Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 12:40:23 (229)

1998-10-08 12:40:23# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[12:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en kemst þó ekki hjá því að tjá mig aðeins um viðbrögð hv. þm. Ágústs Einarssonar við spurningum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Ég tel að viðbrögð hv. þm. hafi verið röng, eða öllu heldur réttar orðað ekki skynsamleg því ég held að það liggi í hlutarins eðli að eðlilegt sé að spyrja um það hvort menn geri sér ljósar afleiðingar þess að taka upp hina gjörbreyttu stefnu og í ljósi þess að andstaða ríkisstjórnarinnar við undirritun Kyoto-samningsins er auðvitað drifin áfram að verulegu leyti af þeim stóriðjuáformum sem ríkisstjórnin er með á borðinu. Og ríkisstjórnin áttar sig á því þrátt fyrir allt að ef hún skrifar undir bókunina og framkvæmir hana, þá eru þessi áform út úr myndinni og því finnst mér samhengi þessa máls svo augljóst að það er ekki hægt að kalla það neina meinbægni að bregðast illa við því þótt þingmenn leyfi sér að spyrja í umræðunni: Þýðir þetta þá að í tengslum við þá tillögu sem hér er flutt af nokkrum hv. þm. sé á ferðinni stefnubreyting hvað varðar afstöðu þeirra þingmanna eða flokka sem þeir eru fulltrúar fyrir til slíkra áforma? Nú tek ég fram að ég fagna því auðvitað ef Alþfl. er í alvöru að reyna að taka sig á í umhverfismálum. Og ég viðurkenni fúslega að mér finnst það gott ef Alþfl., sem var á síðasta kjörtímabili meira og minna kolóður stóriðjuflokkur undir forustu þáv. iðnrh. og þm. Jóns Sigurðssonar, hefur nú tekið upp þar aðrar áherslur og geðþekkari og vill setja spurningarmerki við þá siglingu sem þá var efnt til. En staðreyndin er reyndar sú, herra forseti, að nú eru að koma til framkvæmda hlutir sem voru í stóriðjuaukningu undirbúnir í stjórnartíð Alþfl. og af ráðherrum Alþfl. og ber þar auðvitað hæst stækkunin í Straumsvík og jafnvel að einhverju leyti framkvæmdirnar á Grundartanga þótt þær kunni nú að mestu leyti að hafa komið til sögunnar síðar.

Ég tel að þetta samhengi málsins sé svo augljóst og eðlilegt að menn geti ekki brugðist neitt illa við því þótt spurt sé út í það. Ég er hins vegar sammála hv. þm. Ágústi Einarssyni að því leyti til að mér finnst heldur dapurlegt að menn taki afstöðu í þessu máli út frá þröngum hagsmunum og atvinnutækifærum í kjördæmum sínum. Það er auðvitað á lágu plani að ræða málið þannig, eins og hv. þm. Kristján Pálsson gerði áðan og kemst ekkert annað að í hans huga en störfin við hermangið og störfin við einhverjar fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir í kjördæmi hans og það er greinilegt að hv. þm. rís ekki hærra í þessum efnum en það að honum finnst ekkert annað skipta máli. Framtíð lífs á þessari jörð og umhverfið, lofthjúpurinn, það er einhvers staðar langt í burtu þegar hv. þm. Kristján Pálsson er að velta þessum hlutum fyrir sér, a.m.k. þegar styttist í prófkjör Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi. Nei, hér eru auðvitað mjög stórir hlutir á ferð, herra forseti, og ég ætla ekki að fara að fara aftur inn í þá eða opna aftur upp þá umræðu sem auðvitað er fullkomin þörf á að Alþingi fari rækilega yfir, og verðskuldar jafnvel betri umfjöllun og meiri en tími og rúm leyfir í umfjöllun um eina þáltill. Þá á ég við þau margvíslegu áhrif sem breyttar aðstæður í þessum efnum koma til með að hafa, eða ættu að hafa ef mannkynið og þar með taldir við Íslendingar tekur alvarlega á þessum hlutum. Ég held að loftslagsbreytingarnar og gróðurhúsaáhrifin séu þar mjög stór þáttur þótt mjög mörg önnur alvarleg umhverfisvandamál megi ekki gleymast og hverfa í skuggann af umræðunni um gróðurhúsaáhrifin. Ég get reyndar ekki annað en játað það að ég hef vissar áhyggjur af því hvað við erum upptekin þessi árin af vandamálinu sem snýr að lofthjúpnum og loftslagsbreytingunum sem slíkum sérstaklega, og það hafi valdið því að minna er fjallað um ýmislegt annað sem er að gerast og er stóralvarlegt.

