Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 12:13:43 (215)

1998-10-08 12:13:43# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[12:13]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Þetta hefur um margt verið mjög merkileg og góð umræða í dag og í gær um fyrsta mál samfylkingar jafnaðarmanna. Það er greinilega heilmikill pólitískur ágreiningur um þetta mál eins og fram kom hjá hv. 1. flm. þessarar tillögu. Sá pólitíski ágreiningur er þó einnig innan þessara nýju samtaka. Það hefur komið í ljós að þeir sem tóku hér til máls í gær, t.d. hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, hefur ekki verið hér í þingsalnum í dag til að svara fyrir það sem hún kom með í sínu máli. Það er greinilega pólitískur ágreiningur hér.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson benti á að hv. þm. Gísli Einarsson hefði ekki tekið þátt í þessari umræðu, hann hefur þó látið sig umhverfismál miklu skipta.

Í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar kom hins vegar aldrei fram svar við meginspurningu okkar: Hver er afstaða samfylkingarinnar eða hans persónulega, um t.d. magnesíumverksmiðjuna á Suðurnesjum? Þessari spurningu á hv. þm. eftir að svara.