Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:58:06 (213)

1998-10-08 11:58:06# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég á mjög erfitt með að sitja hjá þegar umræðan berst inn á gamalt áhugasvið mitt sem eru loftslagssveiflur eða loftslagsbreytingar. Hér hafa menn nefnt til sögunnar ýmsar kenningar á því sviði svo sem eins og möguleg áhrif sólbletta eða sólgosa á loftslag á jörðinni. Það væri gaman að vita hvort menn hafa kynnt sér svonefndar Milankovitch-kenningar sem þekktur serbneskur stærðfræðingur setti fram um aldamótin síðustu um að vissar reglubundnar sveiflur væru þarna á ferðinni. Þá hafa menn jafnvel haldið því fram að breyttir hafstraumar og fyrirbæri eins og El Niño og önnur sambærileg væru þarna orsakavaldar. En síðast en ekki síst, og það sem langmest hefur farið fyrir á síðustu árum, eru nýjar vísbendingar um svonefnd gróðurhúsaáhrif það sem nánast hefur tekið yfir. Langflestir vísindamenn eru nú uppteknir af því að leita skýringa á loftslagsbreytingum og þó sérstaklega því fyrirbæri að lofthjúpur jarðarinnar er að hitna upp vegna aukins magns svonefndra gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum.

Ég held að hv. þm. Pétur Blöndal sé á afar þunnum ís þegar hann fer út í það hér að segja að vegna þess að gróðurhúsaáhrifakenningin sé ekki sönnuð þá sé kannski ástæða til að fara varlega gagnvart því að bregðast við henni. Þetta er akkúrat dæmi um viðbrögð sem hafa reynst mönnum mjög hættuleg þegar umhverfismál eiga í hlut. Þetta er sama aðferðin og Bretar notuðu í 20 ár til þess að tefja öll úrræði gagnvart súru regni. Þeir sögðu: ,,Það er ekki sannað að iðnaðarmengunin í Bretlandi sé að valda súru rigningunni í Skandinavíu.`` Þannig þvældust þeir fyrir málinu í 20 ár. Síðan tóku þeir önnur tíu ár í það að hækka skorsteinana eins og það væri einhver lausn í málinu.

[12:00]

Staðreyndin er að þessar kenningar sannast yfirleitt fyrst og fremst í gegnum afleiðingarnar. Orkubúskapurinn og lofthjúpur jarðar eru svo flókin og gígantísk fyrirbæri að þau er ekki hægt að setja upp í tilraunastofu sem litla og einangraða tilraun og sanna eða afsanna nokkurn skapaðan hlut. Öflugustu tölvur heimsins ráða ekki við að reikna þetta fyrirbæri út. Þannig viðurkenna allir vísindamenn upp að vissu marki að þetta muni hvorki sannað né afsannað, öðruvísi en gegnum afleiðingarnar. Þær geta hins vegar orðið svo skelfilegar að hér er sjálfsagt að láta varúðarregluna ráða.