Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 16:10:43 (152)

1998-10-06 16:10:43# 123. lþ. 4.8 fundur 21. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., Flm. EOK
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[16:10]

Flm. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Örfá orð til áréttingar því sem áður hefur komið fram. Í lögum nr. 68/1994 er nákvæmlega tilgreint hverjir eru eigendur Brunabótafélags Íslands, nákvæmlega. Það eru tryggingatakarnir. Í þeim lögum segir líka nákvæmlega fyrir um það hvernig sameignarsjóður félagsins muni erfa eignarréttinn og um þetta hefur Tryggingaeftirlitið nákvæmt bókhald og færir það á hverju ári. Ég veit að Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands heldur þetta bókhald líka. Þeir skrá það nákvæmlega niður hversu margir eigendanna eru ekki lengur í tölu lifenda og hvernig það færist yfir á þeirra hendur. Þetta verður að vera alveg skýrt, herra forseti. Það eru engar deilur um það hverjir eru eigendurnir enda er verið að færa þessar eignir manna yfir á sameignarfélagið í hvert skipti sem einhver eigandi andast.(Gripið fram í: Í sameignarsjóðinn.) Í sameignarsjóðinn.

Þegar Alþingi setti þessi lög 1994 lágu fyrir þær greinargerðir sem hér hefur verið vitnað til. Ég sé ekki, herra forseti, að það þjóni neinum tilgangi að velta því fyrir sér hvort þar hafi verið um brot á stjórnarskrá að ræða vegna þess að það lá fyrir þegar það var gert að menn töldu líklegt að svo væri ekki og það hefur ekki verið látið á það reyna til þessa. Það sem hefur hins vegar gerst er að þetta félag sem var í sameign með stórar tryggingar nákvæmlega eins og það hafði verið í reynd í framkvæmd allt frá því að það var stofnað, ákvað að hætta. Það seldi sinn hlut og er núna bara svona ,,holding company``. Það er rétt að taka það fram líka að enginn efast um að forráðamenn þessa sameignarsjóðs séu hið ágætasta fólk. Það er enginn að efast um það. Það skiptir heldur ekki máli hvaða sjóður þetta er eða hvaða menn þetta eru. Þetta er spurningin um prinsippafstöðu. Þetta er ekki lengur það tryggingafélag sem það var heldur er þetta bara sjóður og því ber, því er það samviskuspurning --- við skulum orða það þannig, herra forseti --- viðkomandi þingmanna hvort þeir vilji virða þann eignarrétt sem sannarlega er svo skýrt skilgreindur í lögum nr. 68/1994. Það er sannarlega þannig alveg burt séð frá því hvaða einstaklingar þetta eru eða lögaðilar, hversu stórar upphæðir þetta eru eða litlar. Menn verða að vera viðbúnir því að taka slíka afstöðu og hafa hana.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, herra forseti, að ég tel það mjög mikilsvert að afstaða þingmanna komi fram. Lögin nr. 68/1994 eru í gildi. Það hefur enginn efast um það. Auðvitað hefur Alþingi á hvaða tíma sem er rétt til þess að setja lög. Það getur sett lög í ár sem eru öðruvísi en lög um sama málaflokk voru í fyrra, í hittiðfyrra eða árið þar áður. Það er hið eðlilega að menn taki afstöðu til þessa og það er mjög brýnt. Því treysti ég því, herra forseti, að þetta mál fái fljóta og góða afgreiðslu á þessu þingi þannig að ekki fari á milli mála hver vilji þingheims er.