Jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 14:43:02 (171)

1998-10-07 14:43:02# 123. lþ. 5.9 fundur 23. mál: #A jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[14:43]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég tek undir þau efni þess máls sem hér er flutt og þau markmið sem lýst er yfir í greinargerð að eigi að nást fram. Ég held að það sé alveg réttmætt að gera átak til þess að koma fræðslu um jafnréttismál á framfæri við háa ef það á að skipta mönnum eftir því, háa og lága eða æðstu og lægri eins og verið er að flokka samkvæmt þessu. Ég held að jafnhliða því sem mál af þessum toga yrði samþykkt í þinginu skipti mjög miklu að þetta þing nái að afgreiða nýja löggjöf um jafnréttismál sem er í endurskoðun á vegum ríkisstjórnarinnar og birtist vonandi í frumvarpsformi fljótlega en í þeirri löggjöf er að sjálfsögðu kveðið á með almennum hætti um fræðslu í jafnréttismálum en það er með það eins og víða í löggjöf að þar sem fræðsla er nefnd þegar kemur til ráðstöfunar á fjármagni vill oft verða takmarkað sem varið er til þess þáttar. Hann er oft látinn sitja á hakanum og það er mjög miður því að auðvitað er þekking og skilningur undirstaða undir aðgerðir á svo mörgum sviðum.

Ég hlýddi á það í gegnum sjónvarpið við fyrri hluta þessarar umræðu um fyrirspurnir um þá stefnu sem felst í samþættingu eða ,,mainstream-hugsun`` sem kölluð er svo á ensku máli og gengur ekki aðeins sem þráður í gegnum umræðu um jafnréttismál heldur á mörgum öðrum sviðum. Umhverfismálin eru einnig þáttur í því. Það eru alveg réttmæt sjónarmið en auðvitað leysa slík orð eða stefnumörkun ekki allan vanda og það þarf að mínu mati jafnhliða því sem reynt er að koma meginstefnu fram sem víðast, þá þarf að gæta þess að stýring eða vöktun í viðkomandi málaflokki sé á tilteknum stað eða stöðum í stjórnkerfinu til þess að fylgja eftir.

[14:45]

Ég vildi aðeins nefna það hér varðandi þetta mál að ég hefði kannski hagað orðalagi öðruvísi í sjálfum tillögutextanum. Það er ekkert stórmál og viðkomandi þingnefnd tekur það væntanlega til athugunar. Ég efast t.d. um að hægt verði, þrátt fyrir góðan vilja og mikla fræðslu, að tryggja, eins og hér er sagt, að æðstu ráðamenn þjóðarinnar hafi þekkingu á ólíkri stöðu kynjanna. Ég átta mig ekki á því hvernig það yrði tryggt og bendi góðfúslega á að kannski væri ráð að velja önnur orð í sambandi við það. Ég skil hins vegar hvert verið er að fara.

Sagt er að þeim verði gert að sækja námskeið o.s.frv. Það er líka álitaefni hvernig svona eigi að orða. Út af fyrir sig er ekki hægt að skylda menn ef vilji er ekki til staðar. Ég efast ekki um að þeir sem leitað er eftir að fræðist á þessu sviði notfæri sér það. Það er hins vegar spurning hvort hægt er að setja það fram með þeim hætti sem hér er, með þessum orðum.

Síðan á að tryggja að þekkingunni verði haldið við með eftirliti og aðhaldi. Það er auðvitað spurning um málsmeðferð og á kannski að sumu leyti betur heima í grg. en í samþykkt. Ég skil þó mætavel að þörf sé á að fylgja þessum málum stöðugt eftir. Ég ítreka um leið og ég lýk máli mínu, virðulegur forseti, að ég vona að þetta góða mál fái jákvæða afgreiðslu í þinginu fyrr en seinna.