Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 16:14:49 (153)

1998-10-06 16:14:49# 123. lþ. 4.8 fundur 21. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[16:14]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski að æra óstöðugan að halda þessari umræðu mikið áfram. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lagði á það ríka áherslu í ræðu sinni að einn megintilgangur Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands væri eignaraðild að vátryggingafélögum. Ég verð að segja í fyrsta lagi að ef ég man það rétt þá var sá kaupsamningur sem gerður var milli eignarhaldsfélagsins og Landsbanka Íslands á sínum tíma til nokkurra ára þannig að ég geri fastlega ráð fyrir því að Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands sé enn þá a.m.k. eigandi samkvæmt kaupsamningi, þ.e. það er ekki að fullu greiddur sá hlutur sem keyptur var. Hv. þm. leiðréttir mig ef ég fer þar með rangt mál.

Í öðru lagi ákvað Alþingi 1994 að félagið skyldi auk þessa hafa það að megintilgangi að stunda lánastarfsemi, m.a. til verklegra framkvæmda o.s.frv. og í þriðja lagi að stuðla að þróun vátrygginga með fræðslu og menntun á því sviði og taka þátt í því að veita styrki til slíkrar starfsemi. Eftir því sem ég kemst næst þá er félagið enn þá að stunda þessa starfsemi.

Ég vil enn frekar vekja á því athygli að í þessum sömu lögum er kveðið á um það hvernig félaginu skuli slitið eins og fram kemur í V. kafla laganna. Því átta ég mig ekki alveg á því, virðulegi forseti, eftir að Alþingi hefur tekið um það ákvörðun hvernig þessum málum skuli skipað, að á Alþingi sé vilji núna aftur, einungis fjórum árum síðar og þá væntanlega fyrir tveimur árum einnig því að þetta er í þriðja skipti sem frv. er lagt fram, slíta félaginu þrátt fyrir að í lögum sé kveðið skýrt á um hvernig því skuli slitið. Og ég mótmæli því, virðulegi forseti, að hér sé á ferðinni einhver samviskuspurning. Alþingi hefur tekið prinsippafstöðu til þessa máls, gerði það 1994. En núna, virðulegi forseti, er verið að reyna að fá málið tekið upp á ný og ég verð að segja alveg eins og er að ég er ekki alveg sáttur við á hvaða forsendum það er gert.