Jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 14:28:50 (169)

1998-10-07 14:28:50# 123. lþ. 5.9 fundur 23. mál: #A jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[14:28]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta er mikilvæg tillaga eins og kom fram hjá 1. flm. og við væntum mikils af því að Alþingi samþykki hana og að hún komist til framkvæmda. Við erum mjög oft að ræða jafnréttismál. Við ræðum þau aftur og aftur og alltaf í jafnmikilli bjartsýni á eitthvað nýtt sem verði til þess að átak verði gert eða hugarfarsbreyting verði þannig að komumst svolítið fram á veg. En það þokast og það þokast hægt.

Á liðnum árum höfum við tekið þátt í kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna, gerst aðilar að Peking-áætluninni og ráðherrar standa að samstarfsáætlun Norðurlandanna í jafnréttismálum og á öllum þessum stöðum er verið að fjalla um sömu hlutina, þ.e. fræðslu og aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna af því það er þjóðhagslega gott og mikilvægt. Ég held að framkvæmdaáætlunin sem við ræddum sl. vetur hafi verið sú fimmta eða sjötta í röðinni. Þrátt fyrir þetta erum við ekki komin lengra en raun ber vitni og þrátt fyrir þetta erum við knúin til að setja fram till. til þál. eins og þá sem hér er rædd í dag.

[14:30]

Í vetur munu væntanlega koma inn á Alþingi ný jafnréttislög og ég harma að ráðherra skuli ekki hafa litið á það sem sjálfsagðan hlut að þar yrði þverpólitískur undirbúningur, að það væri jafnsjálfsagt að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna kæmu að undirbúningi breyttra jafnréttislaga og stjórnarflokkanna. Jafnréttislög eru í eðli sínu þverpólitískt fyrirbæri og afskaplega óeðlilegt að nokkur ráðherra í dag láti sér detta í hug að undirbúa ný lög eingöngu með fulltrúum stjórnarflokka og þeirra stofnana sem hann velur. Þetta vil ég segja í upphafi umræðu um þessa ágætu tillögu.

Flm. Guðný Guðbjörnsdóttir gerði mjög góða grein fyrir tillögunni sem er um að mótuð verði stefna um aðgerðir sem tryggi að æðstu ráðamenn þjóðarinnar hafi þekkingu á ólíkri stöðu kynjanna í þjóðfélaginu almennt og á sínu sviði sérstaklega og þess vegna verði valið námsefni og haldið námskeið og e.t.v. frekari aðgerðir sem kunni að koma fram.

Fyrir utan það sem 1. flm. nefndi í framsögu sinni langar mig að vekja athygli þingheims á nál. félmn. um framkvæmdaáætlunina sl. vetur vegna þess að í því nál. ákvað félmn. að kveða örlítið á um hvaða tónn hefði verið sleginn af umsagnaraðilum. Það er mjög mikilvægt að Alþingi geri sér grein fyrir því að það eru mjög margir aðilar núna sem eru að hvetja til ólíkra aðgerða til þess að efla jafnrétti og ég ætla að grípa niður í þetta nál.

Seltjarnarnesbær taldi að kveða þyrfti nánar á um skyldur fjölmiðla í jafnréttismálum. Nauðsynlegt sé að efla íþróttauppeldi stúlkna og auka fræðslu til æðstu ráðamanna um jafnréttismál. Egilsstaðabær vildi að tekið yrði fast á tilnefningum í ráð og nefndir og öllum væri skylt að tilnefna tvo einstaklinga, karl og konu, þannig að hægt yrði að velja á milli og starfsmannahald á stofnunum fyrir aldraða yrði kannað út frá skiptingu milli kynja og launa, að haldin væru jafnréttisnámskeið fyrir kennara og skólastjórnendur.

