Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 16:07:34 (150)

1998-10-06 16:07:34# 123. lþ. 4.8 fundur 21. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[16:07]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurning okkar flutningsmanna og þá sérstaklega mín sú hvort lagasetningin frá 1994 hafi verið í samræmi við stjórnarskrána. Ef það kemur í ljós löngu seinna að lagasetning hafi hugsanlega ekki verið í samræmi við stjórnarskrána þá hljóta menn að verða að breyta því af því að stjórnarskráin gildir ofar lögum Alþingis.

Síðan varðandi gagnkvæmt tryggingafélag og að því hafi verið breytt 1994. Þær eignir sem voru í gagnkvæmu tryggingafélagi þegar því var breytt eru eignir hinna tryggðu og engra annarra. Þær geta ekki verið eignir annarra vegna þess að það átti alltaf að endurgreiða þegar tjónin urðu minni en iðgjaldið. Iðgjaldið var of hátt áratugum saman til þessa félags og sú eign sem myndaðist var ekkert annað en of há iðgjöld sem átti að endurgreiða á hverju ári. En það var ekki gert þannig að þessi eign var eign hinna tryggðu og það átti að endurgreiða hana. Þeir áttu félagið þegar því var breytt og það er ekki hægt að taka þessa eign af þeim. Það kom fram í álitsgerðum ýmissa lögmanna.