Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 15:23:00 (177)

1998-10-07 15:23:00# 123. lþ. 5.10 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., TIO
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[15:23]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Sú till. til þál. sem hér er til umræðu byggir á því að bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar verði undirrituð nú þegar fyrir Íslands hönd. Síðan kemur greinargerð með þessu máli þar sem rök fyrir þessari þáltill. eru tilgreind. Meðal þess sem þar kemur fram er eftirfarandi og nú vitna ég orðrétt í greinargerðina, með leyfi hæstv. forseta:

,,Það er þó ljóst að Íslendingar hafa þegar fengið viðurkennda sérstöðu sína og nú gildir að vinna út frá markmiðum ráðstefnunnar.``

Um þessa fullyrðingu má deila. Að vísu er búið að fá viðurkenningu á sérstöðu Íslands en málið snýst um það hvort sú viðurkenning er fullnægjandi eða hvort eðlilegra er að leita eftir frekari skilningi á sérstöðu Íslendinga. Það liggur ljóst fyrir að í lokaniðurstöðu Kyoto var settur í gang ákveðinn ferill til þess að skilgreina og finna út lausn á vanda lítilla hagkerfa þar sem stór verkefni hafa hlutfallslega mikil áhrif á útblásturinn. Þetta eru vandamál sem eru að sjálfsögðu mjög einkennandi fyrir Íslendinga. Þessu samningaferli á að ljúka í Buenos Aires og leiða má rök að því að þegar því ferli er lokið þá hafi hugsanlega skapast skilyrði fyrir því að skoða þetta mál, þ.e. undirritun bókunarinnar, í nýju ljósi. Samningsstaða okkar í vinnuferlinu sjálfu er að sjálfsögðu sterkari á meðan við höfum ekki undirritað samkomulagið heldur en ef við færum að undirrita bókunina fyrst og ganga síðan í samninga um þessi mál.

Það er að sjálfsögðu eitt af sérkennum íslensks hagkerfis hversu það styðst við lítinn mannfjölda og hvað hlutfallstölur geta orðið okkur óhagstæðar þegar þær eru skoðaðar. Einnig má geta þess að allar umræður um útblástur og mengun markast nokkuð af því að ekki hefur verið komið á neinni alþjóðlegri skilgreiningu á því hvaða orka teljist umhverfisvæn og hvaða orka teljist ekki umhverfisvæn. Mikil umræða hefur verið um endurnýjanlega orku. Hins vegar hefur orðið minni umræða og enn minna um skilgreiningar á alþjóðavettvangi um það sem við gætum kallað kannski hreina og endurnýjanlega orku. Sum orkuvinnsla er þannig að hún skapar ekki umhverfisvanda, þ.e. vinnslan sjálf. Önnur vinnsla er þannig að hún skapar alltaf og mun alltaf skapa umhverfisvanda þó að hægt sé að ná verulegum árangri í betri nýtingu á orkulindunum. Það er mjög mikilvægt mál út frá umhverfissjónarmiði séð að ýta undir það að þær framleiðsluaðferðir sem heiminum eru nauðsynlegar, t.d. á sviði málmbræðslu, styðjist við eins umhverfisvænar orkulindir og orkuframleiðslu og frekast er unnt. Á þessu er mikill misbrestur í dag og það gildir raunar bæði um olíuna og kol í heiminum að raforka er framleidd með olíu og kolum í heiminum í stórum stíl í orkuverum sem skila mjög miklu út í andrúmsloftið af mengandi efnum. Kol eru t.d. einn mesti uppruni orku í heiminum í dag og olía, kol og gas eru t.d. notuð til þess að framleiða um 2/3 af raforku í Evrópu í heild. Hluti af þessari orku er fenginn með mjög mengandi orkuverum.

Þegar við lítum á umhverfismálin í heild, því að þessi mál, umhverfismálin, hafa þá náttúru að þau eru vandamál heimsins --- um það deilum við ekki hér --- þá er hagstætt að standa að slíkum iðnaði með eins orkuvænum hætti og hugsast getur og nýta þá helst til þess þá orku sem kallast getur hrein og endurnýjanleg orka en það einkennir orkubúskap Íslendinga að vinnsla orkunnar er hrein og endurnýjanleg þó að alls ekki megi líta fram hjá því að við uppsetningu slíkra orkuvera skapast umhverfisvandamál sem þarf að taka á með ákveðnum hætti. En það er frekar vandamál sem þarf að taka á við undirbúning veranna með einmitt mati á umhverfisáhrifum því að vinnslan sjálf skapar ekki raunveruleg umhverfisvandamál. Umhverfismálin eru þá frekar tengd uppistöðulónum og því raski á náttúrunni sem fylgir því að setja slík ver upp og ber þá að taka á þeim vanda í sambandi við mat á umhverfisáhrifum. Mér er því efst í huga hér að ég tel að þessi ályktun sé að þessu leyti til ótímabær.

Mig langar aðeins til þess að nefna það að hv. þm. Ágúst Einarsson sem er 1. flm. þáltill. sagði réttilega að málið væri efnislega á sviði umhvn. en samt væri um að ræða bókun í milliríkjasamningi sem heyrir undir utanrmn. Hann nefndi það sem möguleika að málinu yrði vísað til umhvn. sem fjallaði þá um það en síðan gæti hún leitað álits utanrmn. Ég hefði talið eðilegra að ef menn vildu á annað borð virða þau formlegu tengsl sem þarna eru þá yrði málinu vísað sem utanríkismáli til utanrmn. En þar sem hún er ekki eins vel í stakk búin til þess að fjalla efnislega um málið og umhvn. mundi hún vísa því til umhvn. til álits. Það er ljóst að þetta mál er á vegum utanrrh. Hins vegar ef umhvrh., eins og allt bendir nú til, undirritar bókunina þá mun hann gera það með umboði utanrrh. þannig að ef við viljum virða einhver formlegheit þá held ég að eðlilegra væri að málið kæmi formlega á hendur utanrmn. en hún mundi síðan vísa því til álitsgerðar hjá umhvn. En þetta er mál sem mér finnst að þurfi ekki að sækja af neinni festu.