Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 10:55:18 (191)

1998-10-08 10:55:18# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[10:55]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að hlýnun andrúmsloftsins vegna losunar gróðurhúsalofttegunda sé eitt af alvarlegustu vandamálum sem mannkynið allt stendur frammi fyrir. Mér þykir það miður þegar þessi umræða er dregin niður á plan einhvers skæklatogs um magnesíumverksmiðjur eða eitthvað annað slíkt. Ég held að samkomulagið í Kyoto sé eitt það merkilegasta sem okkur sem lifum í þessum heimi hefur tekist sameiginlega að ná fram varðandi umhverfisvernd. Ég tel að við gætum staðið á mörkum nýrra tíma þar sem við gætum í samvinnu við aðrar þjóðir tekið verulega á þessum málum. Ég fagna þessu samkomulagi og ég tel að Íslendingar eigi að skrifa undir það, eigi að staðfesta það.

Ég vil líka segja, herra forseti, sem mína skoðun sem hefur mörgum sinnum komið hérna fram í umræðum á þingi, að ég er þeirrar skoðunar að við eigum að nota þetta tækifæri til þess að slá á frest öllum framkvæmdum um frekari stóriðju. Við eigum að hugsa málið upp á nýtt og við verðum líka að vera okkur meðvituð um það að við höfum ekki jafnótæmandi orkulindir og menn hafa verið að telja sjálfum sér og þjóðinni trú um. Ég held að við eigum að nota þetta tækifæri og þessi kaflaskipti til þess einmitt að einhenda því fjármagni sem við höfum og því ráðrúmi sem við höfum til uppbyggingar til þess að fara í stórfellda uppbyggingu á framleiðslu á einhvers konar orkulindum sem ekki menga. Við erum sérstaklega vel í sveit sett til þess. Við höfum möguleika til þess. Við höfum tækni til þess. Við höfum e.t.v. meiri þekkingu á því en flestar aðrar þjóðir. Mér finnst að þessi umræða eigi að snúast um slíka hluti.

Mér fyndist til að mynda að það væri mynduglegt af hv. þm. Kristjáni Pálssyni sem hefur lagt fram þáltill. sem ganga í þessa átt, að nota þessa umræðu einmitt til þess að taka undir með okkur sem viljum þetta. Ég held að við höfum rík færi til þess og ég held að við megum ekki kasta frá okkur þessu tækifæri sem við stöndum, mannkynið allt, frammi fyrir með þessu samkomulagi. Og mér þykir það miður að það er eins og hv. þm. hafi ekki komið auga á það heldur sé hann fastur á sínum Suðurnesjum. En þetta er vandamál sem varðar ekki aðeins Suðurnesin heldur heiminn allan.