Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 14:19:02 (234)

1998-10-08 14:19:02# 123. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 7. mál: #A húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[14:19]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ríkisstjórnin tók þá stefnu að lækka álögur á atvinnulífið, minnka það helsi og þá hlekki sem höfðu verið lagðir á atvinnulífið sem varð t.d. til þess að fiskvinnslufyrirtæki fóru að prófa nýjar tegundir af útflutningsafurðum. Það hefur m.a. átt þátt í þeirri verðhækkun sem hefur orðið á útfluttum fiski. Það er allt önnur afurð sem er flutt út núna en fyrir 10 árum. Þetta leiðir m.a. að því að það eru minni álögur á atvinnulífið. Það er meira pláss fyrir frumkvæði atvinnulífsins.

Ég ætla ekki að þakka ríkisstjórninni lækkun á olíu, það dettur mér ekki í hug. En ég held að ríkisstjórnin eigi einhvern þátt í hinu. Hún á sérstaklega þátt í því hvað laun hafa hækkað mikið. Það vil ég þakka ríkisstjórninni að einhverju leyti eða stefnu hennar gagnvart fyrirtækjunum.

Varðandi öryrkja og aðra slíka hafa kjör þeirra verið bætt. Þau hafa verið bætt umfram verðlag. Það þýðir ekkert að halda öðru fram. Þau munu batna enn frekar ef atvinnulífið fær að vera myndarlegt og standa sig vel. Ég hvika ekki frá þeirri sannfæringu minni að það er atvinnulífið sem stendur undir velferðarkerfinu og ekkert annað.