Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:16:03 (197)

1998-10-08 11:16:03# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:16]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins út af þessu um viðhorf ríkisstjórnar og viðhorf umhvrh. og hvert framhald mála verður eða hver staða þeirra er. Það er ekkert nýtt í þessu. Það hefur alla tíð, frá því í Japan fyrir tæpu ári, legið fyrir afstaða ríkisstjórnarinnar sem ég flutti þar inn á þann fund og íslenska sendinefndin gerði þar grein fyrir viðhorfum Íslands sem fælust í þeirri sérstöðu sem við höfum verið að rekja bæði þar og þá og síðar í þinginu og hér og nú. Það er því ekkert nýtt í þessu efni fyrir hv. Alþingi eða fyrir hv. 4. þm. Austurl. Þetta veit hann ósköp vel. Hvort við ætlum að vera samferða öðrum þjóðum eða ekki, það lá líka fyrir þá strax að ýmsar af þeim þjóðum sem komu til fundarins voru tilbúnar að ganga þá strax lengra en síðan varð niðurstaða fundarins.

Af því að verið er að tala annars vegar um viðhorf til umhverfismála og hins vegar viðhorfin til þessa sem efnahagslegs þáttar eða viðskiptalegs þáttar minni ég á að Evrópusambandið, sem hefur talið sig vera einhvern frumkvöðul í þessu efni, fer til fundarins með boð upp á 15% samdrátt í losuninni en fer heim með 8% samdrátt í losuninni. Hvað ætli hafi ráðið í þessu efni? Hvað ætli hafi ráðið því að þeir fara ekki heim og segja: Við skulum samt draga saman í 15%? Það voru auðvitað bara efnahagslegir þættir, efnahagslegar forsendur þessa ríkjasambands eða bandalags sem sætti sig ekkert við það síðar þegar upp var staðið en fara heim með önnur markmið en þeir komu með til fundarins. Við fórum hins vegar með markmið okkar, við lögðum þau fyrir og við stöndum við þau enn þá. Ég held áfram að fylgja þeim eftir á þann hátt sem ég reyndi að gera þá og við gerum fram yfir Buenos Aires-fundinn. Eftir þann fund tökum við afstöðu til málsins.

Samfylgd við önnur ríki er út af fyrir sig ekki önnur en sú að við höfum tekið þátt í svokölluðum regnhlífarhópi. Við höfum ekki verið í neinni sérstakri samfylgd með Liechtenstein og Mónakó. Ég nefndi þau ríki sem eru þau einu sem koma til greina til samanburðar af því að losunin er svo lítil þar en engin samfylgd með þeim ríkjum að öðru leyti.