Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 15:58:46 (148)

1998-10-06 15:58:46# 123. lþ. 4.8 fundur 21. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[15:58]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Eins og hv. framsögumaður Einar Oddur Kristjánsson gat um hefur þetta mál verið rætt mjög ítarlega. Ég mun samt sem áður freista þess að ræða það enn frekar til þess að varpa ljósi á það hvað er raunverulega að gerast.

Eins og hv. þm. gat um, þá er gagnkvæmt tryggingafélag rekið þannig öndvert við venjuleg tryggingafélög að hinn tryggði ber ábyrgð á tjónum félagsins. Hann greiðir eitthvert iðgjald en ef tjónið verður meira en iðgjaldið nemur ber honum að greiða iðgjald til viðbótar. Ef tjónið verður minna, þá ber að endurgreiða hluta iðgjaldsins. Þetta er munurinn á gagnkvæmu tryggingafélagi og venjulegu tryggingafélagi sem tekur við iðgjöldum og ber sjálft áhættuna af rekstrinum. Hvort tjón verður meira eða minna. Þess vegna liggur í eðli slíks félags að ef þar verður eignamyndun vegna þess að iðgjaldið er of hátt þá á hinn tryggði það. Það átti að endurgreiða honum iðgjaldið. Það var bara ekki gert.

Nú er það svo að í lögunum stendur í dag um þetta félag:

,,Við andlát sameiganda og þegar lögaðili, sem er sameigandi, er ekki lengur skráður sem lögaðili falla eignarréttindi sameiganda skv. 5. gr. niður og eignarréttindin falla þá til sameignarsjóðs félagsins.``

Þetta segir í stuttu máli að sameignarsjóð félagsins erfir fólkið. Það er eins og þessar eignir fólksins séu annars eðlis en aðrar eignir. Hvergi er talað um það í stjórnarskránni að það sé til fyrsta og annars flokks eignir heldur er bara talað um eignir. Það er grundvallaratriði að eignir erfist til lögerfingja. Hér er brot af þeirri grundvallarreglu. Þess vegna leggjum við flutningsmenn til að þetta félag verði leyst upp og það verði hætt að láta sameignarsjóðinn, sem er í eigu sveitarfélaganna, erfa borgarana sína.

Herra forseti. Ég hef margoft bent á að það er munur á ríki og þjóð og það er munur á sveitarfélagi og borgurum þess. Þetta dæmi er akkúrat dæmi um það að sveitarfélögin eru að sölsa undir sig með tímanum eignir borgara sinna. Þau erfa borgara sína og það hlýtur að teljast mjög óeðlilegt. Hér er ekki um neina smáaura að ræða eins og haldið hefur verið fram. Ef þeim eignum sem hér er um að ræða er skipt niður á fjölda þeirra sem voru tryggðir, þá er það 50.000 kr. á mann og fólk munar um það að meðaltali þannig að þetta eru engir smáaurar.

Herra forseti. Því hefur verið haldið fram að þar sem þetta frv. komi svona seint fram og hafi nú verið rætt svona lengi sé þetta nánast mál sem ekki sé hægt að laga og það sé í rauninni bara orðið úrelt þannig að eignarrétturinn fyrnist. Ég hlýt að mótmæla því mjög eindregið. Eignarrétturinn fyrnist ekki. Það er alveg sama þó menn komi eftir 50 ár sem erfingjar og geri kröfur til eignar. Þeir fá eign sína, eignarrétturinn fyrnist ekki þannig að þetta mál er ekki of seint fram komið.

Eins og ég gat um áðan hefur þetta mál verið margrætt og er kominn tími til að það fái umfjöllun og afgreiðslu hjá hinu háa Alþingi og ég skora á þingmenn að stuðla að framgangi þess.