Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 13:50:55 (161)

1998-10-07 13:50:55# 123. lþ. 5.8 fundur 42. mál: #A sveitarstjórnarlög# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[13:50]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég tek undir þau orð sem hafa verið sögð og sérstaklega að stundum sé rétt að fara sér hægt og hlusta á rödd þjóðarinnar. Reyndar var það svo að þegar þessi umræða hófst var mjög mikill kliður í salnum. En hæstv. félmrh., sem sté í pontu og hóf mál sitt, kærði sig kollóttan um þetta. Hann var hógvær í tali og óvenjulega lágvær og ég velti því fyrir mér hvernig á því stæði að þessu færi svona fram. Ég leit á dagskrána og sá að sveitarstjórnarlögin voru til umræðu. Og þá er nú eins gott fyrir ríkisstjórnina að tala ekki of hátt.

Þegar þetta frv. var til umræðu í í vor skall mikil mótmælaalda yfir þjóðfélagið allt. Hvaðanæva að bárust mótmæli og óskir til ríkisstjórnarinnar og kröfur um að frágangi þessa máls yrði frestað og þjóðinni gæfist tóm til að ræða frv. í sumar. Nú hefur komið í ljós að ofan á alla gagnrýnina sitjum við uppi með afleiðingar handarbakavinnu ríkisstjórnarinnar.

En ástæða þess að ég kveð mér hljóðs er ekki að ræða þessi efnisatriði heldur önnur sem tengjast þessu frv. Í tengslum við umræðuna og undirbúning þessa frv. var því heitið af hálfu ríkisstjórnarinnar að fram kæmu í tengslum við lagabreytingarnar, sem fólust í þessu frv., sveitarstjórnarlögum, annað frv., breytingar á skipulagslögum. Þegar ríkisstjórnin hljóp frá þessu loforði sínu, sem lá í loftinu þó að það hefði ekki verið formlega gefið í þingsal, var ljóst að ekki mundi nást víðtækt samkomulag um sveitarstjórnarlögin sem ég tel að hefði mátt ná í vor. Það er skoðun mín.

Nú er spurning mín þessi til hæstv. félmrh.: Hvað líður þeirri vinnu sem heitið var varðandi skipulagslögin og því frv. sem ríkisstjórnin lofaði á sínum tíma að lagt yrði fram?