. Hann hefur áður tekið til máls á fyrri þingum og lagt þessu máli lið. Ég man hins vegar ekki eftir þessari velviljuðu ábendingu varðandi samgn. Það kann að vera að hún hafi komið áður fram en auðvitað eiga þingtæknileg atriði ekki að koma í veg fyrir að svona mál fái eðlilega málsmeðferð. Ástæðan fyrir því að þetta mál er flutt upphaflega í þessum búningi og hefur farið til félmn. er sú að hér er að nokkru leyti um hliðstæð efni að ræða í báðum tilvikum. Það eru þessi óvissuatriði sem deilt er um varðandi löggjöfina og réttindi launamanna og sjómanna í þessum efnum. Af minni hálfu er ekkert því til fyrirstöðu að málið fari til umsagnar t.d. í samgn. og mér fyndist það kannski miðað við að málið hefur verið á borði félmn. á allnokkrum þingum og mikið liggur fyrir af efni sem borist hefur nefndinni að rétt væri að hafa þann hátt á að félmn. sendi þann hluta málsins, a.m.k. sem varðar sjómannalögin, eða málið í heild þess vegna til umsagnar í samgn. Ekki hefði ég á móti því að báðar þessar þingnefndir settust saman til að fara yfir málið.

Eins og ég gat um í framsögu liggur mikið fyrir af umsögnum um málið. Ég er með safn af umsögnum frá undanförnum þingum um málið þannig að sjónarmið þeirra aðila sem leitað hefur verið til liggja fyrir. Þannig ætti að vera hægt að taka efnislega á málinu fyrir þingnefndina og gera upp við sig hvaða háttur er vænlegur til að afgreiða málið í hendur þingsins á nýjan leik. Mér finnst ekki viðunandi að málefni sem þetta, sem snertir hagsmuni fólks, sé látið ganga fram hjá löggjafanum, að löggjafinn ýti því frá sér aftur og aftur að taka á málinu, skýra þá löggjöf sem fyrir er þannig að m.a. forsendur fyrir ágreiningsefnum sem gengið hafa til dómstóla séu skýrar að því er varðar laganna hljóðan. Það tel ég vera mjög mikilvægt og að sem flestum sé ljós réttarstaða sín og hún þannig mörkuð í lögum að mönnum megi vera hún ljós. Að mínu mati er í mörgum tilvikum ekki um stóra hópa að ræða þótt annað megi lesa út úr umsögnum um málið, m.a. umsögnum Vinnuveitendasambands Íslands, þá skiptir þetta viðkomandi einstaklinga sem í hlut eiga afar miklu máli að þarna sé réttarstaðan sem skýrust.