Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:50:00 (209)

1998-10-08 11:50:00# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:50]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Aldrei þessu vant þá þótti mér hv. þm. tala af nokkurri vankunnáttu. Hann hélt því til að mynda fram að ekki væri sannað að hitastig á jörðinni hefði hækkað. Það þykir fullsannað í dag og það leikur enginn efi á því.

Hv. þm. taldi líka að fram hefðu komið ýmsar gloppur á þeirri kenningu sem hér um ræðir. Ég veit ekki nákvæmlega hvað hann á við. Kannski er hann að vísa til nýlegra upplýsinga frá Danmörku þar sem danskir eðlisfræðingar telja að hitasveiflur á jörðinni ráðist miklu frekar af sólblettum fremur en útstreymi lofttegunda. Ég vil upplýsa það, herra forseti, að þær kenningar standast ekki ef þær eru t.d. bornar saman við hitasveiflur eins og þær eru lesnar úr ískjörnum úr Grænlandsjökli. Ekki er ég því sammála honum um þetta.

Hv. þm. gerir sig líka sekan um að fara með mál sem er fullt af þverstæðum. Hann segir til að mynda að auðvitað eigi að beita ýtrustu varkárni. Þetta segir hann á einum stað í ræðu sinni. En áður var hann búinn að halda því fram að ekki ætti að grípa til ráðstafana fyrr en búið væri að sanna það endanlega að þessar afleiðingar yrðu sem við erum að reifa hérna. Mér finnst að ekki sé hægt að halda fram annars vegar að það eigi að beita ýtrustu varkárni og síðan að bíða eftir því að skaðinn verði.

Mig langar líka að ræða hagfræðihliðina á þessu dæmi. Hv. þm. segir það fullum fetum að þetta muni leiða til einhvers konar efnahagslegrar stöðnunar. Ég held hins vegar að Kyoto-samkomulagið muni einmitt leiða til þess að miklu hraðari þróun verði á ýmsum sviðum tækni og vísinda. Nú þegar erum við farin að sjá að verið er að veita gríðarlegt fjármagn í að þróa nýjar bílvélar og þróa nýja tækni sem lýtur að endurnýjanlegum hreinum orkugjöfum. Það er jafnvel verið að búa til skip sem er drifið með miklu minna eldsneyti en unnt er í dag. Með öðrum orðum held ég að við stöndum á barmi tæknibyltingar og að það verði einmitt Kyoto-samkomulagið sem hrindi okkur yfir þann þröskuld sem við höfum dvalið við allt of lengi.

Ég held þess vegna, herra forseti, að þegar upp er staðið þá muni þetta samkomulag leiða til efnhagslegra framfara þó að þeirra gæti ekki alveg á fyrstu árum.