Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:34:07 (204)

1998-10-08 11:34:07# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:34]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér hefur verið rætt mikið um undirritun Kyoto-samþykktarinnar og afleiðingar hennar. Það hefur ekki komið fram eitt einasta orð um það að hugsanlega sé þessi kenning, koldíoxíð-kenning, röng, en það hafa komið fram efasemdir um það á undangengnum árum að hún sé rétt. Við þekkjum að margar vísindakenningar hafa reynst rangar. Ég nefni t.d. það að jörðin hafi verið flöt, það var einu sinni vísindakenning. Síðan newtonska eðlisfræðin sem var kollvarpað með rannsóknum Max Planck.

Við þekkjum þetta í hagfræði. Þar hafa verið kenningar sem hafa verið umdeildar og í veðurfræðinni, sem er tiltölulega ung vísindagrein, eru stöðugt nýjar rannsóknir og breytingar á kenningum. Það er því mikil spurning hvort sú kenning, sem allt þetta byggir á, sé rétt.

Herra forseti. Það eru ýmis atriði sem hafa áhrif á veðurfar. Til dæmis er talið að vatnsinnihald andrúmsloftsins hafi miklu meiri áhrif á sveiflur í hitafari en koldíoxíðmengunin. Síðan eru einnig uppi kenningar um það að sólvirkni hafi líka mikil áhrif. Það hve mikið vatn er bundið í yfirborði jarðar, í mýrum og slíku eða í skógum, hefur mikil áhrif. Áhrif borgarskipulags á vatnsinnihald yfirborðs jarðar eru þau að það þurrkar upp vatnið. Vatnið er leitt hratt í gegnum skolpræsi og veldur því að borgirnar verða ekki sú dempun á hitafar eins og var áður en byggt var.

Myndun eyðimarka og eyðing skóga hefur valdið miklum flóðum víða um heim og um leið minnkar sú dempun sem skógar hafa á veðurfar og kæling jafnframt. Það er því ýmislegt í þessari vísindakenningu sem orkar tvímælis.

Herra forseti. Sú afleiðing sem þessi kenning veldur hagfræðilega á lífskjör alls heimsins, vil ég segja, er gífurlega mikil. Ég tel sjálfsagt að rannsaka þessa kenningu miklu betur vegna þess að mikið er í húfi. Hér erum við t.d. að tala um þau vandkvæði sem þetta veldur hér á landi m.a. í skerðingu lífskjara. Þetta gerist um allan heim. Þetta skiptir verulegu máli og ég vil hvetja þá aðila sem standa að þessu, þar á meðal hæstv. umhvrh., til að rannsaka betur hvort þessi kenning sé yfirleitt rétt eða hvort einhver önnur atriði valdi hitasveiflum --- ef þau gera það yfirleitt. Það er ekki einu sinni sannað að hiti sé að hækka. Það fer eftir því hvernig það er mælt. Ef mælt er yfir allan heiminn með gervitunglum þá þykjast menn ekki sjá neina hækkun á hitafari. Aftur á móti telja menn að yfir meginlöndum sé ákveðin hækkun á hitafari. Ég bendi á að meginlöndin eru ekki nema 30% af yfirborði jarðar.

Herra forseti. Þá kemur að þeim punkti sem við ræðum hér, þ.e. hvort við eigum að hætta að virkja, hætta að virkja hreina orku, þá alhreinustu í heimi. (Gripið fram í.) Málið er --- vegna frammíkalls --- að það er verið að framleiða raforku um allan heim. Það er verið að framleiða ál, það er verið að framleiða þessi tæki sem við erum að tala um. Spurningin er hvort það eigi að framleiða þau með raforku sem búin er til með kolum eða á að framleiða þau með raforku sem búin er til með hreinni vatnsorku?

Ég tel það allt að því skyldu Íslendinga gagnvart heimsbyggðinni að nota þessa hreinu orku sem við eigum. Það er nánast skylda okkar að framleiða frekar ál á Íslandi en í þéttbyggðri Evrópu þar sem allt er vaðandi í mengun og raforkan er framleidd með mókolum eða kolum. Það er því skylda okkar. Og það er líka skylda okkar að framleiða ál vegna þess að ál er notað í staðinn fyrir járn í auknum mæli í bifreiðar, sem minnkar orkuna sem þarf til að knýja tækin áfram. Þannig að þetta er ekki alveg svona einhlítt eins og menn vilja vera láta.

Vegna þeirra áhrifa sem þessi kenning segir okkur að hækkun loftslags muni hafa á heimsbyggðina, þá er það sjálfsagt, og ég tek undir það, að gæta ýtrustu varkárni. En, eins og ég benti á áðan, ég vil vera viss í minni sök, hvort það sé koldíoxíðmengun sem veldur þessu eða einhverjir aðrir þættir eins og eyðing skóga eða eyðimerkurmyndun o.s.frv. (Gripið fram í: Hver á á njóta vafans?)

Ja, þetta er nú góð spurning, hver á að njóta vafans? Segjum svo að í ljós komi eftir um 30 ár að koldíoxíðmengun væri ekki ástæðan heldur eyðing skóga og eyðimerkurmyndun, sem ekki hafa verið settir peningar í að minnka, þá erum við illa sett, því við gætum notað hið gífurlega efnahagslega tjón sem þetta veldur til þess að rækta upp skóga, t.d. í Himalaja og annars staðar þar sem eyðing skóga hefur verið mjög mikil. Ég hvet því til þess að stuðlað verði að stórauknum rannsóknum á þessu fyrirbæri og þessi kenning fái sterkari undirstöðu en hefur verið hingað til.

Svo er það aftur annað mál, herra forseti, að það er mikið af annarri mengun eins og kolmónoxíðmengun sem þarf að gæta að. Blýmengun og lífræn leysiefni sem þarf að gæta að. Það er að mínu mati allt annar handleggur og ég held að ekki sé vafi á að sú mengun er mjög skaðleg.

En ég vil endurtaka það, herra forseti, að ég skora á hæstv. umhvrh. að hann stuðli að mjög auknum rannsóknum á þeirri kenningu að koldíoxíðmengun valdi hitahækkun á jörðinni.