Bandalag ríkis og bæja vildi að í hvert sinn sem ný framkvæmdaáætlun væri lögð fram fylgdi með úttekt á hinni fyrri. Þetta er svo sjálfsagt að við eigum auðvitað að stuðla að því að svo verði. Kennarasambandið vill stuðla að því að fjölga körlum í kennarastétt, að flétta jafnréttissjónarmið og jafnréttisfræðslu inn í kennaramenntuna og endurskoða námsefnið út frá jafnréttissjónarmiðum. Unifem á Íslandi vill taka rækilega á íþróttauppeldi stúlkna, hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi í starfi utanrrn. og Þróunarsamvinnustofnunarinnar, halda jafnréttisnámskeið fyrir fólk sem fer til starfa í þróunarlöndum eða vinnur að slíkum verkefnum. Karlanefnd Jafnréttisráðs taldi að Hagstofan ætti að gera könnun á því hvernig konur og karlar verðu tíma sínum en menntmrn. ætti að kanna framkvæmd og reynslu annarra þjóða af sérstökum umhyggjunámskeiðum í skólum. Síðan ætti að halda sjónvarpsfund um framkvæmdaáætlun á miðju tímabiinu þar sem ráðamenn sætu fyrir svörum og mat yrði lagt á árangur. Að ríkisskattstjóri eða Hagstofan ætti að gera skýrslu um hlutföll milli fjölskyldna, heildartekjur þar sem tekjur kvenna eða karla eru hærri. Halda ætti sérstök námskeið fyrir dómara og lögmenn um orsakir, eðli og birtingarmyndir heimilisofbeldis og stofna ætti stöðu prófessors í kynjafræðum.

Jafnréttisráð vill endurskoða og styrkja 12. gr. jafnréttislaganna, gera athugun á starfsmannahaldi ráðuneyta og ríkisstofnana, kanna ráðningar, launamun, semja leiðbeinandi reglur um ráðningu starfsmanna ríkisstofnana og um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, semja starfslýsingar og skipuleggja jafnréttisfræðslu fyrir yfirmenn stofnana. Skólastjórafélag Íslands telur að það þurfi að bæta menntun kennaraefna hvað varðar jafnréttismál. Jafnréttisfulltrúi Akureyrar telur vanta tímasetningar í aðgerðaráætlunina en líka ákvæði um skipan í ráð og nefndir hjá ráðuneytum.

Bandalag háskólamanna telur að endurmeta þurfi hefðbundin kvennastörf hjá ríkinu, endurskoða launakerfisbreytingar, efla kerfisbundnar kjararannsóknir og fræðslu til ráðamanna um jafnréttismál, hafa jafnréttissjónarmið í huga við allar túlkanir á lögum og reglum sem snerta réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, lögleiða tilskipanir ESB sem bæta stöðu vinnandi fólks og fjölskyldna.

Herra forseti. Ég hef bara gripið niður í þetta nefndarálit en það er athyglisvert að sjá hversu margir ólíkir aðilar eru að biðja um jafnréttisfræðslu í utanríkismálum, jafnréttisfræðslu til þeirra sem eru í þróunarmálum, jafnréttisfræðslu til yfirmanna stofnana, jafnréttisfræðslu til æðstu yfirmanna. Auðvitað er það ekki skrýtið og það er engin tilviljun að við erum að flytja tillögu um að æðstu ráðamenn þjóðarinnar fái þá fræðslu sem þarf til að það komi skilningur á til hvaða aðgerða á að grípa til að gera breytingar í þjóðfélaginu. Þess vegna tölum við um æðstu ráðamenn þjóðarinnar því eftir höfðinu dansa limirnir. Við getum hamast og hamast neðar í þjóðfélagsstiganum og í undirstofnunum en engar verulegar breytingar verða nema það verði tekið á í toppnum hjá þeim sem eru æðstir, þeim sem hafa hin mestu völd og geta notað þessi völd til að gera breytingar á þjóðfélaginu þannig að konur og karlar verði jafnsett.