Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 10:52:54 (190)

1998-10-08 10:52:54# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[10:52]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. að þríflokkurinn virðist ekki meina neitt með þeim tillögum sem hann eru að leggja fram hér né þessari málefnaskrá. Það hefur ítrekað komið fram. Að minnsta kosti veit hægri höndin ekki hvað sú vinstri gjörir í þeim málatilbúnaði sem hefur heyrst fram að þessu.

Ég held samt, herra forseti, að við megum ekki verða kaþólskari en páfinn í því að ganga fram í að stöðva eðlilega uppbyggingu atvinnuvega í landinu þannig að við getum nýtt orkulindir og skapað þá velsæld sem við viljum hafa hér. Þess vegna verðum við náttúrlega að taka tillit til þeirra aðstæðna sem hér eru. Það er viðurkennt að við höfum gengið vel um andrúmsloftið. Það er viðurkennt. Við þurfum að sjálfsögðu að gera betur í þeim efnum en við höfum ekki margra kosta völ. Við höfum ekki sömu kosti og þjóðir Evrópu virðast ætla að nota í sambandi við Kyoto. Þær virðast ætla að færa kvóta á milli landa. Tekin er út fyrir sviga ýmis mjög mengandi starfsemi sem við höfum enga möguleika á að nýta okkur eins og í flugi og fleiru. Það er því margt sem við getum ekki nýtt okkur í sambandi við Kyoto sem aðrar þjóðir, stórþjóðir og sambönd þjóða geta nýtt sér og ætla sér að nýta.

Varðandi magnesíumverksmiðju þá hefur ítrekað komið fram að fyrstu tölur sem birtust um mengun í loftinu frá þeirri verksmiðju voru rangar. (HG: Hvað er þetta núna?) Þær eru 1/10 af því af því sem upphaflega var talað um eða í kringum 300 þús. tonn á ári. Það er samt meiningin og unnið er að því að reyna að lækka þá tölu verulega enn. Auðvitað fylgir einhver mengun slíku. En ég minni bara á það að mengunin í kringum álverið í Straumsvík og víðar hefur ekki reynst vera eins skaðleg og menn hafa haldið fram eða óttast.