Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 14:20:32 (235)

1998-10-08 14:20:32# 123. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 7. mál: #A húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[14:20]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf talað af þessum frjálshyggjuleiðtogum eins og ríkið sé ekki með atvinnulíf. Hvað með fólkið sem vinnur hjá ríkinu, eru þetta bara afætur? Auðvitað er það hluti af atvinnulífinu í landinu og skiptir þar af leiðandi mjög miklu máli hvernig það heldur á sínum málum.

Veruleikinn er auðvitað sá, eins og hv. þm. þekkir náttúrlega, að um leið og hagvöxtur hefur orðið á undanförnum árum er alveg greinilegt að ekki hefur verið varið aukalega fjármunum til þess að bæta við velferðarkerfið.

Til dæmis er aukningin í heilbrigðis- og tryggingamálum, sem menn eru stundum að tala um, ekki viðbót heldur fyrst og fremst viðurkenning á fjölgun. Það er ómerkileg talnaleikfimi sem í þessu máli er t.d. stunduð í greinargerð og skrifuð í grg. fjárlagafrv. fyrir árið 1999 þannig að það er með ólíkindum.

Hver er svo veruleikinn sem blasir við fjölskyldunni? Segjum að við séum með fjölskyldu í blóma lífsins, fullvinnandi fólks þar sem tveir eru úti að vinna og hafa kannski 200 þús. kr. á mánuði hvor eða 400 þús. kr. Augljóst er að hagvöxturinn hefur bætt gífurlega miklu við tekjur þessa fólks. En hver er staða þess manns, karls eða konu, sem reynt hefur að framfleyta sér og sínum af 40--50 þús. kr. á mánuði? Hve mikið hefur bæst við hjá því fólki? Það er lítið sem ekkert. Veruleikinn er sá að ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að tryggja að einhver hluti af hagvextinum fari til þessa fólks.