Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 15:53:44 (184)

1998-10-07 15:53:44# 123. lþ. 5.10 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[15:53]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er mjög eðlilegt að umræður skapist um tillöguna sem við ræðum hér. Hún varðar gífurlega stórt mál. Ég lýsti mikilli ánægju með tillöguflutninginn en jafnóvænt er að hér kemur fram hjá formanni þingflokks Alþfl. --- er það ekki rétt að það sé formaður þingflokks Alþfl. sem hér talaði? --- að hún hefði enga skoðun á því og gæti ekki lýst afstöðu sinni til byggingar magnesíumverksmiðju á Reykjanesi eða ekki. Það væri eitthvað sem ætti eftir að ræða í viðræðum milli samfylkingaraðilanna sem hv. þm. Ágúst Einarsson nefnir svo í framsögu sinni. Hv. þingflokksformaður Alþfl. hafði þó nefnt það sérstaklega að Alþfl. hefði tekið nýja stefnu í stóriðjumálum fyrir tveimur árum. Sú stefnubreyting fór reyndar afskaplega hljótt. A.m.k. var henni lítið fylgt eftir á árunum á eftir af fulltrúum flokksins.

Er það virkilega svo að hv. samfylkingarþingmenn krefjist þess að undirrita Kyoto-bókunina og ætli síðan að hafa frítt spil til að taka ákvarðanir og styðja stóriðjuframkvæmdir sem auka losun gróðurhúsalofttegunda stórfellt og tala hver með sínu nefi? Er þetta ekki skuldbindandi samþykkt um að menn ætli, hvað sem gerist í Kyoto-samningsferlinu, að hverfa frá þeirri stefnu í stóriðjumálum sem ríkisstjórnin hefur fylgt, undirbúin hefur verið og hefur notið stuðnings sumra þeirra þingmanna sem standa að baki málinu. Þeir hafa lýst stuðningi við framkvæmdir sem hafa þarna veruleg áhrif. Ég hélt að í tillöguflutningnum fælist stefnubreyting en mér sýnist það vera orðið meira en lítið óljóst.

Að þetta hafi eitthvað að gera með viðhorf mín til Alþfl. eins og hv. formaður þingflokksins nefndi, um leið og hv. þm. kinokaði sér við að taka þátt í efnislegri umræðu um málið, þ.e. að lýsa skoðun sinni skýrt og afdráttarlaust í þessu máli. Ég á bágt með að skilja slíkan málflutning, virðulegur forseti.

Ég ætla ekki að ræða frekar þessar veiku stoðir sem mér sýnast vera að baki þessum tillöguflutningi. Það á auðvitað eftir að koma betur í ljós. Að það sé eitthvað sem eftir eigi að ræða og semja um milli þeirra aðila sem eru að leggja upp í samfylkingu, eins og hv. þingflokksformaður Alþfl. nefndi hér, þá ætlar sá lopi að reynast ansi langur og teygjanlegur, þær viðræður allar. Er þetta líka óljóst og á eftir að ræða um það af viðkomandi aðilum hvort það eigi að stuðla að uppbyggingu magnesíumverksmiðju á Reykjanesi, álbræðslu austur á landi og járnblendiverksmiðju eða álbræðslu uppi í Hvalfirði? Eru þetta atriði sem útkljá á í samningaviðræðum á næstu vikum og kannski mánuðum? En þetta á væntanlega eftir að skýrast. Ég vænti þess að þessi mál skýrist að einhverju leyti þegar hv. 1. flm. tekur til máls um tillöguna.

Það er nú svo, virðulegur forseti, að framkvæmdir í orkufrekum iðnaði, sem við höfum kallað svo og hefur heldur ljótan hljóm, geta rúmast undir það sem ekki leiðir til aukningar á gróðurhúsalofttegundum. Það væri kannski ráð að doka við í sambandi við stóriðjuframkvæmdir sem valda slíkri mengun og hafa eitthvert svigrúm til þess að leggja í þær orkuframkvæmdir sem vistvænar geta talist. Íslendingar gætu þá skapað sér svigrúm í atvinnulífi sínu og framkvæmdum. Ég er hér að vísa til framleiðslu á vistvænu eldsneyti. Ég er að vísa til framleiðslu á vetni sem kalla mun á verulega notkun orku í landinu svo að miklu munar miðað við þann orkuforða sem við höfum. Ég er að tala um aðrar leiðir eins og notkun rafbíla og rafknúinna farartækja í samgöngum sem kalla munu á verulega nýtingu orkulinda okkar. Ég er ekki að loka á slíkar framkvæmdir í framtíðinni vegna þess að ég tel þetta skynsamlegt markmið enda sýni menn náttúru landsins þá hlífð sem frekast er unnt. En við eigum að hætta þeirri stefnu að binda orkuna á Íslandi í sívaxandi mæli í málmbræðslum með tilheyrandi mengun sem af því hlýst.

Baráttumál ríkisstjórnarinnar um að fá meira en Íslandi var veitt í Kyoto byggir á þeirri hugsun að við séum svo fáir og smáir, hagkerfið sé svo lítið. Þetta er étið upp af hverjum á fætur öðrum, t.d. það að einstakar framkvæmdir eins og álbræðsla valdi því að losunarprósenta gróðurhúsalofttegunda rjúki hér upp af því að við séum svo fáir. Hvað þýðir það hins vegar í utanríkisviðskiptum? Hvað þýðir það í tekjum á hvern íbúa? Væri ekki rétt að umreikna þann ágóða sem menn ætla að fá af slíkri framleiðslu í tekjum á hvern íbúa og bera það saman? Hvers konar samanburðarfræði eru þetta?

Íslendingar vilja auðgast, binda þessar endurnýjanlegu orkulindir sem fyrst til að skapa auknar þjóðartekjur sem allra fyrst. Það er stefnan. Það er hugsunin. Svo standa menn kannski frammi fyrir því að slík andstaða er orðin við virkjanaframkvæmdir í landinu og nýtingu okkar góðu endurnýjanlegu orkulinda að það verður ekkert svigrúm þegar að því kemur að framleiða vistvæna orku.

Þetta mál, virðulegur forseti, er stærra og lengra en svo að það verði rætt til hlítar í þessu efni. Þingflokkur óháðra hefur lagt fyrir þingið till. til þál. um sjálfbæra orkustefnu, það er 12. mál þingsins, þar sem finna má nánari útfærslu á þeirri hugsun sem ég hef hér reitt fram. Hún verður væntanlega til umræðu hér í þinginu á morgun.