Jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 14:20:27 (168)

1998-10-07 14:20:27# 123. lþ. 5.9 fundur 23. mál: #A jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn# þál., SF
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[14:20]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Mér finnst um mjög góða og merka tillögu að ræða og vil þakka flutningsmönnum hennar. Það var nokkuð skemmtilegt að hlusta á þær umræður sem áttu sér stað áðan þegar einn ungur hv. karlþingmaður spurði þessara spurninga: Hvað er kynjuð hugsun? Hvað er samþætting? Þetta fannst mér lýsa þörfinni á því að menn fræðist betur. Það er alveg ljóst að menn átta sig ekki á því hvað þetta þýðir. Þó er þessi hugsun vonandi að síast inn í samfélagið hægt og rólega og þessi tillaga gengur út á það að gera þetta skipulega.

Hér var líka spurt: Er hægt að skikka æðstu ráðamenn landsins á svona námskeið? Ég held að það sé ekki hægt en ég held að þeir vilji fara á svona námskeið því þeir vilja vita hvað þetta þýðir og út á hvað þetta gengur með samþættinguna. Þeir hafa ekki græna hugmynd um það í dag að mínu mati.

Í greinargerð tillögunnar kemur fram að pólitískur vilji hljóti að vera fyrir hendi til að leiðrétta ójöfnuð milli kynjanna sem allt samfélagið líður fyrir og þennan vilja þarf að sýna í verki. Ég er ekki alveg viss um að þessi pólitíski vilji sé svo afar mikill. Hann er einhver. En ég tek mjög undir það að það þurfi að uppfræða fólk til þess að þessi vilji, hvort sem hann er mikill eða lítill, komi fram. Það er ekki hægt að krefjast ábyrgðar á þessari samþættingu nema menn viti um hvað er að ræða og skilji út á hvað þetta gengur.

Seinna í greinargerðinni kemur fram að jafnréttisvinnan hafi hingað til verið unnin af sérfræðingum án pólitískra valda. Það er undirstrikað á þennan hátt. Ég er ekki alveg sammála þessu. Það hefur mikil jafnréttisvinna átt sér stað hjá fólki sem hefur pólitísk völd. Ég vil t.d. nefna sem dæmi að í ráðuneyti hæstv. heilbrrh. Ingibjargar Pálmadóttur sem hefur mest pólitísk völd kvenna hér á landi trúlega nú um stundir, undir hennar stjórn, er búið að auka hlutfall kvenna talsvert í nefndum á vegum heilbrrn. Stjórnmálamenn með pólitísk völd hafa því líka lagt sitt í þessa vinnu. Ég vil líka minnast á það að sú er hér stendur lagði fram þáltill. á síðasta þingi um að auka bæri hlut kvenna í stjórnmálum. Hún var samþykkt. Þannig var hægt að nota pólitísk völd. Þessi tillaga var samþykkt í þinginu og nýlega tók nefnd til starfa. Í henni sitja reyndar bara konur, en það vill þannig til að allir þingflokkar og þeir sem áttu að tilnefna í nefndina tilnefndu einungis konur. Það er búið að ráða verkefnisstjóra til að sinna þessu starfi. Verið er að vinna við merki til að nota á þá fræðslu og þær auglýsingar sem við ætlum að fara út í til að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Þetta er einmitt starf sem verður örugglega mjög áberandi núna á næstunni þegar stjórnmálaflokkar fara að raða upp á sína lista. Hvort sem það verður með prófkjörum eða með öðrum hætti þá mun nefndin sjá til þess að fræðsla verði í gangi og áróður fyrir því að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Þetta hefur verið gert á Norðurlöndunum og ég vona svo sannarlega að við náum góðum árangri hér.

Ég vil líka koma hérna inn á hugtakið samþætting. Framsfl. hefur sérstaklega hugað að því í sínu starfi. Þar var samþykkt í framkvæmdastjórninni að setja á stofn nefnd sem mun koma með tillögur um hvernig sé hægt að samþætta jafnréttismálin inn í allt starf flokksins. Þessi nefnd hefur verið að vinna og ég veit að hún hefur skoðað allar ályktanir flokksins með þessari kynjuðu hugsun. Kynjuð hugsun eru reyndar svolítið leiðinleg orð. Þetta er svo líkt orðunum úrkynjuð hugsun. Ég hef þó ekkert betra orð. Það er búið að skoða ályktanir flokksins með þessari kynjuðu hugsun eða kynjuðu gleraugum og það er alveg ljóst að fyrir næsta flokksþing mun flokkurinn sérstaklega fara yfir allar ályktanir með þetta í huga þannig að ályktanirnar höfði bæði til karla og kvenna og að engin mismunun sé í texta. Þessi nefnd hjá okkur í Framsfl. mun einnig leggja til, að mér skilst, að það verði fræðsla fyrir þingmenn og ráðherra flokksins. Við sáum áðan að ekki veitir af því þar sem einn þingmaður okkar kom og spurði nákvæmlega þessarar spurningar: ,,Hvað er samþætting?`` Ég býst því við að jafnréttisfulltrúi Framsfl. muni taka okkar þingmenn á sérstakt námskeið og ráðherrana líka. Það er mjög brýnt.

Mig langaði að spyrja 1. flm. út í tengslin við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Hún var samþykkt á síðasta þingi. Nú kemur þar mjög skýrt fram og stendur t.d. í kaflanum um forsrn., með leyfi forseta:

,,Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.``

Eins og ég les þetta er þetta markviss fræðsla yfirmanna. Þetta er svona lifandi starf, ekki einungis eitt námskeið heldur markviss fræðsla þannig að mér finnst þetta vera nánast það sama og felst í þáltill. sem við erum að ræða nú.

Ég vil líka undirstrika að í kafla 3.2 í framkvæmdaáætluninni, eins og kom fram hjá hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur áðan, á félmrn. að skipuleggja námskeið fyrir yfirmenn ráðuneyta og ríkisstofnana og aðra stjórnendur þannig að þetta er mjög víð nálgun. Þetta eiga að vera námskeið um markmið og leiðir í jafnréttisstarfinu og þau á að halda á fyrri hluta ársins 1998 sem að sjálfsögðu stenst ekki þar sem hann er nú liðinn. Væntanlega verður þetta þá gert á næsta ári, hugsanlega fyrir áramót þó ég sjái það nú ekki fyrir mér að það náist. En ég vil taka undir það sem kom fram hjá flutningsmanni áðan að ekki er nóg að halda eitt námskeið, láta okkar æðstu ráðamenn mæta þar með sparibrosið, hlusta á og meðtaka boðskapinn og svo er það bara búið, því pakkað ofan í skúffu og nánast sagt: ,,Bless og takk fyrir kaffið.`` Þetta þarf að vera lifandi starf og síendurtekin fræðsla þangað til við sjáum árangur. Ég tek því undir að ekkert þýðir að sjá aðeins fram undan eitt námskeið. Þetta verður að vera mjög markviss og skipulögð fræðsla af því að á brattann er að sækja og heilmikið starf eftir og því er miður er hinn pólitíski vilji kannski minni en við höldum.