Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:04:35 (195)

1998-10-08 11:04:35# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:04]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég held að ástæða sé til að fagna umræðunni sem hér fer fram um þetta mikilvæga mál sem varðar hagsmuni okkar Íslendinga miklu eins og hér hefur komið fram í umræðunni. Hugsanlegar afleiðingar loftslagsbreytinganna sem menn óttast að fylgt geti í kjölfar losunar gróðurhúsalofttegundanna svokölluðu, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson bendir á, varða auðvitað hagsmuni okkar líka á ýmsan annan hátt, t.d. varðandi nýtingu á auðlindum okkar. Þær varða einnig hagsmuni okkar í atvinnuuppbyggingu og í efnahagslegu tilliti þannig að að mörgu er að hyggja í þessu efni. Því er ekki óeðlilegt að Alþingi velti þessu fyrir sér og hv. þm. skiptist á skoðunum um málið.

Ég kem hér aftur upp, hæstv. forseti, af því að til mín var beint nokkrum athugasemdum sem mér finnst ástæða til að svara. Þar eru t.d. fullyrðingar sem hafa komið fram hjá hv. þm. um að við séum eftirbátar annarra og við gerum of mikið úr sérstöðu okkar, að við ætlum ekki að vera með í samningaferlinu og umræðan af hálfu ríkisstjórnar stjórnist af eigingirni o.s.frv., svo ég nefni nokkur atriði.

Ég vil í fyrsta lagi segja varðandi fullyrðingar af þessu tagi, að við settum skoðanir okkar fram í þessu efni strax við gerð Kyoto-bókunarinnar í Japan í fyrra. Við lýstum því yfir að þrátt fyrir að tekið væri tillit til ákveðinnar sérstöðu, þar er þó viðurkenning á ákveðinni sérstöðu Íslands, þá teldum við það ekki ásættanlegt miðað við þær aðstæður sem við búum við. Mig langar aðeins að nefna tvö eða þrjú atriði í því sambandi. Við höfum talað mikið um húshitunina og takmarkaða notkun á olíu og kolum í því efni sem er afar mikilvægt, en það er auðvitað ekki það eina. Ég tel samt mikilvægt og rétt að draga fram einu sinni enn að það torveldar okkur að leita sömu leiða og aðrar þjóðir í kringum okkur við að standa við ákvæði bókunarinnar.

Í öðru lagi höfum við Íslendingar, og það kom fram í máli hv. frsm. þáltill. í gær, ákveðna sérstöðu í atvinnuháttum okkar. Við erum t.d. mjög háðir sjávarútvegi sem er gríðarlega stór losunarvaldur í þessum gróðurhúsalofttegundum. Að því leyti er kannski erfiðara fyrir okkur að taka á atvinnumálum en fyrir aðrar þjóðir sem byggja efnahagslíf sitt á atvinnuháttum sem ekki hafa eins mikil áhrif á lofthjúp jarðar. Sérstaða okkar er einnig fólgin í því.

Sérstaða okkar er einnig fólgin í því að vera háð samgöngunum í þessu stóra landi sem fáir búa í, þ.e. flutningatækni sem losar kannski hlutfallslega meira af gróðurhúsaslofttegundum en gerist hjá öðrum þjóðum. Ég hef ekki þá tölfræði fyrir framan mig en ég nefni þetta sem sérstöðu. Að minnsta kosti er full ástæða til að taka þessi þrjú atriði fram.

Það á því ekkert skylt við þessi mál þó einn hv. þm., Rannveig Guðmundsdóttir, segði hér í gær: Ætlum við, litla Ísland, að sýna einhverja sérstöðu og vera utan við þegar hin stóru Bandaríki og aðrir þjóðir hafa skrifað undir? Það kemur málinu ekki nokkurn skapaðan hlut við. Við erum ekki að bera okkur saman við Bandaríkin í þessu efni sem þar að auki búa við einna mestu losun sem um getur á íbúa og þurfa sannarlega að taka til hendinni. Okkar forsendur og rök eru bara allt önnur en þeirra. Ég veit reyndar ekkert á hvaða forsendum, hvort eða hvenær þeir hafa ákveðið að skrifa undir. Það skiptir bara ekki máli í samanburði okkar. Ég vil leyfa mér að fullyrða að við séum að vinna með bókuninni. Við erum að vinna með þeim undirtóni sem er í þessu samningaferli öllu, að nýta í auknum mæli endurnýjanlega orkugjafa. Við undirstrikum það með málflutningi okkar og tillögugerð.

