Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 10:57:40 (192)

1998-10-08 10:57:40# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[10:57]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talar um skæklatog um magnesíum. Auðvitað snýst þetta allt um hagsmuni og líf okkar á þessari jörð og á okkar stað. Við getum ekkert horft fram hjá því að við erum að gæta hagsmuna Íslendinga. Við erum að gæta hagsmuna okkar svæða um leið og við erum að gæta hagsmuna alls heimsins í bandalagi við aðrar þjóðir. Eins og ég sagði áðan megum ekki verða kaþólskari en páfinn í þessu og undirrita alla skapaða hluti skilyrðislaust.

Ég, eins og hv. þm., hef lagt mig heilmikið fram um það að vinna upp mál sem geta leitt til þess að draga úr mengun, bæði í lofti og í höfunum og að því held ég að við eigum að vinna. Mér finnst samt fróðlegt að heyra það koma fram hér hjá hv. þm. að hann telji að það eigi að stoppa alla stóriðju strax. Þá er náttúrlega komið svarið sem var beðið um hér í gær, þ.e. hvort jafnaðarmenn meintu það þegar þeir leggja fram tillögu að það eigi að stoppa allar hugmyndir um magnesíumverksmiðju á Suðurnesjum, álver einhvers staðar annars staðar eða hugsanlega stóriðju sem getur mengað að einhverju leyti. Þetta er svarið. Ég spyr þá hv. þm. Össur: Er hann að tala í nafni þríflokksins í heild sinni eða er það bara hans persónulega skoðun að það eigi að gera þetta? Ég er ekki með þáltill. fyrir framan mig og man ekki hvort hann er einn af flutningsmönnum. Ég geri bara fastlega ráð fyrir því. Það hlýtur því að vera samdóma álit þessara aðila, þríflokksins, að nú þegar eigi að stöðva uppbyggingu á magnesíumverksmiðju, álverum og annarri stóriðju og mengandi iðnaði og þá kannski sama hvaða nafni hann nefnist.

Ég minni á að ekki er hægt að skapa neina atvinnu öðruvísi en að einhver mengun geti orðið af henni.

(Forseti (StB): Forseti vill minna hv. alþingismenn á að ávarpa hv. þingmenn með fullu nafni.)