Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 10:50:32 (189)

1998-10-08 10:50:32# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[10:50]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ljómandi gott að hugur hv. þm. er jákvæður í sambandi við málið. En mér finnst að menn þurfi að fóta sig rökrænt í sambandi við þetta mál.

Það er rétt að í Kyoto fékk Ísland betri fyrirgreiðslu, ef við eigum að kalla það því nafni, meira svigrúm til losunar en aðrar vel stæðar þjóðir. En það nægir ekki ríkisstjórninni sem hv. þm. styður. Það nægir ekki. Hann vill hafa hér opið hús, sjálfsafgreiðslu varðandi uppbyggingu á orkufrekum iðnaði sem mun sprengja í loft upp þetta mál að því er Ísland áhrærir alveg burt séð frá því hvort við fáum einhverjar heimildir innan bókunarinnar eða ekki.

Það er siðferðilega, að mínu mati, ekki verjanlegt að ganga fram í þessu máli eins og ríkisstjórnin gerir. Magnesíumverksmiðja á Reykjanesi sem þingmenn þar margir hverjir, og hv. þm. heyri ég, eru stuðningsmenn að rísi, veldur stórfelldri losun gróðurhúsalofttegunda. Það er enginn að tala um virkjanirnar í þessu sambandi þó að þar geti komið til einhver losun á jarðhitasvæðum. Það er enginn að tala um þær. Það er iðnaðurinn sem verið er að tala um. Við sáum hrikalegar tölur í sambandi við magnesíumverksmiðju og þó að þær lækki mikið þá yrði þarna um mjög alvarlega viðbót að ræða sem hvergi rúmast innan þeirrar heimildar sem við nú þegar höfum. Það sama gildir um öll þessi mörgu áform til stóriðjuuppbyggingar sem ríkisstjórnin hefur á borðinu.

Það er þetta ósamræmi sem ég var að benda á í sambandi við málflutning hv. þm. Ágústs Einarssonar og alveg sérstaklega það sem fram kom í ræðu Rannveigar Guðmundsdóttur hér. Hún er ekki reiðubúin að taka á sig neinar skuldbindingar, er hér með málamyndatillöguflutning af þessum toga en neitar að horfast í augu við það hvað fylgir í kjölfarið ef menn meina eitthvað með þessum tillöguflutningi. Hv. þm. sem ég gerði athugasemd við í gær var ekki reiðubúinn til að lýsa nokkru yfir um það. Hún sagði að þetta væri allt í skoðun hjá flokkunum þremur.