[12:45]

Merkur maður sem ég tek mark á í þessum hlutum, kunningi minn erlendur, hefur sagt mér að hann sé þeirrar skoðunar, og er hann þó einn af helstu sérfræðingum einmitt um loftslagsbreytingar, að þrátt fyrir allt þá muni önnur umhverfisvandamál reynast alvarlegri og nær okkur í tímanum en loftslagsbreytingarnar þó að jafnvel það versta gangi eftir í þeim efnum. Og til hvers er þá verið að vísa? Þá er sérstaklega verið að vísa til eyðingar regnskóganna og eyðingar jarðvegs sem er gígantísk og er að keyra mannkynið, einnig með tilliti til vaxandi fólksfjölda, beint í hungur, beint í hungurgildru vegna þess að það gengur með ótrúlegum hraða á það þurrlendi jarðarinnar sem er hæft til framleiðslu matvæla.

Hið sama á við um regnskógana sem eru gífurlega mikilvægir af margvíslegum ástæðum, t.d. vegna þess lífs sem þar er og vistkerfa sem þar eru, vegna áhrifa á loftslag svæðisbundið og vegna þess að þeir eru uppspretta margs konar efna til lyfjagerðar og ýmissa hluta. Það var hrollvekjandi frétt á einni sjónvarpsstöðinni, ég held það hafi verið í gærkvöldi, um hinar óbeinu eða jafnvel beinu afleiðingar af þróunarhjálp eða styrkjum Evrópusambandsins í tilteknu Mið-Afríkuríki sem hafa leitt til þess að á skömmum tíma er búið að fella um helming af regnskógum í því landi.

Þó að hér séu stór og alvarleg mál á ferð sem verðskulda athygli og kalla á að við bregðumst við og séum menn til að breyta hugsunarhætti okkar og jafnvel lífsvenjum þá er þar ýmislegt fleira á ferðum.

Að síðustu verð ég að segja að mér finnst það alveg merkilegt þegar menn koma upp í þessari umræðu og tala um þær takmarkanir sem alþjóðasamningurinn um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda kunni að hafa á hagkerfi heimsins eins og alveg sérstakt vandamál í því samhengi og jafnvel almennt talað. En eru það ekki einmitt slíkar takmarkanir, það að slíkar bremsur verði settar á hið taumlausa neyslukapphlaup og græðgi Vesturlandabúa, sem eru lífsnauðsynlegar nánast í öllu tilliti. Það er alveg sama hvar okkur ber niður á sviði umhverfismála, mengunar og auðvitað loftslagsbreytinga, græðgin, þessi taumlausa neysla og vítahringur hagvaxtarskrúfunnar sem verður að vera 2--3% á ári því annars fer allt í steik eins og ástandið í efnahagskerfi heimsins sannar nú um þessar mundir, er að leiða okkur í glötun. Þó að engar loftslagsbreytingar kæmu til og engin þörf væri á því að takmarka sérstaklega gróðurhúsalofttegundalosunina þá er bara svo margt annað í umhverfismálunum sem kallar á slíkar aðgerðir að það hálfa væri nóg.