Ein af þeim spurningum sem ég fékk frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og einnig frá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur var t.d.: Er ráðherra tilbúinn að staðfesta að bókunin verði undirrituð eftir fundinn hvernig svo sem fundurinn fer? Ég tel mig ekki geta fullyrt það á þessu stigi. Ég hef lýst skoðunum mínum í því efni. Ég hef lýst vilja mínum til þess að Ísland geri það sem það getur til að standa við þau ákvæði sem samningurinn felur í sér. Við eigum að leggja áherslu á að vera þátttakendur í þessum þætti umhverfismálanna í heiminum sem skipir okkur Íslendinga svo miklu máli, ekki síður en aðrar þjóðir.

Strax í upphafi lögðum við fram áherslur okkar í þessu efni. Við áttum þátt í að fá inn sérbókun í Kyoto-samkomulaginu, um málefni smárra hagkerfa, sem við erum nú að reyna að vinna úr. Við bindum miklar vonir við að tillit verði tekið til sjónarmiða okkar í því efni. Það er það eina sem ég get sagt á þessu stigi. Við verðum að sjá hvað kemur út úr því. Síðan verður það ákvörðun ríkisstjórnarinnar og í framhaldi af því löggjafarsamkomunnar hvaða tillögu við gerum varðandi undirritun og hver þátttaka okkar verður í ferlinu. Ég þarf ekki að endurtaka mitt persónulega viðhorf í þessu efni.

Hvað er viðunandi niðurstaða? spurði hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. Ég lýsti aðeins því sem við höfum lagt til í undirbúningsvinnunni og gerðum á Bonn-fundi svokölluðum í júní sl. Þar byggði tillaga okkar í stuttu máli á því að einstökum framkvæmdum megi halda utan losunarbókhaldsins ef þær auki losun um 5% eða meira. Þær byggja á endurnýjanlegum orkugjöfum og bestu fáanlega tækni. Eins er lagt til að þetta eigi aðeins við um ríki sem losa minna en 0,05% af heildarlosun iðnríkja. Ef þetta næði fram að ganga þá gilti þetta aðeins um þrjú ríki úr þeim hópi sem telst til iðnvæddra ríkja. Fyrir utan Ísland eru það aðeins Mónakó og Liechtenstein. Hér er því ekki um mörg ríki að ræða. Hagkerfi þeirra eru lítil og hlutfallslega er því um mjög litla losun að ræða. Við erum að vinna að þessu sem stendur og vonumst til að fá áheyrn hvað þetta varðar.

Ég er sammála hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni þegar hann segir að við höfum í raun minna í höndum af orkuauðlindum en látið er í veðri vaka. Því hef ég áður lýst sem viðhorfi mínu. Þegar rætt er um að við höfum ekki virkjað nema 1/10 eða svo af nýtanlegum orkulindum, þá held ég að það sé alls ekki rétt í ljósi breyttra viðhorfa varðandi umhverfisvernd og náttúruvernd. Ég get deilt skoðunum mínum með honum í því efni.

Einu gleymdi ég varðandi spurninguna um hvað sé viðunandi. Við verðum líka að fá niðurstöðu um hvert viðhorfið til uppgræðslu og skógræktar verður. Skógræktarmálin hafa að einhverju leyti verið tekin inn í samninginn, var gert í fyrra, en varðandi uppgræðsluna er allt enn í fullkominni óvissu. Við höfum líka lagt áherslu á að mikilvægt sé að fá botn í það mál þannig að enn eru ýmis atriði í vinnslu. Okkar aðild að málinu veltur á því hvernig málin þróast á næstu vikum.

Allra seinast vil ég benda hv. þm. á að á morgun mun umhvrn. beita sér fyrir kynningarfundi um stöðu þessara mála. Þar á að kynna viðhorf og afstöðu íslenskra stjórnvalda. Það ætti því að vera auðvelt fyrir hv. þm. að komast nákvæmlega að því sem er að gerast í málinu og hvað við höfum í farteskinu til fundarins í Buenos Aires.