Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:00:13 (193)

1998-10-08 11:00:13# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:00]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tala samkvæmt sannfæringu minni. Mér ber að gera það samkvæmt stjórnarskránni. Ég hef margsinnis lýst skoðun minni í umræðum áður. Ég er þeirrar skoðunar að slá eigi öllum áformum um stóriðju á frest. Það þýðir ekki að ég sé á móti því að byggja upp stóriðju. Ég vil að það verði ráðist í stóriðju á Íslandi og hún á byggjast á framleiðslu á mengunarlausum orkugjöfum. Við getum það, við höfum þekkingu til þess og getum dregið hingað alþjóðlegt fjármagn til þess.

Hv. þm. sagði: Þetta snýst um hagsmuni Íslendinga. Það er nákvæmlega það sem þetta snýst um. Hver hefur lagt það skeleggar fyrir þetta þing en hæstv. umhvrh.? Í skýrslu hæstv. umhvrh. í fyrra dró hann fram í mjög glöggum dráttum þá framtíð sem vísindamenn hafa komist að að kynni að bíða Íslendinga. Hlýnun andrúmsloftsins kann að leiða til mjög staðbundinnar kólnunar á norðurhveli. Hún kann að leiða til þess að Ísland verði óbyggilegt. Hagsmunir Íslendinga til lengri tíma að felast í að koma í veg fyrir að það gerist. Við megum ekki láta skammtímahagsmuni blinda okkur og taka þátt í einhverju sem mundi leiða til þess að þetta land yrði óbyggilegt. Er það það sem hv. þm. Kristján Pálsson vill? Ætlar hann að gera eftirkomendum sínum það?

Herra forseti. Þessi málflutningur dæmir sig auðvitað sjálfur. Ef hv. þm. segir: Ég hef hagsmuni Íslendinga að leiðarljósi, þá hlýtur hann að fallast á að sú mynd sem hæstv. umhvrh. dró í fyrra upp af þeirri framtíð sem kann að bíða okkar ef ekki verður tekið í taumana, er mynd sem við viljum helst ekki vera hluti af. Okkur ber siðferðileg skylda til þess að taka á með öðrum þjóðum heims. Við getum ekki verið stikkfrí í þessu máli. Þetta er ekki mál sem aðeins varðar aðra. Þetta er mál sem gæti, ef verstu spár rætast, e.t.v. komið verst við Íslendinga. Hvað verður þá um Suðurnesin sem hv. þm. Kristján Pálsson ber svo mjög fyrir brjósti?